138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

kynning á málstað Íslendinga í Icesave-málinu.

284. mál
[14:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi eitthvað misheyrst þegar hann taldi að það væri verið að sneiða að starfsmönnum utanríkisráðuneytisins með ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Það var alls ekki þannig. Ef gagnrýni er beint að því sem verið er að gera á vettvangi utanríkisráðuneytisins er þeirri gagnrýni auðvitað beint að hæstv. ráðherra sem ber hina pólitísku ábyrgð.

Ég get alveg tekið undir að við búum að mjög mörgu góðu fólki í utanríkisþjónustunni sem hefur unnið sín verk mjög vel, bæði í aðdraganda og kjölfar hrunsins sem við þekkjum öll. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra og ég tek undir að það er alveg greinilegt að það fólk hefur unnið mjög vel. Það er hins vegar athyglisvert að hæstv. ráðherra staðfesti í raun og veru það sem við höfum sagt í sambandi við þessa Icesave-deilu alla saman. Því hefur verið haldið fram að komið hafi verið á eins konar ígildi samnings milli okkar, Hollendinga og Breta. Nú sagði hæstv. utanríkisráðherra að mikið hefði m.a. verið unnið í því að útskýra það minnisblað sem undirritað var (Forseti hringir.) sem við vildum ekki hrinda í framkvæmd sem samningsgerningi. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra hefur með þessum orðum sínum staðfest það sem við höfum haldið fram.