138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[16:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða heilmikið mál sem er frumvarp um umhverfis- og auðlindaskatta. Það á sér dálítið skrautlega forsögu frá því að hugmyndin var fyrst sett á flot í frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fram í þingbyrjun í október. Þá var sú hugmynd ekki reifuð eingöngu heldur var því í gadda slegið í frumvarpið sjálft að þar væri gert ráð fyrir því að innheimta auðlinda-, orku- og kolefnisskatta, ný gjöld, upp á 16 milljarða kr. Þetta var gert eins og menn ættu bara að taka þessu eins og að drekka vatn og látið í veðri vaka að þetta væri kannski ekki mjög stórt mál. Þetta er þó gríðarlega mikil ákvörðun, í fyrsta lagi prinsippákvörðun og síðan ákvörðun um að setja á nýja skatta, sem ekki höfðu verið innheimtir í þessu formi, upp á 16 milljarða kr. Þetta var gert að nánast algerlega óræddu máli. Það er að sönnu þannig að menn hafa einhvern tíma verið að fjalla um hugmyndir um orkuskatta, auðlindaskatta, kolefnisskatta en hin skipulega upplýsta almenna umræða sem þarf að liggja til grundvallar svona stórri ákvörðun hafði ekki farið fram, svo einkennilegt sem það var. Þetta er allt öðruvísi en við höfum kynnst þegar menn hafa verið að fitja upp á nýjum hugmyndum af þessu tagi.

Ég þekki vel til umræðunnar sem fór fram þegar var verið að setja á auðlindagjald í sjávarútvegi. Berum þetta saman, annars vegar þessa hugmynd hæstv. ríkisstjórnar, ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar, um það að leggja á 16 milljarða gjald því að þessi skattheimta var ákvörðun ríkisstjórnarinnar, á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er ekki eitthvað sem dettur af himnum, þetta er ekki einhver hugmynd sem á bara fylgismann uppi í fjármálaráðuneyti. Þetta er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna því að þeir bera ábyrgð á stóru ákvörðununum sem teknar eru í fjárlagafrumvarpinu og með því að leggja þetta fram hafa þessir flokkar lýst yfir stuðningi við þessi áform. Við vitum hins vegar að þetta mætti mikilli andstöðu. Þetta kom öllum í opna skjöldu og sem betur fer var ríkisstjórnin að nokkru leyti gerð afturreka með málið þó að enn sitji hún við sinn keip að því leyti að gert er ráð fyrir því í því frumvarpi sem hér er til umræðu að tekjurnar geti numið allt að 5 milljörðum kr. sem er engin smáupphæð.

Ég nefndi aðeins áðan auðlindagjaldið í sjávarútvegi og hvernig til þess hafði verið stofnað. Sú umræða tók mörg ár. Það fór mikil umræða fram um þessi mál í þinginu, það fór gríðarlega mikil umræða fram um þessi mál utan þingsins í almennri umræðu og til margra funda boðað í þessu sambandi. Þar var þó alla vega um það að ræða að menn gerðu sér grein fyrir því hvað í húfi var og í hverju þessi skattheimta fólst. Það velktist enginn í vafa um það. Og áður en ákvörðun var tekin á Alþingi var skipuð þverpólitísk nefnd á grundvelli þingsályktunartillögu, sem raunar var flutt af forustumanni þáverandi stjórnarandstöðuflokks, Margréti Frímannsdóttur, sem fól það í sér að nefndinni var falið að fara yfir þessi álitamál og komast að niðurstöðu. Nefndin starfaði undir forustu Jóhannesar Nordals, þáverandi seðlabankastjóra, og fór yfir málið vítt og breitt, kynnti sér öll rök, skoðaði forsendur, velti málinu fyrir sér, gaf út tvær skýrslur sem voru þá umræðugrundvöllur jafnt innan sjávarútvegsins sem og í almennri þjóðfélagsumræðu. Málið var lagt fram sem þingmál í góðum tímafresti, pólitískar umræður fóru fram um þessi mál í þinginu og að því loknu var tekin um það ákvörðun sem ákvörðun Alþingis að leggja á slík gjöld.

