138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi fyrra atriðið. Það er allt rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að hér eru höft, hér hefur verið mikil verðbólga, hér er óráð og óstjórn varðandi allt verklag í ríkisfjármálum. Menn geta talað um fyrri ríkisstjórn. Gott og vel. Það voru mörg mistök gerð þar og það þarf að ráða fram úr málum eins og þau eru í dag. En í guðanna bænum, ég bið hæstv. ríkisstjórn og þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að tala hreint út og það er það sem ég er að biðja um. Hættið þessum feluleik. Segið bara að þið viljið hækka skatta, grímulaust. Segið að þið viljið breyta kerfinu af því að ykkur líkar það ekki eins og það er í dag. Þannig er það. Það er verið að breyta þessu kerfi, það er verið að breyta samfélaginu á svo margan hátt.

Talandi um menntakerfið, fyrst við erum að tala um menntakerfið óttast ég líka mjög miklar breytingar þar. Ég heyri þetta bæði hér á göngum, kaffistofum og víðar: Eigum við ekki bara að sameina Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands? Það er einmitt þessi hugsunarháttur sem ég er hrædd við. Það á að útrýma allri samkeppni. Það má ekkert vera einkarekið. Nei, nei, nei, ekkert einkarekið, reynum bara að gubba þessu saman í einn heilan pakka. Það er þetta sem ég er hræddust við, að menn átti sig ekki á því hvað það er mikilvægt fyrir skattgreiðendur, fyrir einstaklingana sem ætla sér í nám upp á valið að gera, að menn sjái ekki að það skiptir máli að hafa samkeppni á sviði einkarekstrar í skólamálum sem og á fleiri sviðum. (Gripið fram í.)

Ég segi: Já, við eigum að halda áfram. Ég hef sameinað margar skólastofnanir og gerði það sem menntamálaráðherra. Því á að halda áfram og það eru margar hugmyndir sem hægt er að ræða, til að mynda þær hugmyndir sem hafa komið fram í nefnd menntamálaráðherra og hafa verið ræddar í þinginu og ég er tilbúin til að (Forseti hringir.) taka þá umræðu hvenær sem er.