138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (frh.):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 2. umr. fjárlagafrumvarp ársins 2010 og í ljósi þess hversu gríðarlegur áhugi er á þessu mikla máli fagna ég því að hér eru allnokkrir hv. þingmenn að hlusta sem er hið besta mál og raunar full þörf á, ekki síst í ljósi þess hluta ræðunnar sem ég ætla að fara yfir núna sem lýtur að jöfnuði í ríkisfjármálum.

Það er alveg ljóst að gríðarleg áhrif urðu af þessu hruni íslenska fjármálakerfisins, sem margoft er búið að ræða, á fjárhag og afkomu heimila og fyrirtækja í landinu og þar með um leið ríkissjóðs. Því er afar áríðandi við aðstæður sem þessar að auka festu í útgjaldastýringu ríkisins (BJJ: Rétt.) og stuðla að því að aðhalds sé gætt í rekstri hins opinbera. Liður í því verkefni er að leggja fram með fjárlagafrumvarpinu stefnu í ríkisfjármálum til næstu þriggja ára þar á eftir.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gerð slíkrar áætlunar til þriggja ára sagt forgangsverkefni á sviði ríkisfjármála og í ljósi þess var í júní lögð fyrir Alþingi skýrsla um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013. Þar er stefnt að því að frumjöfnuður ríkissjóðs verði orðinn jákvæður árið 2011 og heildarjöfnuður sömuleiðis árið 2013. Vegna mikilvægis kröfunnar um aðhald, aga og festu er áríðandi að þeirri áætlun sem gerð var verði fylgt og nauðsynlegt að meta framgang hennar í tengslum við gerð fjárlaga ársins 2010 og þess viðfangsefnis sem við ræðum hér í dag.

Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar kom fram í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu að fjármálaráðherra mundi leggja fram endurskoðaða skýrslu um aðlögunaráætlunina við þá umfjöllun sem hér á sér stað. Jafnframt voru gefin fyrirheit um að unnið yrði að nánari útfærslu stefnumörkunarinnar af hálfu ríkisstjórnarinnar, bæði varðandi tekjuöflun ríkissjóðs sem og um einstakar áherslur á gjaldahlið og útgjaldaramma ráðuneyta. Þar sem allnokkur lausatök hafa verið á framkvæmd fjárlaga ársins 2009 er bagalegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríkisstjórnin hafi ekki jafnhliða þessari umræðu lagt fram endurskoðaða aðlögunaráætlun þar sem gert er ráð fyrir að lagfæra það sem úr lagi er gengið í ríkisfjármálum á skömmum starfstíma ríkisstjórnarinnar.

Áætlun hennar miðaðist við að ná fram verulegum afkomubata ríkissjóðs á árinu 2010, frumjöfnuður átti að verða neikvæður um 25 milljarða kr. og heildarhalli ríkissjóðs áætlaður rúmir 87 milljarðar kr. Til að ná þessum markmiðum var gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs mundu aukast um 61 milljarð kr. og yrðu 468 milljarðar kr. og heildarútgjöld ársins 2010 voru áætluð 555 milljarðar kr. og gert var ráð fyrir að þau lækkuðu um 43 milljarða kr. að frátöldum launa-, gengis- og verðlagsbreytingum.

Hver er svo veruleikinn nú við 2. umr.? Ríkissjóðstekjur eru áætlaðar rétt tæpir 460 milljarðar kr., heildargjöldin 560 milljarðar kr. og þá versnar heildarjöfnuður um 14,4 milljarða kr. Hann verður neikvæður um 101 milljarð kr. og neikvæð staða eykst um rúma 14 milljarða kr. Frumjöfnuður við 2. umr. er hins vegar áætlaður tæpir 44 milljarðar kr. og hann versnar um 18,3 milljarða kr.

