138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra þessa yfirferð. Það er tvennt sem mig langar til að vekja athygli á. Annars vegar umræðunni um hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði eitthvað komið að þessum skattkerfisbreytingum. Það er eitt sem virðist vera svolítill plagsiður og birtist í þessum breytingum og í bandorminum í sumar og það er að Íslendingar nýta sér ekki þau tækifæri sem þeir hafa til að fá sérfræðihjálp við svona breytingar. Þá er ég ekki að tala um tekjuskattskerfisbreytingarnar, þær eru tiltölulega „straight forward“, en aftur á móti öll þessi tæknilegu atriði. Það er ljóst að gríðarlega mikil mistök voru gerð, þrátt fyrir að ríkisstjórnin væri eindregið vöruð við því að setja á þessa afdráttarskatta enda er þeim frestað trekk í trekk vegna þess að næstum því ómögulegt er að útfæra þá tæknilega og þeir skila engum tekjum. Hins vegar er það sem við erum að sjá núna og ég nefndi áðan sem dæmi þetta með skuldsettu yfirtökurnar sem er einhver meinloka sem hefur verið í gangi en skilar raunverulega ekki neinu, skemmir fyrir frekar en hitt. Þarna hefðu t.d. skattasérfræðingar OECD getað komið að góðum notum.

Mig langar til að minnast á eitt. Hér er sagt að ekki skipti máli hvort skattar séu beinir eða óbeinir, að heimilin séu jafnsett. Það er ekki alveg rétt vegna þess að skuldir heimilanna hækka út af hækkun neysluvísitölu. Þær skattahækkanir sem eru boðaðar hér og við sáum í sumar eru rúm 2% (Forseti hringir.) sem er svigrúm Seðlabankans, þ.e. verðbólgumarkmið Seðlabankans, þannig að ef hægt er vegna (Forseti hringir.) þessarar ólukkans tengingu neysluverðsvísitölu og lána að sleppa því að hækka neysluvísitöluna (Forseti hringir.) þá er það vel gert.