138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt lykilatriði að þeir efnahagslegu fyrirvarar sem voru nokkuð sterkir í sumar — og við framsóknarmenn vorum kannski mun sáttari við þá en t.d. lagalegu fyrirvarana, við töldum að það hefði mátt ganga lengra. Það var ástæðan fyrir því að við vorum ekki samþykkir því á sumarþinginu að ganga frá málinu með þeim hætti og töldum eðlilegra að fara samningaleiðina strax sem ríkisstjórnin virðist hafa gert og kom með lakari samning til baka. Það var það sem við óttuðumst.

Í samningnum eru ákvæði, svokölluð vanefndaákvæði, sem ég hef haft miklar áhyggjur af. Þau gera það að verkum að ég held, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að ekki sé hægt að samþykkja þetta núna og semja seinna. Ég held að þessi vanefndaákvæði geri það að verkum að okkur séu satt best að segja allar bjargir bannaðar hvað það varðar, við getum á engan hátt komið seinna og reynt að laga þennan vonlausa samning. Ég held því að það sé eðlilegast að við reynum enn á ný að fara og ræða við Breta og Hollendinga um hvort við getum ekki náð betri niðurstöðu en orðin er.