138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[22:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að auka eigi samkeppni, þannig vann ég sem heilbrigðisráðherra og okkur tókst að lækka lyfjaverð um einn og hálfan milljarð á ári, þetta var í góðærinu þegar menn voru ekki að lækka nokkurn skapaðan hlut. Ég held að einu vörurnar sem hafi lækkað í verði 2007 og 2008 hafi verið lyf. Það þurfti að hafa mjög mikið fyrir því, vegna þess að þetta er flókinn og erfiður markaður. Þetta afsláttarkerfi er þvert og ekki gert til þess að auka samkeppni, flækjustigið kemur í veg fyrir samkeppni.

En síðan er náttúrlega eitt sem er mjög erfitt að eiga við og gerir málið snúið og það er regluverk Evrópusambandsins. Ég fundaði með framkvæmdastjórum Evrópusambandsins sem að þessu máli snúa, því svo sérkennilegt sem það nú er, að á meðan Evrópska efnahagssvæðið gengur út á það að þegar vara er komin inn á einn markað sé hún komin inn á alla, þá er það í rauninni þveröfugt þegar kemur að lyfjum. Þá er allt byggt upp með þeim hætti að hvert aðildarríki sé markaður og ef t.d. hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir væri að flytja inn lyf á Evrópumarkað, þyrfti hún að fara í gegnum sama kerfi í hverju einasta landi. Þetta er gert í nafni öryggis, en auðvitað eru þetta gríðarlegar viðskiptahindranir sem halda uppi verði. Þetta er afskaplega slæmt fyrir okkar litla markað. Ég reyndi að gera ýmislegt til að opna þetta, opnaði fyrir póstverslun, fór í samstarf við önnur ríki um að þau lyf sem kæmu þar inn á markað kæmu sjálfkrafa inn til okkar, að fylgiseðlar þyrftu ekki að vera inni í pakkningunni þannig að pakkningarnar þyrftu ekki að vera séríslenskar o.s.frv. En það er ansi snúið að eiga við reglugerðarkerfi ESB eins og við þekkjum og eigum nú við (Forseti hringir.) í Icesave-umræðunni hér alla daga, það kostaði okkur gríðarlega fjármuni, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.