Hér er þessu allt öðruvísi farið. Hér hefur ekki verið efnt til almennrar umræðu. Hér hefur ekki verið lögð nándar nærri sambærileg vinna í þessi mál og samt sem áður erum við að tala um auðlinda-, umhverfis- og orkuskatta, sem nú er búið að upplýsa að er hreint uppnefni, sem eiga að nema 5 milljörðum kr. og ætlunin var að munu nema 16 milljörðum kr. og enginn vissi á þeim tíma hvernig átti að útfæra og allir ráðherrar sem málið varðaði með einhverjum hætti, eins og hæstv. iðnaðarráðherra, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, voru á harðaflótta undan þessari frumvarpssmíð sem þeir þó sjálfir báru alla pólitíska ábyrgð á ásamt félögum sínum í ríkisstjórnarflokkunum. Þetta er algerlega með ólíkindum og fordæmalaust liggur mér við að segja þegar um er að ræða mál af þessu taginu, umdeilt pólitískt mál, umdeildan skatt og nýja skattahugmynd af þessu taginu upp á 16 milljarða kr. Þetta er til marks um vinnubrögð sem ekki eru líðandi en eru hins vegar því miður í samræmi við það mark sem þessi ríkisstjórn er brennd.

Hugmyndir um alls konar auðlindaskatta, kolefnisskatta og slíkt, eru í sjálfu sér ekki nýjar af nálinni í almennri umræðu til að mynda erlendis. Þar hafa menn verið að velta þessu fyrir sér á akademísku plani og þetta er auðvitað eitt af því sem snertir þá umræðu sem m.a. á sér stað núna úti í kóngsins Kaupmannahöfn um hugmyndir manna um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég ætla að segja það strax sem mína skoðun að ég tel að skattar af þessu taginu séu allrar umræðu verðir. Þetta er eitthvað sem við eigum að velta fyrir okkur í heimi breytinga og það getur vel verið að slíkar skattaheimildir geti komið til álita. En alls staðar þar sem ég hef fylgst með slíkri umræðu hefur hún gengið út á það að skattheimtan kæmi þá í staðinn fyrir einhvers konar aðra skattheimtu, beina eða óbeina skattheimtu, aðra neysluskatta og þess háttar, aðra skatta af umferðinni, aðra skatta af bílum, aðra skatta sem þessi skattlagning væri þá að leysa af hólmi. Því er ekki til að dreifa hér því það er þvert á móti á sama tíma og verið er að setja fram þessar hugmyndir sem hér eru kallaðar auðlinda- og umhverfisskattar er verið að þyngja skattlagninguna að öðru leyti á sömu notendur og munu að lokum borga skattlagninguna sem hér er verið að boða.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda vekur til að mynda athygli á því í umsögn sinni að ekki sé nóg með að nú eigi að leggja á sérstakan kolefnis- eða orkuskatt á bensín og olíu heldur sé líka búið nú þegar á þessu ári að hækka olíugjald verulega og hækkun olíugjaldsins og kolefnisgjaldsins nemi 14,67 kr. á lítra eða um 35,8% og kostnaður vegna meðalnotkunar á dísilbíl á ári í þessu núna, kostnaðaraukningin, hefur þá aukist um 38 þús. kr. Sama er um að ræða ef við skoðum bensínið. Ef við tökum tillit til fyrirhugaðs kolefnisgjalds eins og hér er verið að tala um, sem á að vera 2,60 kr., þá er hækkunin 20,38 kr. eða 48,3%, nærri 50% og kostnaðaraukningin við notkun á meðalbensínbíl er þá 53 þús. kr. á einu ári. Þá sjáum við hvernig þetta allt saman er. Þetta er ekki hugmynd um það að láta þennan skatt leysa af hólmi aðra skattlagningu heldur þvert á móti er þetta aðferð við að auka þessa heildarskattheimtu sérstaklega á þessu sviði.

