138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég tel enga ástæðu til að samþykkja þetta frumvarp akkúrat núna. Ég held að þetta sem við erum að ræða núna og þessi gögn sem við getum núna farið að tala frjálslega um muni einmitt sýna þjóðinni að það á mikið eftir að ræða, og það er fullkomið ábyrgðarleysi ef við ætlum að samþykkja þetta mál að ég tali ekki um að samþykkja það óbreytt. Það er þess vegna sem við féllumst á þetta samkomulag sem virtist vera komið í uppnám. En það er alveg rétt hjá þingmanninum að þetta er orðið eins og heit kartafla sem allir eru að henda á milli sín. Ég er satt að segja orðin afskaplega ringluð á þessum leik, ég horfi á kartöfluna hent á milli. Ég fór því að leita aðeins á netinu hvað íslensk stjórnvöld hafa sagt um þetta, ég hef ekki tíma til að fara yfir það allt saman núna, bíð með það þangað til í næstu ræðu minni. Með leyfi forseta, segir hæstv. utanríkisráðherra 8. maí á mbl.is þegar verið er að ræða um það hvort bresk stjórnvöld séu í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um það hvernig okkur muni ganga að borga niður þessar skuldir:

„Össur segist telja að ummæli Gordons Browns um að bresk stjórnvöld séu í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hversu hratt Ísland greiði Icesave-skuldirnar séu hrein vitleysa og ekki sannleikanum samkvæmt. Að minnsta kosti hafi Íslendingar ekki vitað til þess og viðræður við Breta og Hollendinga vegna þeirra samninga séu tvíhliða og alls ekki í verkahring sjóðsins.“

Þetta segir hæstv. utanríkisráðherra 8. maí og nú er komið í ljós að hálfum mánuði á undan hafa Íslendingar einmitt verið að ræða í einhverjum einkatölvupóstssamskiptum um það hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar að koma að þessu og biðja um ráðleggingar. Þetta er allt saman komið í hring og eins og ég segi, (Forseti hringir.) það er sannkallað ábyrgðarleysi að klára málið með þessum hætti.