138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

kynning á málstað Íslendinga í Icesave-málinu.

284. mál
[14:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Ef einhver gagnrýni á starfsmenn utanríkisþjónustunnar hefur falist í spurningu minni og hæstv. ráðherra túlkað það svo vil ég leiðrétta það hér. Auðvitað beinist gagnrýnin að hæstv. ráðherra sem bauðst til að taka alla ábyrgð á þessu og taka við allri gagnrýni. Hún beinist að ráðherranum. Ég tók það sérstaklega fram að við höfum á að skipa hæfum sérfræðingum úti um allt sem ég tel einboðið að hefði átt að beita fyrir okkur. Það er ágætt að að einhverju leyti hafi það gerst og hæstv. ráðherra segi það.

Mér finnst þetta allt saman mjög handahófskennt. Auðvitað voru fundir, auðvitað fóru menn og töluðu við aðra menn og eitthvað. Var sett upp eitthvert plan, t.d. með þeim sendiráðum sem snúa að þessum löndum eða öllum sendiráðum í Evrópu, alls staðar þar sem við vorum að berjast fyrir okkar málstað? Var sett upp plan með hvaða hætti yrði unnið að þessari kynningu? Það er það sem ég er að spyrja um. Var einhver verkefnastjórn? Var einhver viðbragðsáætlun sett upp í hruninu af hálfu þáverandi hæstv. forsætisráðherra, stjórn þar sem menn samræmdu aðgerðir í þessu ömurlega ástandi sem var þá? Var eitthvað slíkt gert í þessu af hálfu utanríkisráðherra með alla utanríkisþjónustuna í vinnu hjá sér? Var einhver slík áætlun sett fram? Var eitthvað gert til að passa upp á að menn nýttu einmitt okkar takmarkaða fjölda starfsmanna? Við erum lítið land og þurfum að vanda okkur við þetta allt saman og ná sem mestum árangri með sem skipulegustum hætti. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst svar hæstv. ráðherra ekki gefa það til kynna (Forseti hringir.) að utanríkisráðherra hafi sest niður með starfsmönnum sínum og sagt: Nú skulum við gera áætlun um það hvernig við kynnum þetta, t.d. (Forseti hringir.) eins og við gerðum þegar við fórum í öryggisráðsframboðið eða eins og við erum væntanlega að gera varðandi Evrópusambandið. Og það eru (Forseti hringir.) miklu meiri hagsmunir undir í þessu máli.