138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög áhugaverður punktur sem hv. þingmaður kom inn á og er í raun algjörlega ný hugsun um hvernig við eigum að starfa á Alþingi. Við erum alltaf að hugsa um ríkissjóð og hvaða áhrif einstakar breytingar hafa á ríkissjóð. En er verið, a.m.k. í sumum frumvörpum, að telja áhrifin á heimilin? Það er ekki tekið fram, t.d. í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins. Það er ný hugsun sem við þurfum náttúrlega að fara að innleiða hér í þinginu.

Sveitarfélögin hafa bent á það lengi að breytingar á lögum er snerta sveitarfélögin — það er yfirleitt ekki tekið fram í kostnaðarumsögnum og þau fá ekki aðkomu að vinnslu frumvarpa til að meta áhrif á kostnaðinn.

Við eigum að sjálfsögðu að fara að taka upp þau vinnubrögð að horfa heildstætt á þær afleiðingar sem ákveðnar breytingar hafa, ekki bara fyrir ríkissjóð sem er í erfiðleikum heldur líka fyrir heimilin sem glíma jafnvel við meiri erfiðleika en ríkissjóður núna.