138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina orðum mínum til hv. formanns allsherjarnefndar, sem var í salnum áðan en ég ætla samt að byrja mál mitt. Í fyrsta lagi vil ég í ljósi orða hv. síðasta ræðumanns koma þeirri skoðun minni á framfæri að það á að byrja að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ef við eigum að ná fram hagræðingu. Þau eru of mörg og ættu að vinna meira saman.

Sú fyrirspurn sem ég ætlaði að beina til formanns allsherjarnefndar sneri að því að hæstv. heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn minni út frá grein sem Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, skrifaði og varðaði framgang hæstv. heilbrigðisráðherra í þessum mótmælum. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að handtaka ungs manns í þessum mótmælum hefði verið hefndarráðstöfun lögreglu. Þetta eru býsna stór orð, ekki síst frá ráðherra. Ég óskaði eftir því að ráðherra bæði lögreglumenn afsökunar á að hafa sagt þetta en við því var ekki orðið.

Ætlun mín, frú forseti, var að spyrja formann allsherjarnefndar hvort hún tæki þetta mál hugsanlega upp á vettvangi nefndarinnar. Það eru mjög alvarleg skilaboð frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands að hún standi við þessi orð sín sem hún lét falla. Ég velti þá fyrir mér hvort það sé almenn stefna stjórnarflokkanna eða ríkisstjórnarinnar að lögreglan fari fram með þessum hætti. Nú heyra lögreglumál undir allsherjarnefnd. Þetta er spurning um virðingu þingsins og ábyrgð Alþingis, frú forseti, og ég held að það sé mjög mikilvægt að fá fram frá formanni allsherjarnefndar eða allsherjarnefnd hvort málið verði tekið upp í nefndinni og því þá komið skýrt á framfæri að nefndin og þeir er stjórna landinu styðji við bakið á lögreglunni.

Ég sé að formaður allsherjarnefndar hefur ekki skilað sér aftur í salinn.