138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ræðu hans. Það er tvennt sem ég mundi vilja spyrja þingmanninn nánar út í. Annað varðar það hvort og hvernig meiri hluti efnahags- og skattanefndar hafi fjallað um áhrifin af skattahækkunum á vísitölu neysluverðs og áhrifin á lán heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá sér fréttatilkynningu sem birtist í gær þar sem þau benda á að þessar hækkanir, sem eiga að skila í ríkissjóð 9–10 milljörðum, muni hækka lán heimilanna strax á næsta ári um 13,4 milljarða. Ég saknaði þess virkilega í nefndarálitinu hve lítið er fjallað um þessa víxlverkun á milli skattahækkana og vísitölu neysluverðs og verðbóta.

Síðan hefði ég mikinn áhuga á að heyra frá þingmanninum, af því að hann fjallaði aðeins um þessa blönduðu leið sem ríkisstjórnin hefði ákveðið að fara, hvort nefndin hafi skoðað að einhverju ráði ábendingar sem komu frá hagfræðingum í rannsókn sem birtist nýlega um viðbrögð 21 lands við miklum og snörpum hallarekstri. Niðurstöður þeirra benda til þess að heppilegra sé að skera niður útgjöld hins opinbera til að efla hagvöxt til langframa og bæta skuldastöðu ríkisins en að hækka skatta. Þá eru skattaívilnanir líklegri til að koma hagkerfinu á réttan kjöl og draga úr hallarekstri hins opinbera en aðrar aðgerðir sem eiga að hvetja til einkaneyslu. Þetta er algerlega í andstöðu við skýrslu hæstv. fjármálaráðherra þar sem talað er um að lækkun útgjalda hafi neikvæðari áhrif á framleiðslustig og dragi úr hagvexti en hækkun skatta a.m.k. til skemmri tíma litið. Getur verið að þessar rannsóknir bendi til þess að allt sem ríkisstjórnin er að gera núna í sambandi við efnahagsmál og fjárlögin sé hreinlega byggt á röngum forsendum?