Hér hefur verið farið að nokkru leyti yfir það hver afleiðingin er t.d. af þessari skattlagningu sérstaklega, hvernig hún mun bitna ekki bara á almenningi í landinu, í formi þess að það verði dýrara að reka fjölskyldubílinn, sem er hluti af því sem flestar fjölskyldur telja sig þurfa á að halda. Við erum líka að tala um að þetta mun leiða til þess að kostnaður, flutningskostnaður út á landsbyggðina sérstaklega, mun stórum aukast. Hvað hafa menn oft haldið ræður, m.a. menn sem nú sitja á ráðherrabekkjunum, um nauðsyn þess að lækka flutningskostnað? Hæstv. samgönguráðherra, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, umboðsmaður og ábyrgðarmaður þessa máls, hafa haldið maraþonræður um mikilvægi þess að lækka flutningskostnað. Nú er það greinilega þeirra einbeitti vilji að hækka flutningskostnaðinn með því að hækka bensíngjöldin, hækka dísilgjöldin og setja á sérstakan kolefnisskatt ofan í kaupið. Þetta er þá framlagið til þessa. Og hvaða áhrif skyldi þetta hafa á samkeppnisstöðu atvinnulífsins á landsbyggðinni? Iðnfyrirtækin norður á Akureyri, steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki, iðnfyrirtækin á Suðurlandi svo að ekki sé talað um sjávarútveginn vítt og breitt um landið sem þarf á því að halda að flytja vörur sínar til helstu útflutningshafna í Reykjavík. Það er greinilega ekki verið að hugsa um heildarhagsmuni vegna þess að svo mikið liggur á að koma á þessari skattlagningu, þessari auðlinda- og umhverfisskattlagningu í dularbúningi, að það er ekkert hugað að þessum heildarhagsmunum.

Talandi um það. Mér hnykkti satt að segja við við lestur á þeim umsögnum sem fyrir liggja í þessu máli að gera mér grein fyrir því að ætlunin reyndist vera sú að þeir umsagnaraðilar sem fengu þetta mál til meðhöndlunar fengu alls þrjá heila daga til að afgreiða þetta mál, þetta stóra mál, ásamt því að segja skoðun sína á alls konar öðrum skattbreytingum. Fram kom í einni umsögninni að það hefði borist, held ég, á laugardegi og þremur dögum síðar áttu menn að hafa mótaða upplýsta skoðun um hvað þetta þýddi og hverjar afleiðingarnar væru. Það er auðvitað óþolandi að svona sé gert og er til marks um mjög slök vinnubrögð. Ég ítreka það að ég tel það alveg umræðunnar virði að velta því fyrir sér hvort við viljum breyta með einhverjum hætti skattlagningunni og beina henni að einhverju leyti meira inn í þennan umhverfislega þátt. Það er auðvitað mál sem er sjálfsagt að ræða, velta fyrir sér og fara ofan í. En þá er það sjálfgefinn hlutur að það sé gert með þeim hætti sem við gerðum þegar verið var að setja á auðlindaskattinn í sjávarútvegi, svo umdeildur sem hann var, að það sé gert með þeim hætti að fram fari almenn pólitísk umræða um þetta, það gefist tóm til þess, ekki bara á einum eftirmiðdegi eftir að málið hefur verið rekið inn með harðri hendi og rekið í gegnum þingið eins og verið sé að reka fé í rétt í stað þess að þessi umræða geti farið fram með upplýstum hætti.

Eins og málin hafa þróast hefur þetta ekki reynst vera auðlindaskattur nema þá í dularbúningi. Hér hefur verið bent á af ýmsum hv. þingmönnum að ef þetta væri auðlindaskattur væri skattstofninn annar, þá væri skattlagningunni hegðað allt öðruvísi. Í áliti 1. minni hluta hv. efnahags- og skattanefndar segir meðal annars að ekki verði séð að sérstök umhverfissjónarmið liggi að baki upptöku kolefnisgjalds þar sem fjárhæð gjaldsins er ekki í tengslum við magn á losun kolefnis. Ef umhverfissjónarmið er ástæða skattsins væri auðveldara að skattleggja kolefnisatómið sjálft og væri þá öll losun þess skattlögð sama hvar það er notað. Eins og menn hafa bent á er þetta skattlagning á síðasta þættinum í verðlagningunni. Þetta er eins og að skattleggja fiskbollurnar í búðinni eða fiskflakið en ekki skattleggja auðlindina eins og gert er til að mynda varðandi auðlindaskattinn í sjávarútveginum.

