138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:03]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að við gætum haldið hér áfram í alla nótt. Hins vegar virðist gæta einhvers misskilnings því að ég hélt því ekki fram að þetta væru 3% almennt yfir línuna. (TÞH: Hámark…) Nei, það sagði ég ekki …

(Forseti (ÞBack): Ræðumaður hefur orðið.)

… hv. þingmaður. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég talaði um að þetta væri hækkunin.

(Forseti (ÞBack): Gefa ræðumanni hljóð.)

Ég talaði um að þetta væri hækkunin á meginþorra fólks og að við horfðum á tekjuhópana sem skipta mestu máli. Ég gæti náð í línurit af borðinu mínu sem sýnir jaðarskattsáhrifin. Ef hv. þingmaður kæmi hér aftur upp mundi ég náttúrlega spyrja hann hvort hann teldi þetta það dramatískar hækkanir á jaðarskatti að það hefði áhrif á vinnuframlag en það getum við ekki gert. Ég ítreka bara þá skoðun mína að hækkunin á jaðarskatti núna eins og þessar skattkerfisbreytingar og skattahækkanir sem almennt er verið að fara í séu (Forseti hringir.) ekki tilefni til leikrænna tilburða af því að þær eru ekki svo miklar. Þetta eru (Forseti hringir.) hóflegar skattahækkanir.