138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[22:55]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð að fá að nota tækifærið fyrst rætt er um breytingar á sjúkratryggingalögunum af því að þegar lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, voru sett fyrir rúmu ári hef ég gefið mikið fyrir að fá að standa í þessum stól.

Atriðið sem ég vil ræða snertir einmitt gerð samninga um veitingu heilbrigðisþjónustu sem hér er rætt um þó vissulega séum við að tala um sértækari atriði í þessu frumvarpi. Ég vil fá að lesa upp úr ályktun sem ungir jafnaðarmenn sendu frá sér þann 9. september í fyrra, árið 2008, þar sem útskýrt er hvaða breytingar ég hefði m.a. viljað gera. Þar segir um frumvarpið, með leyfi frú forseta:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að hægt verði að fela einkaaðilum rekstur heilbrigðisþjónustu án þess að tryggt sé að þær reglur sem gilda um opinbera þjónustu og eiga að miða að því að vernda réttaröryggi borgarinnar verði látnar gilda áfram.“

Þetta þýðir að grunnreglur stjórnsýsluréttarins eða, frú forseti, óskráðar meginreglur, eins og einnig er vísað til þeirra, og hæfisreglur munu ekki gilda um starfsemina verði aðilum utan opinbera kerfisins falinn rekstur heilbrigðisstofnunar eða hluta slíkrar stofnunar. Einnig gerir frumvarpið ekki ráð fyrir að fyrir hendi sé eftirlitsaðili, svo sem óháð úrskurðarnefnd sem einstaklingar sem telja einkaaðila ekki sinna skyldum sínum með eðlilegum hætti geti leitað til. Þessar kröfur, frú forseti, tel ég að séu í afar góðu samræmi við stefnu flokks míns, Samfylkingarinnar, um að réttarstaða einstaklinga breytist ekki verði einkaaðilum falið að sinna þjónustu á sviði heilbrigðismála.

Nú mætti spyrja sig, frú forseti: Hvað er ég að biðja um með þessum athugasemdum? Ég geri mér grein fyrir að þessar athugasemdir snerta ekki efni frumvarpsins þráðbeint. Engu að síður mundi ég vilja biðja um að heilbrigðisnefnd ræði þessa athugasemd. Ég veit ekki hve vel það samrýmist þingsköpum að gera breytingar í þá átt sem ég mundi vilja sjá, alla vega undir þessu þingmáli, en ég mundi engu að síður vilja biðja nefndina að athuga þetta mál afar vel og heilbrigðisráðherra jafnframt.