Síðan er það auðvitað líka efni út af fyrir sig að velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á ýmsa þætti. Orkustofnun vekur t.d. athygli á því að það sé stórfurðulegt varðandi skattlagningu söluvirðis á heitu vatni að gjaldið skuli leggjast á í öfugu hlutfalli við verðmæti auðlindarinnar og þeir sem fyrirsjáanlega munu borga mest verða þeir sem búa við erfiðustu aðstæðurnar. Þetta er dálítið sérkennileg aðferð, sérstaklega hjá ríkisstjórn sem hefur haft það að boðorði sínu og mottói að hún sé að reyna að finna hin breiðu bök, hún sé að finna þá sem helst geta tekið á sig skattlagninguna. En nú er hins vegar gripið til þess ráðs að skattleggja þau orkufyrirtæki og þá starfsemi sem stendur höllustum fæti fyrir þannig að sá borgi mest sem til þess er verst færastur. Þetta væri alveg sérstakt rannsóknarefni fyrir svo mikla snillinga sem Stefán Ólafsson og Þórólf Matthíasson og skora ég á þá að velta fyrir sér þessari glæsilegu hugmynd að skattleggja sérstaklega þar sem aðstæðurnar eru erfiðastar, að setja þar á hörðustu skattlagninguna.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hægt að fara yfir þetta mál með ýmsum hætti. Veltum aðeins fyrir okkur sjávarútveginum í þessum efnum. Við vitum að sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur okkar. Sjávarútvegurinn er líka í þeirri stöðu að útblástur, sem er óhjákvæmilegur í sjávarútvegi, er býsna mikill og það blasir við að þessi skattlagning mun verða mjög íþyngjandi fyrir sjávarútveginn. Þá er farið í það, af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, að verja sig með því sem er gamalkunnugt. Það eru dæmi einhvers staðar annars staðar í heiminum um það að menn fari svipaðar leiðir í skattlagningu og úr því að hægt er að finna einhvers staðar slík dæmi þá skulum við fara í kjölfarið. Ef menn nota þessa aðferðafræði er hægt að finna upp skattlagningu á hverju sem er því að skattlagningar í einhverju formi einhvers staðar eru örugglega til í býsna fjölbreyttri mynd. Í þessu tilviki er sérstaklega vísað til Noregs um að þar sé skattlagning á þessu taginu og þess vegna sé okkur ekki of gott að taka upp skattlagningu af þessum toga.

Þá vil ég vekja athygli á því, sem kemur líka fram í þeim gögnum sem lögð voru fyrir efnahags- og skattanefnd, í sambandi við þetta sérstaka kolefnisgjald sem lagt er á í Noregi, sem sérstaklega hefur verið vísað til, þá eru nokkrar atvinnugreinar undanþegnar kolefnisgjaldinu eins og t.d. fiskiskipaflotinn og líka samgöngur flugvéla og kaupskipa milli landa. Það er því alveg ljóst mál að með þeirri aðferð sem verið er að beita er verið að íþyngja sjávarútveginum, skerða samkeppnisstöðu hans og er hún þó nógu skökk fyrir í ljósi þess að við erum með sérstaka gjaldtöku vegna auðlindanna, eins og ég rakti áðan, sem ekki tíðkast annars staðar almennt í heiminum. Nú erum við með þessari skattlagningu enn að torvelda samkeppnisstöðu okkar einmitt á þeim tímum þegar við þurfum að gæta þess að þessi atvinnugrein, sjávarútvegurinn, sé í sem bestum og mestum færum til að takast á við þá samkeppni sem við er að glíma.