Þetta kemur ágætlega fram í töflu sem 1. minni hluti lét taka saman um breytingar á helstu lykiltölum fjárlagafrumvarpsins. Þar er augljóst að frumjöfnuður hefur ekki batnað um 3–4% af landsframleiðslu eins og áætlanir fjármálaráðuneytisins gerðu ráð fyrir, heldur hefur hann versnað. Fjármálaráðuneytið hefur í þessum útreikningum sínum miðað við að landsframleiðslan sé rúmir 1.600 milljarðar kr. í stað 1.520 eða 1.560 milljarða kr. sem gert var í útreikningum hjá okkur í 1. minni hluta. Tókum við þar upp tölur úr fjárlagafrumvarpinu og eins þær tölur sem fjármálaráðuneytið hafði notað allt fram undir miðjan þennan mánuð. Hins vegar liggur ekki fyrir neinn rökstuðningur fjármálaráðuneytisins fyrir því hvers vegna í ósköpunum það gengur nú út frá hækkaðri vergri landsframleiðslu um rúma 50 milljarða kr. Það er mjög athyglisvert að skoða og reyna að grafast fyrir um hvað veldur þessari spá fjármálaráðuneytisins um hækkaða verga landsframleiðslu, ekki síst í ljósi þeirra breytinga á þjóðhagsspánni og efnahagsforsendum frumvarpsins sem ég kom að fyrr í ræðunni.

Við höfum ítrekað óskað eftir upplýsingum um árangur þeirra aðgerða sem að var stefnt í svokölluðum bandormi en ekki fengið fullnægjandi svör. Hins vegar höfum við óskað eftir því að Ríkisendurskoðun meti framkvæmd fjárlaga fyrstu 8–10 mánuði ársins og í skýrslu Ríkisendurskoðunar — ber að þakka þá vinnu sem sú stofnun hefur lagt í fyrir fjárlaganefnd til að við getum reynt að vinna okkar verk af þokkalegri skynsemi — kemur fram, með leyfi forseta, að „skattbreytingar sem gerðar voru í júní sl. og raktar voru hér að framan hafa ekki skilað sér nema að litlu leyti í auknum tekjum. Hins vegar má segja að þær hafi forðað því að tekjur drægjust meira saman en áætlað var í fjárlögum“. Jafnframt segir varðandi gjaldahliðina að óhætt sé að fullyrða að aðhaldsaðgerðir á miðju ári hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti.

Þetta eru mjög athyglisverðar staðhæfingar, virðulegi forseti, og af þeim má draga þá ályktun að þær aðhaldsaðgerðir sem boðaðar voru með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, hafi ekki skilað sér eins og til var ætlast enda bera tillögur stjórnarmeirihlutans við 2. umr. fjárlaga þess glögg merki.

Ég vil geta þess hér að samkvæmt óendurskoðuðu yfirliti sem keyrt hefur verið út úr bókhaldi ríkisins kemur fram að tekjuhlið fjárlaga er í heild sinni í samræmi við áætlanir og er ástæðan sú að skattur á fjármagnstekjur, vaxtatekjur og lánatekjur er langt umfram áætlanir, sem nemur tæpum 30 milljörðum kr. Hins vegar ber að geta þess að skattar á tekjur og hagnað einstaklinga eru 9% lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir, skattar og tekjur lögaðila 17% lægri og virðisaukaskattur 9% lægri, sala eigna o.s.frv. Það er ljóst að einkaneysla hefur enn fremur minnkað umfram forsendur fjárlaga ársins 2009 og því er spáð að hún lækki um tæp 17%. Fjárfestingin dregst einnig saman á árinu um tæp 46%, atvinnuleysi eykst á þessu ári o.s.frv. Það er alveg ljóst af þeim upplýsingum sem liggja fyrir, í spám fjármálaráðuneytisins sjálfs og sömuleiðis í upplýsingum út úr bókhaldi ríkisins, að það er mjög veikur grunnur undir þeim áformum skattalagafrumvarps ríkisstjórnarinnar sem nú er til meðferðar til að skila þeim tekjum sem til er ætlast og í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er alveg grundvallaratriði og forgangsverkefni sem ætti að vera af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans að koma gangverki þjóðfélagsins af stað til að fara að skapa hér aukin verðmæti og breikka þá skattstofna sem úr er að spila.

Varðandi gjaldahliðina sérstaklega ber að geta þess að í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar felst að fallið er frá nokkrum aðgerðum sem ætlað var að leiða til sparnaðar í rekstri ríkisins. Í því sambandi má nefna að nú hefur verið fallið frá sameiningu sýslumannsembætta, a.m.k. um sinn, sömuleiðis frá þeirri miklu skerðingu sem fyrirhuguð var varðandi fæðingarorlof. Jafnframt er búið að lýsa því yfir að persónuafsláttur muni hækka um 2.000 kr. þó að hann verði áfram aftengdur vísitölu, auk þess sem áform um lækkun vaxtabóta og barnabóta eru dregin til baka.

