138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:35]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Ég held áfram með ræðu mína þar sem frá var horfið.

Áskorun jafnaðarmanna og allra vinstri manna sem nú halda um stjórnartaumana í landinu er ekki einvörðungu sú að laga samfélagið að efnum þess og aðstæðum, heldur og að skipta sérhagsmunum út fyrir almannahagsmuni. Tiltektin eftir efnahagshrunið sem einkum má rekja til skefjalausrar frjálshyggju og oflætis í ríkisrekstri verður einkum og sér í lagi að miðast við þarfir og hag alls almennings. Það þarf fyrst og síðast að verja velferð venjulegs launafólks, svo og öryrkja, aldraðra og fatlaðra.

Dýrkun gömlu valdaflokkanna á auðmannastéttinni fól í sér einhverjar mestu tilfærslur á fjármunum sem orðið hafa í samfélaginu. Verkfæri ríkisins voru óspart notuð til þess að hygla þeim sem mest báru úr býtum og þeim sem greiðastan aðgang höfðu að auðlindum landsins. Auknar álögur á láglaunafólk og millitekjufólk voru notaðar til að draga úr þætti ríkasta hluta þjóðarinnar í tekjuöflun þess.

Það er nánast kátbroslegt að hækkun tekjuskatts á millitekjufólk sem boðuð er af illri og augljósri nauðsyn eftir efnahagshrunið er nálega sú sama og þessi hópur tók á sig í tíð stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar þau öflin reyndu hvað mest að skara eld að köku stóreignamanna í landinu. Með öðrum orðum kostaði þensla gömlu flokkanna venjulegt fólk jafnmikið í sköttum og hrunið gerir nú.

Niðurstaðan að mati margra erlendra sérfræðinga eftir öll ósköpin er sú að óvíða hefur þekkst önnur eins óstjórn efnahagsmála á norðurhveli jarðar og einmitt sú sem varð til á Íslandi í kringum síðustu aldamót undir forhertu veldi gömlu stjórnmálaflokkanna sem af einurð og sérstöku tillitsleysi við þjóð sína úthlutuðu eignum ríkisins til örfárra vina og vandamanna sem ekkert kunnu með gjafirnar að fara.

Það er vægast sagt undarlegt að sitja á Alþingi það herrans ár 2009 og hlusta á talsmenn þeirra flokka sem einkum komu þjóðarauðnum í fáar hendur. Það er líkast því sem þeir kannist ekkert við sögu sinna flokka, hvað þá að þeir viðurkenni gjaldþrot óbeislaðrar frjálshyggju sem óáreitt fékk að draga úr þrótti fjármálaeftirlits á landinu um langt árabil. Krafan var enda óbeislaður gróði — og helst þeirra þóknanlegu.

Já, fram undan er mesta áskorun jafnaðarmanna sem þeir hafa staðið frammi fyrir. Hún felst í því að breyta samfélaginu til frambúðar. Hún felst í því að snúa af leið sérhagsmuna og einkavinavæðingar og hefja að nýju til virðingar þau gildi mannúðar og jöfnuðar sem aldrei munu komast í þrot. En þá er líka eins gott að missa ekki sjónar. Ráðast verður að gamalgrónu kerfi. Án undanbragða. Ellegar kæfir kerfið breytinguna.

Það er nefnilega svo, virðulegur forseti, að auðveldara er að halda áfram því sem er en að breyta um takt og sið. Það er þægilegra að sækja í gamla farið en að koma sér upp úr því.

Fjárlög næsta árs eru vonandi upptaktur að því sem koma skal, samfélagi jafnaðar og velferðar — en betur má ef duga skal. Fjárlög næstu ára verða að gera betur og festa enn frekar í sessi þann jöfnuð sem hverju samfélagi er hollastur og skipta tekjunum betur á milli þeirra sem helst þurfa á þeim að halda. Fjárlög næstu ára verða að vera í takti við efni samfélagsins og aðstæður. Þau eiga að sýna hvað samfélagið raunverulega getur og þau verða líka að sýna hvernig samfélagi við viljum búa í og hlúa að.