Sama má segja um ýmislegt annað. Við ræddum lengi í gær um svokallaðan stuðning til nýsköpunarfyrirtækja. Þá vakti ég athygli á því að á sama tíma og við vorum að ræða þau mál, þ.e. ívilnandi skattareglur fyrir nýsköpunarfyrirtæki, þróunar- og nýsköpunarstarfsemi, erum við að setja á sérstaka skattheimtu ofan á atvinnulífið okkar sem eyðir út, og miklu meira en það, öllum ávinningnum af ívilnandi aðgerðum fyrir rannsóknar-, þróunar- og sprotafyrirtæki. Þetta blasir við og þetta hér sem við erum einmitt að ræða er einn liður í þessu.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er kannski sá aðili sem ætti gleggst að vita um það hver áhrifin af þessari skattheimtu verða. Hvað segir nýsköpunarmiðstöðin um þessa hluti? Þeir segja: Þessar skattahækkanir munu ekki ýta undir nýsköpun í landinu og það blasir við. Fyrirtæki sem eru að taka á sig skattheimtu af þessum toga hafa ekki þá fjármuni sem fara í þá skattheimtu til að leggja í nýsköpunar- og þróunarstarfsemi. Það mun ekki auðvelda starfsemi sprotafyrirtækja, sem er töfraorðið sem hæstv. ríkisstjórn bregður fyrir sig á tyllidögum. Þvert á móti telja þeir að þessar breytingar munu draga úr starfsemi sprotafyrirtækjanna og nýsköpun.

Virðulegi forseti. Var það ekki rétt munað að það væri í gær, fyrir svona 24 tímum, svo ég geri eins og hv. þm. Pétur Blöndal, að við vorum að samþykkja lög til að styðja við sprotafyrirtæki? Var það ekki á þessum tíma í gær sem hæstv. fjármálaráðherra kom fagnandi og með himinskautum yfir því að hann væri búinn að tryggja þverpólitíska samstöðu um það að styðja við bakið á nýsköpunar- og þróunarstarfsemi? Síðan kemur sú ríkisstofnun sem gleggst þekkir til þessara mála og segir: Bara þetta eina frumvarp sem við erum að ræða mun draga úr starfsemi sprotafyrirtækja og nýsköpun þannig að það sem ríkisstjórnin gerir með annarri hendinni tekur hún burtu með hinni. Þessi vinnubrögð eru alveg með ólíkindum öllsömul og til viðbótar: Ferðaþjónustan. Menn segjast tala um hana. Hún skiptir gríðarlega miklu máli og mun verða hluti af þeirri endurreisn sem við þurfum að eiga í landinu. Menn voru að monta sig nokkuð af því í ríkisstjórninni að hafa töfrað fram einhverja milljónatugi til að geta farið í aukna markaðssetningu fyrir ferðaþjónustuna. Það er út af fyrir sig jákvætt og gott og mun alveg örugglega skila sér margfaldlega í ríkiskassann. En þessi skattlagning leggst með ofurþunga á ferðaþjónustuna og í skýrslu sem samgönguráðuneytið birti 22. ágúst í fyrra var einmitt mjög verið að vekja athygli á því hvað ferðaþjónustan væri berskjölduð fyrir áformum um alls konar skattlagningu og íþyngjandi aðgerðir sem bitnuðu m.a. á eldsneytiskostnaði. Ferðamenn sem koma hingað geta ekki farið öðruvísi heldur en með flugi nema þeir kunni sjálfir að fljúga sem er frekar óalgengt, held ég, í mannheimum. Þess vegna hafa menn ekki möguleika á því að svissa yfir í aðra flutningsstarfsemi og þetta mun þess vegna skaða okkar ferðaþjónustu meira en ferðaþjónustu almennt annars staðar í heiminum og skekkja samkeppnisstöðu hennar.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er illa undirbúið, vanhugsað, vanreifað og án þeirrar pólitísku umræðu sem þarf að eiga sér stað. Það mun fyrirsjáanlega koma þungt niður á atvinnulífinu og sérstaklega íbúum landsbyggðarinnar.