138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg viss um að þessi upplestur hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur verður kominn á Rauða þráðinn eða hvað hann heitir, bloggvefur Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Þetta er allt í einhverri fortíð, hv. þingmaður. Ég beindi til hennar fjöldanum öllum af spurningum og hún svaraði engri þeirra heldur fór á Rauða þráðinn og las upp einhverjar sögulegar skýringar sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur farið með á Alþingi 150 sinnum. Það er engin framtíðarsýn í þessu, það eru ekki svör við neinum spurningum. Hv. þingmanni finnst þetta frumvarp æðislegt og hún ætlar að samþykkja það vegna þess að forsætisráðherrann hefur sagt henni að gera það. Ef við horfum á þær afleiðingar sem þetta mun hafa á t.d. hjón er verið að búa til misrétti á milli hjóna sem búa í sömu götu. Hv. þingmaður svaraði ekki þeirri spurningu hvort hún væri sammála þessari (Forseti hringir.) innleiðingu.