138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[20:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um efnisatriði hins umrædda matvælafrumvarps sem hefur verið vandlega undirbúið af fleiri en einni ríkisstjórn þar sem reynt hefur verið að fara yfir fjölþætta þætti þessa máls. Málið hefur verið undirbúið m.a. í náinni samvinnu við marga hlutaðeigandi aðila, bæði bændur, afurðafyrirtæki þeirra, neytendur og aðra sem hafa hagsmuni í málinu, útflytjendur o.s.frv.

Því miður hafði ríkisstjórnin hins vegar ekki þrek eða samstöðu til að takast á við mikilvægan þátt þessa máls þannig að hann er skilinn eftir óútkljáður og framtíðin ein mun skera úr um það hvernig í því máli liggur. Vegna þessa máls liggja fyrir breytingartillögur sem koma til atkvæðagreiðslu í 3. umr. málsins og jafnframt hafa komið fram óskir um að málið komi aftur inn til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar milli 2. og 3. umr. og geri ég ráð fyrir að við því verði orðið.