Virðulegi forseti. Sú fjárlaganefnd sem nú situr á Alþingi er að mestu skipuð nýjum þingmönnum og vil ég nota tækifærið hér til að þakka öllum nefndarmönnum gott samstarf á liðnum mánuðum, jafnt stjórnarliðum sem stjórnarandstæðingum sem hafa veitt meiri hlutanum málefnalegt og þarft aðhald. Fyrir það ber að þakka. Gagnrýnislaust vald er hættulegt vald. Ríkt aðhald er auður lýðræðisins.

Og hvernig hefur fjárlagagerðin komið þessum nýju þingmönnum fyrir sjónir? Hvað hefur komið á óvart? Hvað hefur vakið mesta furðu, undrun, jafnvel réttláta reiði?

Ný fjárlaganefnd Alþingis er skipuð fólki hvaðanæva að af landinu, konum og körlum, frá ríflega tvítugu til sextugs, fólki sem þekkir það vel að stjórna skólum, sveitarfélögum, einkafyrirtækjum, búum og sjóförum, já, heilu skipsáhöfnunum, fólk sem margt hvert er vant því að búa til nákvæmar fjárhagsáætlanir fyrir stórar sem smáar einingar og bera ábyrgð á starfsmannahaldi, tækjum og eignum.

Þessi hópur fjárlaganefndar úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi landsmanna er fráleitt sammála um alla hluti og getur vissulega látið í sér heyra þegar talið berst að ágæti ólíkra stjórnmálastefna, en líklega er hann á einu máli um eitt: Það þarf að laga langvarandi lausung í ríkisfjármálum. Ríkisrekstur á ekki endilega að lúta öðruvísi lögmálum en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Og þar eiga menn að bera ábyrgð og sæta afleiðingum gjörða sinna, jafnt og annars staðar í þjóðfélaginu, en jafnframt að vera virtir fyrir það sem vel er gert.

Í því fjárlagafrumvarpi sem hér er til umfjöllunar í sölum Alþingis er lögð mikil ábyrgð á herðar ráðuneytum og stofnunum á þeirra vegum. Ekki hefur í mjög langan tíma, ef þá nokkurn tíma, verið gerð jafnrík krafa um aðhald og ráðdeildarsemi í ríkisrekstrinum og nú. Og ekki er vanþörf á. Oft hafa lausatök í ríkisrekstrinum birst í aukafjárveitingum í fjáraukalögum hvers árs vegna framlaga til nýrra verkefna, aukins umfangs eða umframeyðslu og þess sem einfaldlega verður kallað lausung í fjármálum eins og áður var getið sem á mannamáli hefur stundum verið kallað óráðsía eða bruðl.

Þessu verður að linna. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Aldrei hefur verið jafnmikil og augljós ástæða fyrir því að fara sparlega og vel með fjármuni ríkissjóðs. Í þessu efni verður að gera ríkari kröfur til ráðuneyta um að þau haldi stofnunum sínum innan fjárheimilda. Fjárauki er einhver reglufastur happdrættisvinningur sem hægt er að ganga að sem vísum, umframeyðsla er ekki réttlætanleg, frá ári til árs, sakir aukinna verkefna eða ófyrirséðra atvika. Nú sem aldrei fyrr verða menn — og þar er ég að tala um forstöðumenn stofnana — að sníða sér stakk eftir vexti. Ef hann er þröngur ber fyrst að skoða hvort það er sakir fitu, en hitt ber síður að gera, eins og gjarnan hefur verið gert, að stækka stakkinn og víkka út fjárheimildirnar í það óendanlega eins og gerst hefur í ríkisrekstrinum á undanliðnum árum, oft sakir nauðsynjar, en líklega jafnoft að nauðsynjalausu.

Og hver er þá ábyrgð ráðuneyta, deilda þeirra, forstöðumanna, fjárhaldsmanna; þeirra sem sýsla með fengið fé, þessa sameiginlegu sjóði sem hér eru til umfjöllunar? Hún er mikil, klárlega mjög mikil í orði og laganna hljóðan, en líklega síðri á borði. Það er athyglisvert að skoða nýlegt svar framkvæmdarvaldsins við spurningum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um tíðni áminninga sem opinberir embættismenn hafa fengið, m.a. vegna óreglu í fjárveitingum á síðustu fimm árum. Sárafáir forstöðumenn ríkisstofnana og fjárgæslumenn hinna opinberu fjármuna hafa fengið tiltal á síðustu árum. Það er reyndar hægt að telja þá á fingrum annarrar handar, fyrir hvert þessara ára, sem fengið hafa áminningu. Ég hirði ekki um að tala um þá sem hafa verið reknir vegna afglapa í fjármálastjórn, enda er þar sennilega engum til að dreifa — það væri sennilega of dýrt fyrir ríkið.

