138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er úr vöndu að ráða fyrir mig að svara þessari spurningu svo vel sé af því að ég sit ekki ríkisstjórnarfundi og hef ekki upplýsingar um hvað fer manna á milli þar. En það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti hér á, þegar menn skoða þessar stærðir í samhengi sjá þeir auðvitað hversu grafalvarlegt þetta mál er. Um leið verður það voðalega hjákátlegt þegar maður heyrir það hjá sumum fréttamönnum, svokölluðum bloggurum og jafnvel hjá sumum hv. þingmönnum að við hv. alþingismenn séum að að eyða tíma þingsins og þjóðarinnar í að ræða þetta mál, það er alveg furðulegt. Og rétt eins og það dæmi sem hv. þingmaður nefndi varðandi stöðu heimilislausra og allra þeirra sem þurfa á hjálp samfélagsins að halda, má ljóst vera að við Íslendingar höfum minna á milli handanna til þess að standa undir samfélagsþjónustunni sem nemur þeim greiðslum sem við þurfum að greiða til Breta, hin svokölluðu Bretagjöld. Það er augljóst, það þarf engan reiknisérfræðing til þess. Það má jafnvel gefa Indriða Þorlákssyni frí þann daginn, það þarf ekki einu sinni hann sjálfan til þess að átta sig á þessu. Það er það sem svíður svo mjög í þessu máli. Ég veit að við stjórnarandstæðingar eru ekki einir um að finna það, auðvitað svíður stjórnarliðum þetta líka, ég er alveg sannfærður um það.

En spurningin sem ég velti hér enn og aftur upp í ræðu minni er þessi: Hvaða áhættu ætlum við að taka? Þegar við erum að reyna að leggja mat á þessa áhættu verða menn að gera það sem hv. þingmaður gerði hér áðan, að setja þessa hluti í samhengi. Hvað er það sem mun gerast á Íslandi? Hversu mikla fjárhæðir eru þetta á dag sem við þurfum að reiða af hendi til Breta og Hollendinga? Á móti því verða menn að meta hvaða áhrif það hefur, til skamms tíma (Forseti hringir.) væntanlega, í eitt, tvö eða þrjú ár, ef þessar þjóðir (Forseti hringir.) beita sér gegn okkur af mikilli hörku.