Ég vil einnig geta þess að í frumvarpinu sjálfu, eins og það liggur hér fyrir við 2. umr., eru vantaldir ákveðnir þættir, sérstaklega sem varða stöðu sveitarfélaga, gagnvart ríkinu og sem varða greiðslu tryggingagjalds af launagreiðslum sveitarfélaga. Sömuleiðis hafa verið nefndir fyrr í umræðunni vextir vegna Icesave-reikninga og jafnframt nefni ég að ekki er gert ráð fyrir einkaframkvæmdum, svo sem byggingu Landspítalans, samgönguframkvæmdum, eins og Suðurlandsvegi og Vaðlaheiðargöngum, eða tónlistarhúsi. Ekkert af þessum atriðum er í núverandi frumvarpi þó svo að fyrir liggi álit frá ráðgjafarstofnun okkar, Ríkisendurskoðun, um að það beri að fara með þetta inn í reikninga ríkisins.

Sparnaðaráformin sem birtast í því frumvarpi sem hér liggur fyrir eru aðallega fólgin í svokölluðum einskiptisaðgerðum, þ.e. þær koma bara einu sinni til framkvæmda, því að stór hluti aðhaldsins sem beitt er í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir liggur á tiltölulega fáum stöðum. Í fyrsta lagi er þetta á sviði samgöngumála þar sem gert er ráð fyrir 8 milljarða kr. samdrætti, sömuleiðis í félags- og tryggingamálaráðuneyti upp á 6 milljarða, utanríkisráðuneyti í svokölluðum sendiráðsbústöðum sem margoft hefur verið gerð tilraun til að selja, hér er áætluð 2 milljarða kr. lækkun útgjalda vegna þess, viðhalds- og stofnkostnaður í menntamálaráðuneytinu er 500 millj. kr. lækkun — ég ítreka að þetta er í frumvarpinu sjálfu — og aðrir liðir eru smærri. Samtals eru þetta á milli 17 og 18 milljarðar af þeim aðhaldsaðgerðum sem boðaðar voru í fjárlagafrumvarpinu.

Þegar þetta er til umræðu er oft spurt hvert hlutverk minni hluta í umræðum um mál sem þetta eigi á að vera. Oftar en ekki hefur hlutverk minni hlutans verið skilgreint af þeim sem þar starfa, stjórnarandstöðunni, fyrst og fremst í það að veita stjórnarmeirihluta aðhald í því sem hann er að gera, en ég minnist þess mætavel hvernig stjórnarandstaðan bar sig að í afgreiðslu fjárlagafrumvarps á árinu 2007. Þá komu fram ótal tillögur um útgjöld til að ganga nær þeim afgangi sem fyrirhugaður var á rekstri ríkissjóðsins.

Tillögur okkar í 1. minni hluta lúta að því að bæta afkomu ríkissjóðs enn frekar en ráð er fyrir gert við 2. umr. fjárlaga. Við erum ekki með beinar útgjaldatillögur, heldur göngum þvert á móti til þess verks að reyna að leggja stjórnarmeirihlutanum lið við það að ná tökum á þeim gríðarlega vanda sem við er að glíma í ríkisfjármálum.