Þetta er annars merkilegt plagg frá fjármálaráðuneytinu um veittar áminningar og skipun tilsjónarmanna yfir þrotabúum stofnana. Skoðum það nánar, við erum að ræða síðustu fimm ár:

Forsætisráðuneyti: Engar áminningar.

Efnahags- og viðskiptaráðuneyti: Engar áminningar.

Fjármálaráðuneyti: Fjórar áminningar.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti: Tíu áminningar.

Heilbrigðisráðuneytið: Engar áminningar.

Iðnaðarráðuneytið: Engar áminningar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti: Engar áminningar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti: Engar áminningar.

Umhverfisráðuneyti: Engar áminningar.

Utanríkisráðuneyti: Engar áminningar.

Og loks mennta- og menningarmálaráðuneyti: Þrjár áminningar og það er reyndar eina ráðuneytið sem skipað hefur tilsjónarmenn með rekstri stofnana í tveimur tilvikum. Lengra nær ekki ríkið í áminningum sínum.

Já, tveir tilsjónarmenn á fimm árum — 17 áminningar. Það er allt og sumt, þrátt fyrir óheyrilega framúrkeyrslu á fjárlögum á síðustu árum sem nemur nokkrum tugum milljarða króna.

Virðulegur forseti. Tugum milljarða króna — og hverjar eru afleiðingarnar? Jú, tiltal í fáein skipti og tveir tilsjónarmenn. Engin alvarleg eftirmál þrátt fyrir lausung í fjármálum sem skiptir nálega 100 milljörðum á síðustu 10 árum.

Það er léttúðin í íslenskum fjárlögum síðasta áratuginn.

Hvað veldur því, virðulegi forseti, að enginn tekur pokann sinn í þessum geira atvinnulífsins? Hvað veldur? Ekki er það góð fjármálastjórn sem er hafin yfir gagnrýni. Nei, lausungin er einfaldlega liðin, ógætilegur umframakstur er leyfður á vegum hins opinbera af því að fjárgæslumenn ríkisins eru svo vel verndaðir af ríkinu sjálfu að það er eiginlega óhugsandi og lagalega ófært að reka þá. Já, ógætilegur umframakstur er sum sé leyfður á vegum hins opinbera. Hjá einkafyrirtækjum eins og þeim sem sá sem hér stendur þekkir varðar slíkt hið sama við brottrekstur.

En þingmenn, löggjafinn sjálfur, verða líka að líta sér nær í þessum efnum. Aukinn ríkisrekstur síðustu ára hefur verið næsta stjórnlaus. Hann hefur vaxið um tugi prósenta og langt umfram það sem getur talist eðlilegt í ljósi vaxtar samfélagsins og verðmæta þess. Hér hefur löggjafinn stofnað til útgjalda sem ríkið hefur sannarlega ekki haft efni á. Hér hefur löggjafinn oft og tíðum leikið sér að almannafé.

Spurningin við gerð fjárlaga er nefnilega þessi: Í hvað á að eyða? Hvert er verksvið ríkisins? Á það að reka bridsklúbba? Á það að styrkja afþreyingu fullfrískra karlmanna? Á það að stofna til hvaða safna sem er um allt land án þess að hafa hugmynd um hvaða starfsemi þar fer fram? Á það að sinna ólíkustu ferðaþjónustufyrirbærum í víkum og fjörðum? Á það að reka krár sem eru skreyttar merkilegu ljósmyndasafni af sögu fiskveiða? Og hvernig ætlar það að velja á milli allra þeirra óska sem streyma inn til fjárlaganefndar ár hvert um nokkur hundruð þúsund króna styrki og allt upp í tuga, ef ekki hundruða milljóna króna kröfur um aðstoð við einkarekstur? Hvernig er farið með 1 milljónar króna umsókn sjálfboðaliðasamtaka sem annast geðsjúk ungmenni á sama tíma og flugklúbbur ágætlega stæðra karlmanna sækir um 40 millj. kr.? Er báðum umsóknum hafnað? Eða er skorið flatt niður? Er hin raunverulega þörf aldrei skoðuð?

