138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það virðist koma nokkuð skýrt fram í svari hv. þm. Árna Johnsens að hann telur að Evrópusambandið hafi beitt sér og hafi jafnvel haft, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni, uppi grímulausar hótanir vegna Icesave-málsins. Það vekur því furðu mína, þar sem hæstv. fjármálaráðherra starfar náið með forsætisráðherra, að forsætisráðherra hafi ekki verið upplýst um þessar hótanir. Það er náttúrlega sérstaklega mikið áhyggjuefni í ljósi þess að forsætisráðherra hefur verið mikill áhugamaður um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það hefði þurft að upplýsa ráðherrann um að þessi ágreiningur á milli Íslands, Bretlands og Hollands gæti haft einhver áhrif á þá umsókn. Maður spyr því hvort ráðherrann hafi ekki verið upplýst um þetta eða hvort hún hafi bara valið að hunsa þetta algjörlega í þeirri ákvörðun sinni að sækja um aðild (Forseti hringir.) að Evrópusambandinu.