Ég ætla að nefna hér nokkur atriði, í fyrsta lagi skattheimtu. Skoðun okkar er sú að þau skattalagafrumvörp sem lögð hafa verið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar séu jafngildi þess að kasta ísmolum inn í hagkerfið. Fyrir það fyrsta eru þau illa útfærð, í öðru lagi gefur tíminn sem fyrir höndum er til að vinna þau ekki tilefni til þess að ætla að það verði vönduð lagasetning eins og ber að gæta að þegar um er að ræða álagningu skatta og í þriðja lagi er mjög óvíst um þær tekjur sem umræddum frumvörpum er ætlað að skila ef þau verða að lögum. Þess í stað hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er 1. flutningsmaður að og lýtur að því að ríkissjóður taki til sín … (PHB: Bjarni Ben.) Þakka þér fyrir, hv. þm. Pétur H. Blöndal, 1. flutningsmaður er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Hugsuðurinn að þessu er hins vegar hv. þm. Pétur Blöndal. Útfærslan á þessum tillögum liggur fyrir í frumvarpi sem liggur frammi. Sömuleiðis fylgir þetta sem fylgiskjal með tillögu minni hluta, lýtur að því að ríkissjóður taki til sín skatttekjur sem eru geymdar í séreignarsparnaði í lífeyrissjóðunum. Áhrifin af þessu, eins og þau eru leidd út, sýna fram á að við það að draga til baka þau frumvörp sem nú hafa verið lögð fram af hæstv. ríkisstjórn og taka upp þá tillögu sem frumvarp Sjálfstæðisflokksins gerir ráð fyrir fást 18,7 milljörðum hærri tekjur en af allri skattalagafrumvarpasúpunni sem lögð hefur verið fram og þá er ekkert tillit tekið til þess óhagræðis og þess aukna kostnaðar sem verður til í skattkerfinu verði þessi frumvörp að lögum. Það er óskiljanlegt hvers vegna í ósköpunum þetta mál fær ekki fyllri og betri umræðu en hingað til hefur átt sér stað í sölum Alþingis þegar það liggur fyrir að þetta er einföld aðgerð, fljótvirk og auðvelt að koma henni til framkvæmda en þá er flækjustigið aukið með þeim hætti að enginn sem mætir fyrir efnahags- og skattanefnd virðist sjá annað en svart þegar kemur að því að horfa til þess hvernig þessi frumvörp verði að veruleika.

Í annan stað viljum við nefna hér þá tillögu sem þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa komið á framfæri, hvor með sínum hætti þó, um aukningu aflaheimilda. Það er alveg ljóst að við það að úthluta og auka aflaheimildir sjávarútvegsins munu tekjur ríkissjóðs aukast, hvort tveggja af útflutningsverðmæti en ekki síður er ljóst að auðlindagjald mun hækka í samræmi við þá aukningu sem veiðiheimildir mundu gera að óbreyttum lögum. Að okkar mati gæti þetta þýtt beinar skatttekjur á bilinu 2,5–4 milljarðar kr. og þá er hið margfræga auðlindagjald ekki tekið inn í myndina.

Sömuleiðis leggjum við til breytingar á 6. gr. heimildum í frumvarpinu. Í minnihlutaálitinu frá okkur liggur fyrir tillaga um að fella niður allnokkrar heimildir sem allar lúta að því að ríkissjóður fari nú að kaupa eða leigja húseignir fyrir ýmsa starfsemi sína. Í fyrsta lagi er lagt til að falla frá heimild um að kaupa eða leigja nýtt húsnæði fyrir Vegagerð ríkisins, kaupa eða leigja húsnæði fyrir aðalskrifstofur ráðuneyta, kaupa viðbótarhúsnæði fyrir starfsemi Þjóðleikhúss, kaupa eða leigja húsnæði fyrir Vinnumálastofnun, kaupa viðbótarhúsnæði fyrir Listasafn Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Umferðarstofu, Veðurstofu Íslands og Vatnamælingar og sömuleiðis Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn, leigja viðbótarhúsnæði fyrir landlæknisembættið og kaupa eða leigja hentugt húsnæði fyrir þjóðskrá. Við leggjum til að þessum heimildum öllum saman verði ýtt í burtu. (Utanrrh.: Atvinnuskapandi.) Hæstv. utanríkisráðherra kallar að þetta sé atvinnuskapandi. Það kann vel að vera en meginatriðið er að menn verða að eiga fyrir þeim útgjöldum sem þeir vilja stofna til. Ég fullyrði að það er ekki til fé fyrir þessum fjárskuldbindingum sem hér er gert ráð fyrir, ekki fremur en þeirri umdeildu ákvörðun sem hæstv. utanríkisráðherra er gert að fylgja — ég segi kannski ekki í fullkominni andstöðu við vilja hans en með góðri og skapandi hugsun mætti fullyrða að hann hallaðist að því að framkvæma það sem er aðildarumsóknin að Evrópusambandinu á þessum tíma sem hér liggur fyrir. (PHB: Hvað kostar …?) Það er gert ráð fyrir því að kostnaður vegna þeirrar umsóknar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, í frumvarpinu sé einhvers staðar á bilinu 300–500 millj. kr. á þessu ári fyrir utan að verið er að binda tugi ef ekki hundruð starfsmanna við þá vinnu.