Hvað á ríkið að gera? Hvar á ríkið að vera?

Og meginspurningin um þessar mundir er vitaskuld þessi: Hvað ber ríkinu nauðsynlega að gera á tímum mestu efnahagsófara lýðveldissögunnar?

Svar mitt er þetta: Það á að standa vörð um velferðina, öryggi landsmanna, heilbrigði, menntun og menningu um allt land, en aukinheldur á það að skapa sem bestar aðstæður fyrir framsækið og heilbrigt atvinnulíf.

Það er erfitt verk þegar stoppa þarf í 180 milljarða kr. halla á fjórum árum. En ekki ómögulegt. Meginlínur í fjárlagafrumvarpi stjórnvalda eru þær að skorið er niður um 10% í rekstrarliðum, 7% í menntakerfi og 5% í velferðarkerfinu. Auk þess koma til umtalsverðar breytingar á skattkerfinu sem eiga annars vegar að jafna byrðar og laga ójöfnuð, en sækja auk þess nauðsynlegar tekjur svo samfélagið verði endurreist á sem stystum tíma. Stefnt er að því að árið 2011 verði þjóðfélagið farið að afla þess sem það eyðir og árið 2013 verði það byrjað að borga niður skuldir.

Hér þarf vissulega að fara varlega og hér er auðvelt að misstíga sig. Hér er næsta auðvelt að tapa ávinningnum af uppbyggingu velferðarkerfis síðustu ára og því er nauðsynlegt að ganga til þessa verks opin fyrir gagnrýni og aðhaldi alls almennings. Og hér þarf stjórnarandstaðan á Alþingi að leggja lið, koma með ábendingar, betrumbætur, tillögur. Og hér þarf stjórnarmeirihlutinn að hlusta. (BJJ: Já.) Fjárlög næsta árs og næstu ára eiga ekki að vera einkamál ríkjandi stjórnvalda. Til þess eru þau allt of mikilvæg.

Nú er tíminn til að standa saman.

Virðulegi forseti. Því miður vannst ekki nægilegur tími til vinnslu fjárlaga fyrir næsta ár af margvíslegum ástæðum og vega þar mest afleiðingar efnahagshrunsins. Vinnan hefur samt verið mikil, við fjárlagagerðina voru alls haldnir 38 fundir í nefndinni. Erindi sem nefndin fékk til afgreiðslu voru um 900 og alls komu 338 gestir til fundar við nefndina og þingnefndir. Frumvörp um tekjuhluta frumvarpsins komu seint inn til Alþingis og biðu þar afgreiðslu vegna mikillar umræðu um umdeilda ríkisábyrgð vegna Icesave-óskapanna og um tíma áætlaði fjárlaganefnd að fresta breytingum á tekjuhluta til 3. umr. eins og heimilt er.

Virðulegur forseti. Það er ekki óskastaða nýs þingmanns að sitja fjárlaganefndarfundi og þurfa að skera niður í viðkvæmustu fjárlagaliðunum og sækja aukinheldur kröftuglega fram í tekjuöflun, já, leggja meiri álögur á heimili og fyrirtæki. Hér ber að geta þess að niðurskurðar- og skattatillögur ríkisstjórnarinnar eru settar fram í neyð, þær eru í reynd rústabjörgun eftir afglapaskeið í efnahagssögunni og því er brýnt að galgopi og lýðskrum þvælist ekki fyrir tiltektinni og komandi endurreisn. Rómantíkin verður að víkja fyrir raunsæi. Stundargaman stjórnmálanna er ekki á dagskrá.

