138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef oft heyrt þessa röksemdafærslu frá hægri mönnum en ég spyr þá: Viljum við skera niður hjá almannatryggingum? Viljum við skera niður í heilbrigðiskerfinu, það er stærsti útgjaldaliðurinn, viljum við gera það? Viljum við skera niður í skólakerfinu? Viljum við skera niður velferðarríkið á Íslandi? Er það það sem við viljum? Ég held ekki. Ég held að við viljum finna einhvern gullinn meðalveg þarna í hærri sköttum og niðurskurði í rekstrarútgjöldum því að við erum að sönnu að ráðast í þær.

En varðandi áhrifin á verðlagið segir á bls. 2 í áliti okkar, þar er vísað til þess að breytingar á virðisaukaskatti komi til framkvæmda í tveimur áföngum, (Forseti hringir.) að áætluð verðlagsáhrif með samþykkt frumvarpsins eru 0,85%, og varðandi áfengisgjald og tóbaksgjald er vísað í 0,15% hækkun á verðlagi. Það er því ekki rétt að ekki sé skírskotað til verðlagsáhrifa.