138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég hef hitt töluverðan hóp af fólki sem dauðsér eftir að hafa kosið þessa ríkisstjórn yfir sig. Ég held að þeim kjósendum í landinu fari fjölgandi dag frá degi þegar áherslumál þessarar ríkisstjórnar koma betur í ljós.

Varðandi þessa flýtimeðferð hefur þetta allt verið með ólíkindum. Við í efnahags- og skattanefnd höfum fundað frá morgni til kvölds undanfarna daga. Á sama tíma hefur maður reynt að sinna einhverjum öðrum erindum, svo sem símtölum frá kjósendum o.fl. (Gripið fram í.) og skrifa umsagnir sem við höfum oftar en ekki þurft að gera á nefndarfundum. Við þetta vinnulag er ekki hægt að una.

Í morgun var keyrt í gegn eitt skattafrumvarp. Ég gerði heiðarlega tilraun til að reyna að koma mér heim í bað til að búa mig undir ræðumennsku fram á nótt til að ræða þessi mikilvægu mál og þegar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hringdi í mig og sagði að það væri að hefjast atkvæðagreiðsla um mikilvægt skattafrumvarp þurfti ég að hoppa upp úr baðkarinu og bruna niður í þing. Það er náttúrlega með ólíkindum hvernig að málum er staðið. Maður gat varla þurrkað sér (Forseti hringir.) eftir baðið.