Þetta eru þær beinu tillögur sem við leggjum fram. Ég vil nefna sérstaklega, þó að það komi ekki fjárlagafrumvarpinu sjálfu við, að það er líka tillaga frá 1. minni hluta fjárlaganefndar að Vegagerð ríkisins, Vegagerðinni eins og hún heitir núna, verði heimilað að nýta geymdar eða ónýttar heimildir sem hún átti í árslok 2008 til þess að vinna í smærri framkvæmdum á sínu sviði og Vegagerðinni væri einfaldlega ætlað að ráðstafa því fé til brýnna verkefna, mæta þar með þeirri þörf sem verktakamarkaðurinn kallar eftir og reyna að forða því að hann hrynji gjörsamlega til grunna.

Sömuleiðis er fjallað um margfræga sóknaráætlun forsætisráðherra, sem sumir hafa kallað sóknaráætlun gegn landsbyggðinni, m.a. úr öðrum ríkisstjórnarflokknum. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þess verkefnis verði 25 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu og lagt til að því verði ýtt út. Hagræðing í rekstri A-hluta ríkissjóðs ætlum við að geti orðið 8 milljarðar kr. Við köllum eftir henni og erum milli 2. og 3. umr. tilbúin í samstarfi við meiri hluta fjárlaganefndar til þeirrar vinnu að útfæra þau sparnaðaráform sem hér eru lögð fram. Við teljum full færi til að ná enn frekara aðhaldi út úr rekstri ríkisins en tillögur stjórnarmeirihlutans gera ráð fyrir.

Þetta er mikilvægt, einfaldlega vegna þeirra upplýsinga sem raktar hafa verið um að hallinn á ríkissjóði er að aukast um 18 milljarða kr. frá frumvarpi til 2. umr. Það er alveg ljóst að hallinn, að óbreyttu, miðað við það sem liggur í pípunum og kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar hér áðan, mun aukast enn frekar fyrir 3. umr. ef ekkert verður að gert. Það eru þannig atvik, þannig hlutir í farvatninu að þeir munu að öllu óbreyttu leiða til enn frekari halla. Það er grundvallaratriði í allri þessari umræðu að fólk geri sér það ljóst að þessi staða mun ekki leiða til neins annars en þess að við verðum í enn frekari vandræðum með að fjármagna þá starfsemi sem við höldum úti nú þegar í dag.

Þær tillögur til sparnaðar sem minni hlutinn gerir við þessa umræðu munu leiða til sparnaðar, munu leiða til breytinga á frumjöfnuði sem margfrægur er og er í rauninni markmið ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs. Þessar tillögur sem við höfum lagt fram gera ráð fyrir því að hallareksturinn fari úr því að vera 102 milljarðar kr. í 75 milljarða kr. og frumjöfnuður lækki úr tillögu meiri hlutans, 44 milljörðum kr., í 17 milljarða kr. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu yrði þá frumhallinn á ríkissjóði 1,1% í stað þess tæplega 3% halla sem tillögur meiri hlutans gera ráð fyrir og er gjörsamlega óviðunandi niðurstaða þegar maður hefur í huga að samkvæmt samstarfsáætlun og þeirri áætlun sem keyrð er eigi árið 2010 að vera erfiðasta árið í niðurskurði sem þýðir að óbreyttu að við þurfum að taka enn fastar á á árinu 2011.

Önnur atriði sem við nefnum í þessu áliti okkar eru að við gerum athugasemdir við þá fyrirframinnheimtu tekna sem ráðgerð er í samningum ríkissjóðs við stóriðjuna í landinu þar sem gert er ráð fyrir því að hún skili á þremur árum 3,6 milljörðum kr. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við að slíkir samningar séu gerðir á milli fyrirtækja og ríkisins en það er óeðlilegt hvernig farið er með þetta, þ.e. að færa þetta allt inn undir tekjur ríkissjóðsins, einfaldlega vegna þess að þarna er fyrst og fremst um að ræða lántöku ríkissjóðs hjá þessum fyrirtækjum. Það liggur ekkert fyrir um það hvernig skattamálum þeirra verður háttað, það er samkomulag um að fyrirtækin láni ríkissjóði og samkomulagið gengur út á að ríkið greiði til baka þessar fjárhæðir með eftirgjöf skatta ef og þegar þar að kemur.