Við sem hér sitjum í sölum Alþingis þurfum umfram allt að vanda okkur við það verkefni sem fram undan er. Ég bið ekki um algera samstöðu, en ég óska eftir málefnalegri vinnu sem hefur það að markmiði að koma samfélaginu sem fyrst til vegs og virðingar í samstarfi þjóðanna, en þó umfram allt að hún komi sínu eigin fólki til hjálpar og verði því til gagns.

Það er í þessu ljósi sem mér — og líklega fleiri nýjum þingmönnum — gremst það að gömul hjólför stjórnmálanna virðast enn þá vera rásin sem heillar mest í orðaskiptum manna á Alþingi. Menn virðast sjaldnast komast upp úr þeim, þau halda hjóli pólitíkurinnar á sínum stað og gildir einu þótt heilu stjórnmálastefnurnar og heilu efnahagslíkönin hafi farið á hausinn, áfram skal barist með sömu vopnum.

Þetta er miður. Í stjórnmálum á að virða það besta í fari flokkanna sem eiga, þegar að er gáð, meira sameiginlegt en það sem sundrar þeim. Þessa staðreynd ber að hafa í huga þegar fengist er við erfið þjóðþrifamál, svo sem eins og uppbyggingu Íslands út þeim rústum sem blöstu við landsmönnum fyrir ári. Þá er tími til að berja í brestina og tala kjark í þjóðina fremur en að hella myrkri yfir hana af því það kann að gagnast stundargamni stjórnmálanna.

Þjóðin þarf á vasklegri framgöngu að halda, helst samstöðu allra þingmanna um að komast sem fyrst út úr vandanum með stórtækri tiltekt. Göran Persson, sá gamli sænski stjórnmálarefur, kom og skoðaði rústir íslensks efnahags fyrir réttu ári og hafði nákvæmlega rétt fyrir sér í ræðu sem hann hélt í hátíðarsal Háskóla Íslands: „Gangið hreint og hratt til verks.“ Já, gangið hreint og hratt til verks. „Ekki fresta vandanum.“ Ekki fresta vandanum. „Ekki ýta honum yfir á næstu kynslóðir.“ Ekki ýta honum yfir á næstu kynslóðir. Hér talaði gamalreyndur fjármálaráðherra og síðar forsætisráðherra sem bakaði sér um ómældar óvinsældir hjá þjóð sinni við Eystrasalt þegar hann skar niður í ríkisfjármálum á fyrri hluta 10. áratugarins eins og slátrari á haustvertíð. Efnahaginn varð að endurreisa, hiklaust, fumlaust. Og hann skar strax. Hann skar mikið. Já, ekki fresta vandanum. Gangið hreint og hratt til verks.

Annar sjóaður fjármálaráðherra og síðar forsætisráðherra tekur undir þessi orð Görans Perssons í blaðagrein um nýliðna helgi. Hér á ég við Þorstein Pálsson, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem segir á leiðarasíðu Fréttablaðsins á laugardag að með vissum hætti megi segja að það sé eins og að fara gegn straumnum að leggja gott orð til ríkjandi stjórnar — svona í ljósi þeirrar Hriflungatíðar sem gengið hefur yfir íslenskt stjórnmálasvið á síðustu vikum þar sem persónulegt hnútukast hefur einkennt umræðuna og rifrildið hefur á tíðum verið tekið fram fyrir lausnir, öskur þótt áhrifaríkara en orðaskipti.

Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem greinilega undrast formælingastríð stjórnmálamanna við þessar aðstæður sem nú blasa við í íslensku þjóðlífi segir, með leyfi forseta, að sannleikurinn sé samt sem áður sá að sumar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum nú um stundir beri bæði vott um skynsemi og ábyrgð. Orðrétt segir Þorsteinn Pálsson á téðri leiðarasíðu á laugardag:

„Það bar til að mynda vott um ábyrgð þegar ríkisstjórnin ákvað að byggja á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrri ríkisstjórn hafði gert. Eitt mikilvægasta viðfangsefnið sem sú áætlun mælir fyrir um er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Niðurskurðaráformin í fjárlagafrumvarpinu eru í samræmi við markmiðin. Afgreiðsla fjárlaganna mun síðan sýna hversu raunhæf framkvæmdin er. Þar byrja vandamálin,“ segir fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins um helgina.

