138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við höfum langa reynslu af því undangengin ár að líkönin sem unnið er með hafa vanmetið tekjur í uppsveiflu og tekjur hafa iðulega orðið mun meiri, sérstaklega af veltusköttum, en ráð var fyrir gert. Það er auðvitað full ástæða til að hafa áhyggjur af því að því sé öfugt farið í samdrætti, að þau vanmeti þá tekjusamdrátt. Þó verðum við í því að hafa í huga þá reynslu sem við höfum fengið á yfirstandandi ári. Þar sjáum við að samdrátturinn í landsframleiðslunni er minni en menn óttuðust og aðrir opinberir aðilar eins og sveitarfélögin upplifa það að tekjur þeirra eru ívið meiri en þau gerðu ráð fyrir í áætlunum sínum þannig að þau virðast líka hafa ofmetið tekjusamdráttinn. Hér háttar svo ánægjulega til, eins og ég nefndi í ræðu minni, að fjáraukalagafrumvarpið bendir a.m.k. ekki til þess að við höfum ofáætlað tekjurnar að verulegu marki í þessu. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt að vera á verði í þessu. Ég held að það skipti máli varðandi tekjuhliðina og raunar um gjaldahliðina líka, eins og hv. þingmaður þekkir eflaust úr rekstri að við gerum miklu meira af því að fylgjast með framkvæmdinni frá mánuði til mánaðar við þær sérstöku aðstæður sem við búum við, bæði í gjaldahlið og tekjuhlið, og séum viðbúin því í þinginu að við þessar algerlega sérstöku aðstæður getum við þurft að grípa inn í (Forseti hringir.) með aðgerðum á bæði tekju- og gjaldahlið á yfirstandandi ári.