138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar Hæstiréttur felldi dóm um að öryrkjalögin væru andstæð stjórnarskránni og þegar Hæstiréttur felldi dóm um að kvótamálin væru andstæð stjórnarskránni varð uppi fótur og fit á Alþingi og vilji til að breyta lögunum þannig að þau væru í samræmi við stjórnarskrána og dóm Hæstaréttar. Það er nefnilega mjög mikið atriði að lög frá Alþingi og ályktanir séu í samræmi við stjórnarskrána, enda höfum við svarið eið að henni.

Þess vegna finnst mér að menn eigi að taka mjög alvarlega allar hugleiðingar um það, og frá virtum mönnum, að með þessum lögum gæti stjórnarskráin verið brotin. Hv. nefnd á að fara mjög ítarlega í gegnum það, og það á nokkrum fundum til að hafa það alveg skothelt að við séum ekki að brjóta stjórnarskrána. Það væri ekki gott ef við samþykktum þessi lög, sem ég vona að verði aldrei, og ef forseti Íslands mundi undirrita þau, sem ég vona líka að verði aldrei, ef svo Hæstiréttur dæmdi lögin ógild. Það yrði ekki gott fyrir þá sem stæðu að samþykkt þessara laga. Ég held að menn þurfi að fara mjög varlega í að samþykkja lög sem svona mikil áhætta er fólgin í.

Það er nefnilega mjög erfitt að átta sig á upphæðinni. Ef neyðarlögin falla, ef svo ólíklega skyldi vilja til, er skuldbindingin allt í einu orðin þúsund milljarðar. Ef verðhjöðnun verður í Bretlandi verður byrðin óbærileg. Það eru svona þættir sem kannski koma og kannski koma ekki sem gera það að verkum að þessi skuldbinding er allt of ótakmörkuð.