138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum karpað um hvað sé viðunandi að mati hv. þingmanns. Þessu fylgdi að það var ákveðið að taka málið til frekari umræðu á milli 2. og 3. umr. Slíkt er ekkert einsdæmi og það hefur heldur ekki verið talið til galla í fjárlagavinnu að menn þyrftu að vinna áfram á milli 2. og 3. umr.

Það sem stendur upp á okkur og skiptir miklu máli að við náum árangri í er að við höfum búið við það á undanförnum tíu árum — hv. þingmaður upplýsti að hann hefði verið sjö ár á þingi og sjálfsagt í fjárlaganefnd töluvert mikið af tímanum og á tímabili formaður fjárlaganefndar — að framúrakstur á þessu tímabili er um u.þ.b. 100 milljarðar kr. Varla hefur það verið vegna mikillar og góðrar fjárlagavinnu eða eftirlits varðandi fjárlög. Við skulum meta að einhverjum tíma liðnum hverjir hafi náð bestum árangri varðandi þessi fjárlagamál og hvort fullyrðing mín standist til lengri tíma eður ei.