Ég nefni einnig skuldbindingar vegna Icesave-samninganna. Það er grundvallaratriði til þess að hafa heildarmyndina á tæru að þeir séu teknir inn í fjárlagafrumvarp ársins 2010. Sömuleiðis liggur það fyrir, ekki eingöngu vegna skuldbindingarinnar um tónlistarhúsið heldur ekki síður vegna þess að fyrir liggja upplýsingar hjá fjárlaganefnd, að kostnaður upp á 200 millj. kr. hefur fallið til á árinu 2009 vegna undirbúnings byggingarinnar. Það er óafgreitt mál í fjárlaganefnd, er ekki tekið á því í fjáraukalögum og það er heldur ekki tekið á því í tillögu meiri hlutans við 2. umr.

Það hefur verið minnst á stöðu sveitarfélaga og ríkisins. Í því efni hefur sérstaklega verið nefnd greiðsla tryggingagjalda. Ég vil vísa til þess hlutar í álitinu þar sem um það er fjallað og sömuleiðis nefni ég að mat Sambands íslenskra sveitarfélaga er að ríkisstjórnin brjóti gjörsamlega í bága við samkomulag sem fyrir liggur á milli félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra frá desember 2005 og sömuleiðis við samkomulag í október milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála um svokallaðan vegvísi að hagstjórnarsamningi milli ríkis og sveitarfélaga. Þá þegar liggur fyrir að þetta er brotið og í fylgiskjali með áliti okkar í 1. minni hluta eru tilgreind þau atriði sem um ræðir og upplýsa þau mjög vel um þau óvönduðu vinnubrögð sem viðhöfð eru í samskiptum þessara tveggja aðila af hálfu ríkisvaldsins.

Við viljum einnig að lögum um markaðar tekjur verði breytt í þá veru að þær renni allar í ríkissjóð og sé úthlutað hverju sinni samkvæmt ákvörðun þingsins.

Við beinum einnig þeim tilmælum til meiri hlutans að skoða kostnað við upplýsingakerfi ríkisins. Við erum að tala þar um Fjársýsluna, ríkisskattstjóra, tollstjóra og tölvukerfi stjórnarráðsbygginga. Allt í allt má ætla að árlegur kostnaður við þetta nemi rúmum 2 milljörðum kr. og það er sjálfsagt að leita allra færa í því hvort ekki sé hægt að samræma, spara og hagræða í þessum efnum.

Loks vil ég nefna framkvæmdir sem ég hef örlítið minnst á áður sem vantar að færa inn, í fyrsta lagi áform um byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss þar sem ekki er gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárlögum. Við beinum þeim tilmælum til meiri hlutans að möguleg fjárframlög vegna þessara framkvæmda, sömuleiðis Suðurlandsvegar, Vaðlaheiðarganga, annarra samgöngumannvirkja og miðstöðvar, verði tryggð á fjárlögum fyrir það fyrsta og komi síðan fram í ríkisreikningi.

Ég vil undir lok máls míns undirstrika þá skoðun 1. minni hluta að frumvarpið eins og það liggur nú fyrir er þannig úr garði gert að allt of margar lykilstærðir í því eru óljósar og sem mikil óvissa ríkir um, sérstaklega á tekjuhliðinni, en það eru ótal þættir á gjaldahliðinni sem munu krefjast, ef menn vilja vanda til verka, fyllri, betri og ítarlegri yfirferð. Ég efast ekkert um vilja ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans til að vanda til verka. Ég ætla mönnum einfaldlega það að standa þannig að verkum að þeir vilji gera sem best. Því hlýtur að vera skýr krafa stjórnarandstöðunnar til stjórnarmeirihlutans að skýra út hvers vegna þau áform sem birt voru í fjárlagafrumvarpinu sem kom fram í október um meðferð mála hafi ekki gengið eftir.

