138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:30]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt, ástandið er ekki gott en það fer batnandi. Það er nefnilega rétt sem hæstv. utanríkisráðherra kom inn á áðan að ýmis mjög jákvæð teikn eru á lofti í íslensku atvinnulífi ef okkur tekst að sigla skútunni í gegnum þetta brim. Séreignarskatturinn og séreignarlífeyrissjóðirnir gagnast okkur prýðilega núna. Heimildir til að taka fjármuni út úr séreignarsparnaðinum umfram það sem áður var heimilt, lögum og reglum samkvæmt, gagnast nú atvinnustarfseminni mjög vel. Þetta veldur því að fjöldi einstaklinga er að ljúka við eða ráðast í minni háttar framkvæmdir sem koma til með að láta hjólin snúast örlítið hraðar. Lífeyrissjóðirnir og séreignarsjóðirnir sérstaklega gagnast okkur því vel.

Spurningin er hins vegar hin sem ég velti fyrir mér, hvort það sé ráðlegt að snúa þessari skattlagningu á lífeyrinn við núna. Eins og ég segi verða þessir fjármunir skattlagðir þegar þeir eru teknir út úr lífeyrissjóðunum. Ef við hins vegar flýtum þeirri skattlagningu gefur augaleið að hún verður ekki til staðar síðar þegar við þurfum hugsanlega mjög á slíkum úrræðum að halda. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki blásið þetta út af borðinu er sú að ég hef oft hugsað þessa hugsun. Ástæðan fyrir því að margir samflokksmenn mínir hafa hins vegar gert það er nákvæmlega sú sama og ég nefni hér sem mín sjónarmið, það er að við eigum ekki að gera þetta núna. (Forseti hringir.) Það er ekki hyggilegt að gera þetta núna og fresta vandanum þannig.