Þetta er rétt. Og svo sem ekki annars að vænta frá jafnjafnvægisstilltum stjórnmálamanni og Þorsteinn Pálsson var — og er. Hann þekkir framvinduna, hann þekkir breyskleika stjórnmálanna og segir því gagnrýnið og hnitmiðað að kálið sé klárlega ekki sopið fyrr en í ausuna er komið. Þar er Þorsteinn líklega að vísa til þessarar 2. umr. þingsins um fjárlagafrumvarpið, en nákvæmlega þar byrja menn einmitt að linast, eins og hann e.t.v. þekkir frá sinni stjórnartíð. Þorsteinn segir enn fremur að umræður um útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins bendi til þess að verulega skorti á að aðhaldsáformin séu nægilega markviss. Í allt of litlum mæli búi þar að baki ákvarðanir um skipulagsbreytingar og nýjar skilgreiningar á þjónustustigi. Hringlandinn varðandi sparnaðinn á ýmsum sviðum hafi leitt í ljós að stöku ráðherrar sé haldnir þeirri blindni að aðhaldsaðgerðirnar séu aðeins tímabundnar; eftir skamman tíma verði hægt að auka útgjöldin á ný eins og ekkert hafi í skorist.

Þetta er réttmæt og heiðarleg gagnrýni. Og hér er talað af reynslu, jafnt af hálfu Görans Perssons og Þorsteins Pálssonar; tveggja fjármálaráðherra frá 9. og 10. áratug síðustu aldar sem báðir urðu síðar forsætisráðherrar í sínum ríkjum.

Orð þessara manna sem koma hvor af sínum enda stjórnmálanna eru saman tekin þessi: Ef það þarf að skera skerið þá strax. Ekki velta vandanum á undan ykkur. Og ekki guggna á niðurskurðinum. Ekki halda að hann sé bara tímabundinn sársauki.

Það er hér sem stjórnmálamenn verða að tala skýrt, lausir við lýðskrum og stundarhagsmuni. Í eyðslusemi og lifnaðarháttum erum við að færa samfélagið nokkur ár aftur í tímann, kannski fimm ár, kannski heil tíu ár. Líklega meiðir það engan hastarlega, en kannski fækkar tegundum í hillum Kosts og Bónuss og e.t.v. koma fraktskipin léttari til landsins en þau fara frá því. Kannski náum við aldrei aftur þeirri tíð að kaupa flatskjái í flestöll herbergi hússins — en munum við sakna þess? Munum við gráta það? Og munum við kveljast sakir þeirrar nýlundu að ferðast meira um eigið land en útlöndin?

Nei. Og líklega kennir neyðin naktri konu að spinna, neyðin á að geta þjappað okkur saman og vakið okkur af værum blundi eyðsluseminnar. Hún mun leiða til þess að við lítum okkur nær, kaupum okkur nær og keyrum fremur upp íslenskan efnahag en innfluttan efnahag.

Virðulegur forseti. Fjárlög næstu ára munu laga ríkið að efnum þess. Samfélagið er í aðlögun, það er að átta sig á því á hverju það hefur efni og hvað það er sem það ræður ekki við. Líklega verður þetta samfélag seint helsta fjármálamiðstöð heimsins og vonandi aldrei torg hins himneska Mammons eins og margir vonuðust eftir í glýju krosseignaspíralsins þegar öll hin síðari tíma íslenska snilld fólst í því að taka lán fyrir láninu.

Já, samfélagið er í aðlögun. Það er vissulega í áfalli. Og æðimargir skammast sín. Fjöldi manna er lemstraður, fjárhagslega og andlega, en þeir eru líka margir sem stóðu til hliðar og horfðu á veisluna í forundran.

Öll verðum við að spyrja okkur núna eins og foreldrar í fokheldu húsi: Á hverju höfum við efni? Hvað getum við sparað? Hvað verður ekki sparað? Og ég held einmitt að við eigum að hugsa eins og heimilisfólk. Fjárlögin eru heimilisbókhald samfélagsins og þegar kemur að heimilishaldi vita allir hvað er nauðsyn og hvað er hjómið eitt og óþarfi.