Ég nefndi í upphafi máls míns örstuttan kafla úr fjárlagafrumvarpinu þar sem stjórnarmeirihlutinn gaf fyrirheit um meðferð mála tengd fjárlagafrumvarpinu. Með leyfi forseta ætla ég að vitna örstutt í þetta aftur. Í fjárlagafrumvarpinu sagði, með leyfi forseta:

„Áhersla er lögð á að öll lagafrumvörp sem tengjast fjárlögum 2010 og þurfa að afgreiðast frá Alþingi fyrir árslok 2009 hafi verið lögð fram á Alþingi fyrir miðjan nóvember nk.“

Hvers vegna í ósköpunum var ekki unnið eftir þessu? Allt árið var til undirbúnings því að ég trúi því ekki að öll hæstv. ríkisstjórn hafi verið bundin við vinnuna við Icesave-málið í sumar líkt og Alþingi, eða í það minnsta fjárlaganefndin. Þess í stað koma þessi mál fram tveimur mánuðum eftir að fjárlagafrumvarpið lítur dagsins ljós í þinginu. Þá er skattaruglinu dembt inn í þingið og þar sitja menn og fárast yfir því. Við hljótum að krefjast skýringa, í það minnsta lít ég svo á að ríkisstjórnin skuldi Alþingi skýringar á því hvers vegna því er boðið upp á þetta vinnulag með því starfslagi sem hér er viðhaft.

Til viðbótar þessu var tiltekið í þessari yfirlýsingu í fjárlagafrumvarpinu að við það væri miðað að einstakir ráðherrar skiluðu til ráðherranefndar um ríkisfjármál í byrjun desember drögum að breytingum á reglugerðum og útfærðum ákvörðunum sem tengjast áformuðum samdrætti. Ekkert af þessu liggur fyrir og nægir í því sambandi að nefna sérstaklega einn þátt sem lýtur að óráðstafaðri fjárheimild sem fjármálaráðherra er veitt upp á 5 milljarða kr. sem ætlað er að ráðstafa. Þó svo að það séu leiðbeinandi reglur í greinargerð með frumvarpinu getur maður ekki treyst því að þeim reglum verði fylgt fremur en þeim áformum og fyrirheitum sem gefin voru um það hvernig stóru málin tengd fjárlagafrumvarpinu kæmu inn. Því miður er staðan þannig og við hljótum að kalla eftir skýringum á því hvers vegna verklagið er með þessum lélega hætti, svo maður taki ekki sterkar til orða.

Það er alveg augljóst í ljósi þeirra staðreynda sem liggja á borðinu í tillögum stjórnarmeirihlutans við 2. umr. fjárlagafrumvarps að ekki er nóg að gert af hálfu stjórnarmeirihlutans til að koma böndum á útgjöld ríkissjóðs. Í stöðugleikasáttmálanum milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins var gert ráð fyrir að aðlögunarþörf ríkissjóðs skiptist í 45% aðlögun á tekjuhlið og 55% aðlögun á útgjaldahlið. Strax við framlagningu fjárlagafrumvarpsins var búið að gefa eftir á útgjaldahliðinni og boðuð var 53% aðlögun þeim megin, og enn hefur verið gefið eftir í þeim efnum. Fyrir 2. umr. slakar með öðrum orðum stjórnarmeirihlutinn á aðhaldskröfu ríkisstjórnarinnar á útgjaldahlið fjárlaga. Ég hef nefnt að tekjuhliðin er enn í uppnámi og til meðferðar í efnahags- og skattanefnd og það er alls ófyrirséð hvernig þeim þætti fjárlagagerðarinnar lýkur. Hins vegar berast spurnir af því að stjórnarmeirihlutinn eigi í vandræðum með að standa að þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið á útgjaldahliðinni og því miður er ástæða til að óttast að gengið verði skemur í lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarpsins en þó var ætlað við framlagningu þess.

Eitthvert alundarlegasta dæmið í þessu háttalagi öllu saman er umræðan og verklagið varðandi Fæðingarorlofssjóð. Þar hafa hlutir gengið fram og til baka, lokaumræðan sem kom út til fjölmiðla var í fyrradag. Fyrir það hafði hæstv. félagsmálaráðherra lagt fram frumvarp í ríkisstjórninni um skerðingar á Fæðingarorlofssjóði. Hann var varla kominn niður tröppurnar á Stjórnarráðinu þegar hann mæltist til þess að félagsmálanefnd Alþingis ynni þetta frumvarp og tætti það í sig. Hann mæltist til þess að hans eigið frumvarp sem ríkisstjórnin hafði samþykkt yrði tætt og að menn formuðu aðrar reglur. Í hvaða tilgangi? Ekki til þess að draga enn meira saman í útgjöldum, nei, fyrst og fremst til að gefa eftir gagnvart þeirri kröfu sem uppi var.

