138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

hótanir, Evrópusambandið og Icesave.

303. mál
[14:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum sem tóku þátt í umræðunni og verð að fagna sérstaklega að hæstv. fjármálaráðherra heiðraði okkur með því að taka þátt í henni.

Ástæða þess að ég spyr hæstv. utanríkisráðherra en ekki hæstv. fjármálaráðherra var sú að ólíkt mörgum á þessum tíma grunaði mig einmitt að hæstv. fjármálaráðherra — vegna þess að ég var búin að lesa þessi gögn — væri að vísa til þessara hótana haustið 2008. Þá vildi ég fá að vita hvernig hæstv. utanríkisráðherra, sem er samnefnari haustsins við tímann núna, bregst við og utanríkisþjónustan öll þegar landinu okkar er grímulaust hótað af hálfu ESB í þessu tilfelli og hér hefur verið staðfest að það var hótað með uppsögn EES-samningsins.

Það að koma í einhverjar hártoganir um annað er fyrir neðan virðingu hæstv. ráðherra. Og ég átta mig ekki á ummælum um að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt í ræðu sinni að þetta væri sagt til að róa fólk. Ég er búin að renna yfir ræðu hæstv. ráðherra og skil ekki um hvað þetta snýst. Þetta mál allt saman snýst nefnilega um það að í þessari ræðu var hæstv. fjármálaráðherra með hræðsluáróðri sínum, sem er öllum kunnur, að segja að ef við samþykktum ekki Icesave væru hótanir um þetta og hótanir um hitt, en hann gat ekki sagt hvaða hótanir væru núna, hverju væri verið að hóta okkur núna, heldur greip hann þá til þess ráðs að tala um eitthvað sem gerðist náttúrlega í valdatíð Sjálfstæðisflokksins, það eru alltaf sömu rökin. Ég á eftir að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um það og ég er með fyrirspurnir inniliggjandi til hans þannig að menn þurfa ekki að óttast að (Forseti hringir.) ekki verði óskað eftir því.

Ég vil fá að vita hvernig utanríkisráðherra og utanríkisþjónustan bregst við þegar hagsmunum (Forseti hringir.) Íslands er ógnað með þessum hætti.