Virðulegur forseti. Ég hef verið gagnrýninn á margt í fjárlagagerðinni, enda fer vel á því hjá nýjum þingmanni sem hefur þurft að setja saman ófáar fjárhagsáætlanir á síðustu árum hjá einkafyrirtækjum og menningarfélögum. Og það er auðvelt að vera gagnrýninn á fjárlagagerðina, einkum í ljósi þeirrar reynslu úr einkageiranum sem ég gat um þar sem rangir útreikningar og ábyrgðarleysi hafa einfaldar og afdráttarlausar afleiðingar.

Í þeirri fjárlagagerð sem hér er til umfjöllunar hefði ég vissulega viljað gera betur og einkum viljað hafa meiri tíma til að gaumgæfa skiptin á gjöldum á milli málaflokka, þarfir, hagræðingarmöguleika og breytingar á verkaskiptingu sem á köflum virðist ekki hafa haft áhrif á fjárlagagerð síðustu ára. Fjárlög hvers árs eru nefnilega flókið plagg og það er ekki nóg fyrir þingmenn, óvana sem þá reyndari, að taka fjárlagagerðina með áhlaupi á síðustu metrum ársins eins og mér hefur sýnst verklagið hafa verið á undanliðnum árum og áratugum. Fjárlaganefnd á í reynd að vinna að fjárlagagerðinni allt árið með aðhaldi sínu, eftirfylgni, inngripum og endurbótum á sjálfu verklaginu. Starfsaðferðir fjárlaganefndar hvað þetta varðar vil ég sjá breytast á komandi missirum og býst við að ég tali þar fyrir munn flestra ef ekki allra þeirra nefndarmanna sem á síðustu vikum hafa komið að fjárlagagerðinni.

Hvað svo með inntakið, virðulegur forseti? Hvað þarf þar að breytast? Kannski ég minni á söguna í upphafi þessarar ræðu minnar; söguna af forstöðumanni sambýlisins fyrir fatlaða sem hafði ekki lengur fjármuni til að gera við kaffikönnuna á heimilinu og því næst var kaffipeningurinn tekinn af starfsfólki til að hagræða enn betur.

Já, höfum fólkið í fyrirrúmi í fjárlögum hvers árs. Um það vil ég standa vörð. Ég vil fyrst og fremst standa vörð um jafnaðarmennskuna. Hún er mér merkilegri og meira virði en flokkur eða ríkisstjórn. Jafnaðarstefnan verður að mínu mati að vera leiðarstefið í fjárlögum næsta árs — og næstu ára. Þar þurfum við fyrst og síðast að huga að velferðinni, öryggi landsmanna, heilbrigði og menntun — og ég vil líka nefna menningu, hringinn í kringum landið. Viðkvæmasti hluti velferðarkerfisins, þjónusta við það fólk sem býr við lökust lífsgæði án þess að geta nokkuð gert að því hlutskipti sínu, getur og má ekki vera eilíf skiptimynt á borðum stjórnmálamanna. Við hljótum að vera orðin nægilega þroskað samfélag til að meta það svo að niðurskurður hjá sjúkasta og fatlaðasta hluta þjóðarinnar er ekki til umræðu; jafnvel þótt heilt efnahagshrun brjóti innviði þjóðarinnar. Við hljótum að vera búin að finna vísitölu velferðarinnar; rauða strikið sem ekki verður farið niður fyrir þegar kemur að viðkvæmustu velferðarþjónustunni.

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir erfiðleika þessa árs og næstu ára hefur íslensk þjóð enn þá efni á að sinna þjónustu við verst settu íbúa landsins með reisn og af nokkrum myndarskap. Við höfum efni á kaffivélinni, svo ég minni enn af söguna af sambýlinu, og við höfum enn efni á kaffiduftinu.

Hér eigum við að doka við og ekki einasta í þjónustu við sjúka og fatlaða og aldraða, heldur og þegar kemur að sérþörfum í námi og á vinnumarkaði, í öllu grunnnámi og allri heilsugæslu. Þetta er grunnþjónusta samfélagsins, það er þarna sem rauða strikið er að finna og við höfum efni á því að láta það í friði. Við höfum efni á því.

