138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem Lee Buchheit sagði var einfaldlega þetta: Annaðhvort setjið þið mjög sterka efnahagslega fyrirvara — og honum var gerð grein fyrir því í stuttu máli hvað menn væru að hugsa þar, hvernig það gæti gerst — ellegar gangið þið til samninga eftir að búið er að skipta þrotabúinu. Hann varaði okkur við því að gera það öðruvísi, en sagði líka að mjög mikilvægt væri í restina, þegar málið hefði verið á þessu embættismannastigi, þegar menn næðu lendingunni, að fara upp á hið pólitíska, þar yrði endahnykkurinn að verða. Taka þyrfti málið úr þessum þröngu skorðum embættismannanna og færa það upp á pólitíska sviðið. Þannig ráðlagði hann okkur að vinna og þetta er einn reyndasti samningamaður í víðri veröld. Því miður báru stjórnvöld ekki gæfu til — þá líka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar — (Forseti hringir.) að fá svona menn til að leiða sig í gegnum þetta þannig að við höfum verið að gera vitleysur í þessu máli alveg frá upphafi. (Forseti hringir.)