Það er sérstök ástæða til að vara við þessu vinnulagi. Það eru alveg hreinar línur að ríkisstjórnin kemst ekkert hjá því til lengri tíma litið að skera niður í ríkisútgjöldum. Öðruvísi er okkur ókleift sem þjóð að komast í gegnum þann brimskafl sem þetta hrun á fjármálamörkuðum rótaði upp í fyrrahaust.

Ríkisútgjöldin hafa þanist út á liðnum árum og lætur nærri að þau hafi aukist um 50% á síðustu 10 árum. Mest hefur aukningin orðið í útgjöldum til velferðar- og menntamála auk þess sem útgjöld til annarra liða rekstrarins hafa stöðugt aukist. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur segist svo ætla að byggja hér upp norrænt velferðarkerfi á grunni himinhárra skatta virkar það sem nokkurt öfugmæli þegar haft er í huga að á Íslandi hefur orðið til samfélag hóflegra opinberra álaga og framúrskarandi velferðarþjónustu jafnt ríkisins sem á vegum sveitarfélaga fyrir alla þjóðfélagshópa, ekki síst þá sem standa höllum fæti.

Ég skal vera fyrstur manna til að gagnrýna það hversu mikið rekstur ríkisins þandist út á liðnum árum. Það hefði verið ástæða til þess þegar slátturinn í hagkerfinu var mikill að draga úr opinberum rekstri í stað þess að bæta stöðugt við. Í þessum orðum vík ég mér ekki undan þeirri ábyrgð sem í störfum mínum felst allt frá því að ég tók sæti á Alþingi. Þetta er veruleikinn sem við búum við og við þurfum að breyta honum

Nú er staðan hins vegar sú að það er nauðsynlegt, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að grípa til sársaukafullra aðhaldsaðgerða til að rétta þjóðarskútuna við. Því miður kemur í ljós að við þær aðstæður er stjórnarmeirihlutinn vanbúinn til slíkra átaka. Augljóst er að það eru átök á milli stjórnarflokkanna um þær leiðir sem fara á. Þetta birtist m.a. í því að stjórnarliðar í fagnefndum takast á um tillögur og þeir breyta ákvörðunum ríkisstjórnar, t.d. varðandi samdrátt útgjalda í Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er nýjasta dæmið. Í stað þess að binda endi á þennan ágreining í nefndum eru málin tekin út með hraði, órædd og illa grunduð, samanber það einstaka tilvik í þingsögunni þegar fjárlaganefnd þurfti að taka fjárlagafrumvarp næsta árs tvisvar til afgreiðslu. Það er óforsvaranlegt.

Í þingsköpum Alþingis er áskilnaður um að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins verði send til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd sem í kjölfarið rýnir þennan þátt í heild sinni. Fengnir eru aðilar til að leggja heildstætt mat á tekjuhliðina og áhrifin á þjóðarbúskapinn. Gjaldahliðin er hins vegar til umræðu í fjárlaganefnd.

Sú hefð hefur skapast að sá hluti fjárlagafrumvarpsins er ekki rýndur heildstætt í vinnu nefndarinnar. Að mati 1. minni hluta er ástæða til að breyta þessu verklagi. Það væri æskilegt að utanaðkomandi sérfræðingar yrðu fengnir nefndinni til aðstoðar til að meta heildræn áhrif gjaldahliðar frumvarpsins og setja fram gagnrýni á þessa hlið fjárlaga. Hluti af slíkri gagnrýni gæti t.d. verið athugun á því hvort farið sé með sambærilegum hætti með fjármuni ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég hef þá lokið yfirferð um grunninn að því áliti 1. minni hluta sem hér með er lagt fram. Ég vil við þetta tækifæri þakka sérstaklega starfsmönnum fjárlaganefndar fyrir þeirra góðu og miklu vinnu. Ég tel raunar það verklag sem boðið er upp á við afgreiðslu þessa máls óviðunandi og að við umræðu þessa hefði mátt gefa sólarhring til viðbótar til að vinna betur þann grunn sem liggur fyrir við 2. umr., þótt ekki væri nema til þess að forða villum úr þeim skjölum sem unnin eru.

Ég tek sömuleiðis undir þakkir til allra þeirra sem hafa komið að þessu verki, hvort sem það eru einstaklingar eða stofnanir sem hafa lagt fjárlaganefnd liðsinni við það verk sem hún glímir við.