Gott og vel. En þá á kostnað hvers? kann einhver að spyrja sem von er. Á kostnað ósjálfráðra útgjalda. Á tæpum áratug hefur stöðugildum hjá hinu opinbera fjölgað um góðan þriðjung, farið úr rífum 37.000 árið 2000 upp í rösklega 51.000 á síðasta ári og lætur nú nærri að þriðjungur starfa í landinu sé hjá hinu opinbera.

Þetta er gríðarleg fjölgun, virðulegur forseti. Þetta er 37, 2% aukning á innan við áratug, já, þvílík ríkisvæðing á einu landi í tíð sjálfstæðismanna. Ég endurtek, ríflega 37% fjölgun launafólks á reikning hins opinbera á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um rösklega 15%. Með öðrum orðum, virðulegur forseti, hefur fjölgun ríkisstarfsmanna frá aldamótum verið meira en tvöfalt meiri en fjölgun landsmanna.

En þetta er ekki allt, á mörgum sviðum tekur ríkið að sér verkefni sem það á ekki að eyða sameiginlegum fjármunum landsmanna í. Ég nefni hagsmunagæslu í atvinnumálum. Og á öðrum sviðum fer það fram úr sjálfu sér; ég nefni fjölda sendiráða, en aðeins á síðasta hálfa öðrum áratug hefur þessi 320.000 manna þjóð sett á fót tíu ný sendiráð og ræðisskrifstofur um heim allan. Þjóðin, sem hefur ekki efni á kaffivélinni á sambýlinu, opnar nálega eitt sendiráð á ári, nú síðast í Kína, Indlandi, Tókíó, Mósambík, Kanada, Austurríki, Ítalíu og Finnlandi.

Ríkisútgjöld hafa hækkað ár frá ári síðasta áratuginn, veislan í Stjórnarráðinu hefur verið vægast sagt stjórnlaus. Frá 1998 til ársins 2007 hækkuðu útgjöldin um 150 milljarða kr. ef miðað er við fast verðlag, þ.e. þegar tekið er tillit til verðbólgu. Þetta er um 50% aukning á aðeins níu árum. Og tökum eftir einu, hæstv. forseti, tökum eftir einu í þessum tölum, hækkun ríkisútgjalda á síðustu árum samkvæmt tölum Hagstofunnar er áberandi mest á árunum 1999, en þá nam hún 7,7%, 2003, en þá var hún slétt 7%, og 2007 en þá mældist hún rétt tæp 9%. Og hvað eiga þessi ár sameiginlegt, virðulegur forseti, 1999, 2003 og 2007? Jú, þessi ár fóru fram alþingiskosningar. Sum sé, á kosningaári á Íslandi er ávallt slegið upp veislu og veitt óhóflega út á reikning sem í sjálfu sér enginn ber ábyrgð á þegar á beinið er komið.

Virðulegur forseti. Tökum þetta saman. Nærri 100 milljarða kr. umframeyðsla á síðustu tíu árum. Opinberum störfum hefur fjölgað helmingi meira en fólkinu á síðustu tíu árum. Ríkisútgjöld hafa aukist um 50% á síðustu tíu árum. (Gripið fram í: Nei.)

Virðulegur forseti. Ætlum við svo að trúa þeim röddum að ekki sé hægt að skera niður fituna í ríkisrekstri? Jú, það er vel hægt, og það er klárlega hægt að gera án þess að ganga á þjónustu við fatlað fólk, sjúka og sérþarfir fólks í grunnnámi og á vinnumarkaði, svo og í námi og heilsugæslu. Það er vel hægt.

Í ríkisfjármálum síðustu ára höfum við nefnilega hagað okkur eins og verðbréfadrengirnir í marmarahöllum mammonsáranna á Íslandi, það var engin EBITDA í fötluðum, það var engin EBITDA í sjúkum, það var engin EBITDA í grunnnámi og heilsugæslu. Og það var miklu flottara að skála fyrir opnun nýrra sendiráða, skrifstofu ríkislögreglustjóra, Háskólans í Reykjavík, Þjóðmenningarhúss, Lýðheilsustöðvar, Matvælastofnunar og Varnarmálastofnunar en að mæta á opnun einhvers vistheimilis úti í bæ. Já, það var skálað víða.

Veislan var fyrir útvalda. Hún var á kostnað velferðar.