138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:45]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum þessar góðu spurningar. Fyrst varðandi seinna atriðið, sparnaðurinn af afnámi sumarbótanna er 370 millj. kr. Við höfðum þegar gert ráð fyrir ráðstöfun þess sparnaðar inn í lánasjóðinn. Við verðum hins vegar að taka á þessari athugasemd Sambands sveitarfélaga, við þurfum að fara yfir það hver er möguleg hætta, hvernig við getum brugðist við henni. Sveitarfélög eru nú þegar að fjármagna verkefni á sumrin fyrir námsmenn í þeim sveitarfélögum, hvað eigi að bjóða upp á ef þeir fá ekki vinnu o.s.frv. Þetta er einfaldlega útfærsluatriði. Við munum taka þetta upp við sveitarfélögin og við munum auðvitað gera það í sama pakka og við þurfum að ræða mörg önnur mál. Það er margt annað, skattabreytingar og ýmislegt fleira sem þarf að ræðast núna. Ég var að setja af stað eða endurvekja starfshóp um framtíð húsaleigubótakerfisins sem við þurfum að taka ákvörðun um fyrir mitt næsta ár, sem er grundvallarvelferðarkerfi sem við verðum að verja en kostar 2 milljarða á ári. Þessi samskipti milli ríkis og sveitarfélaga eru svo flókin. Það sem ég held að best sé að gera er að gera eins og við gerðum núna. Það er ekkert í löggjöfinni sem við erum að setja sem veldur kostnaði nema mögulega þessi þáttur. Við vitum þá hver hann er. Förum þá yfir það hvernig við getum minnkað kostnaðinn á báðum hliðum og tökum svo tillit til hins óhjákvæmilega kostnaðar í þessu heildaruppgjöri sem við þurfum að taka saman, vegna þess einfaldlega að staðan er svo fljótandi, vegna þess að verið er að gera svo marga hluti í einu. Þeir vegast auðvitað á og þeir hafa áhrif hver á annan en það eru atriði sem þarf bara að koma í þennan pakka. Við ræðum þetta fyrst, menntamálaráðherra, ég og sveitarfélögin, og svo munum við fara yfir kostnaðarþátttökuna með fjármálaráðherra í kjölfarið.