138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[10:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum áfram við 3. umr. skattbreytingar ríkisstjórnarinnar sem eru viðamiklar og að sumu leyti flóknar en að sumu leyti æskilegar líka. Frumvarp þetta gengur út á það að afla ríkinu aukinna tekna með breytingum á ýmsum lögum, m.a. um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, fjármagnstekjur og tryggingagjald. Hér er verið að innleiða fjölþrepatekjuskattskerfi. [Kliður í þingsal.] — Frú forseti. Má ég biðja um hljóð í salnum? Fjölþrepatekjuskattskerfi getur að mörgu leyti verið æskilegt. Það leiðir til meiri jafnaðar og að því leytinu til er það æskilegt miðað við það sem á undan er gengið í íslensku efnahagslífi undanfarin ár og áratugi. Það þarf þó að varast að ganga of langt í þeim efnum og það þarf að varast að leggja einhvers konar hátekjuskatt á allt of lágar tekjur sem og að hafa skattprósentuna það háa að hvatinn til vinnu dofni um of. Ég tel ekki svo vera í þessu frumvarpi þó að augljóst sé að heimilin muni illa þola auknar skattahækkanir.

Hvað varðar áhrif skattbreytinganna á efnahagslífið almennt og þjóðarhag telur Hreyfingin að sá rökstuðningur sem er í frumvarpinu gangi einfaldlega ekki upp við aðstæðurnar í íslensku efnahagslífi nú um stundir. Sá rökstuðningur byggist á því að ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með skattheimtu geti haft örvandi áhrif á hagkerfið í niðursveiflu en telur jafnframt til misskilnings að aukin skattheimta dragi úr eftirspurn í hagkerfinu. Einnig er því haldið fram í rökstuðningnum að aukin ríkisútgjöld muni auka eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Rök þessi geta verið góð og gild við ákveðnar aðstæður og þessar aðferðir hafa reynst vel sem sveiflujafnandi og kreppuminnkandi aðgerðir. Sem slík gengur kenningin upp, þessi svokallaða keynesíska kenning, í reynd þó að það beri að varast ýmislegt við notkun aðferðanna, sérstaklega hvað varðar þá freistingu að ofgera notkun aðferðanna og varanleika þeirra.

Það er hins vegar ljóst að tekjuskattsstofnar ríkissjóðs hafa rýrnað mjög mikið og sumir hafa allt að því horfið. Almennar launatekjur og tryggingagjaldið eru stöðugir og tiltölulega auðinnheimtir skattstofnar og því er freistandi að fara þá leið í leit að tekjum fyrir ríkissjóð. Í því efnahagsástandi sem við búum við núna eru þessir skattstofnar hins vegar viðkvæmir, geta auðveldlega rýrnað að upphæð og fjölda greiðenda ef brottflutningur frá landinu heldur áfram. Það er mjög varasöm þróun og talsvert líkleg og getur valdið umtalsverðum vandræðum mjög fljótt inn í framtíðina.

Auknir skattar á heimilin eru erfið viðbót við þær hremmingar sem þegar hafa dunið á þeim. Að sama skapi er tryggingagjaldið í raun gjald fyrir að hafa fólk í vinnu og það getur takmarkað enn frekar vilja fyrirtækja til mannaráðninga. Það er því hætt við, frú forseti, að þessar skattahækkanir muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem það mun þýða að ráðstöfunartekjur heimilanna munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem frumvarpið vill ná fram sem og að hafa góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina mundi aukast. Aukin skattheimta hefði hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar.

Annar minni hluti leggur því til að tekið verði tillit til þeirra breytinga sem Hreyfingin hefur lagt til fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga. Þar er m.a. fallið frá því að hækka skatta á almenning en lagt til að ríkissjóður afli frekari tekna með því að taka inn alvöruauðlindagjald af annars vegar aflaheimildum og hins vegar raforkusölu til stóriðju sem og gistináttagjald. Þetta eru tekjur sem koma af þeim greinum sem best standa í dag. Þetta eru tekjur af útflutningsgreinunum hverra hagur hefur vænkast til muna, eru best aflögufærar og ættu að öðru óbreyttu að vera færar um að reiða af hendi gjald fyrir notkun auðlindanna. Hingað til hafa þær ekki greitt neitt fyrir þau afnot. Þó að raforkuverðið sé að vísu eitthvert er það ákveðin lágmarksupphæð sem stóriðjan fær nánast á silfurfati og því er mikilvægt upp á framtíðina að gera og hagkvæmari nýtingu náttúruauðlindanna að þegar verði farið að taka af þeim ákveðið gjald.

Þessar skattbreytingar hafa verið unnar á gríðarlegum hraða og þær eru illa unnar. Það er mjög varasamt að innleiða svona viðamiklar breytingar á skattkerfum með svo stuttum fyrirvara sem raun ber vitni í þessu máli. Það eru líkur á því að mistök verði gerð um áramótin og í upphafi næsta árs og það er mjög erfitt fyrir skattkerfi sem fer af stað á brauðfótum að rétta sig við aftur. Það tapar ákveðnum trúverðugleika og við slíkt tap aukast skattundanskot til muna. Það er mjög erfitt að ná aftur tökum á kerfinu, á skattundanskotunum og þeim trúverðugleika sem mun hverfa. Þessar skattbreytingar eru ekki nægilega vel ígrundaðar. Þær eru ekki nægilega vel yfirfarnar og efnahags- og skattanefnd hefur haft alveg fáránlega skamman tíma til að ígrunda þær. Fjölmargir hafa vissulega komið fyrir nefndina en lítil sem engin efnisleg umfjöllun hefur verið um þær innan nefndarinnar sjálfrar þó að ýmis sjónarmið hafi komið fram af hálfu einstakra nefndarmanna.

Það er líkt með þessar skattbreytingatillögur sem og aðrar lagabreytingar sem liggja fyrir þinginu núna að það er verið að afgreiða mjög mikla lagasetningu hér á methraða við aðstæður sem eru algjörlega óásættanlegar. Eins og kom fram hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur rétt áðan eru menn að skrifa nefndarálit allar nætur og allar helgar. Menn eru við það illa sofnir og illa hvíldir og það eru gerð mistök, bæði í álitum sem og í lagasetningunni sjálfri. Það hefur þegar komið í ljós að m.a. er búið að selja tvo ríkisbanka í heimildarleysi og það er ekki neitt smámál. Það er að koma inn frumvarp sem tekur á því á síðasta degi fyrir jólahlé þingsins. Löng runa af mistökum er gerð í þinginu þessa dagana og það er einfaldlega að mínu mati skammarlegt fyrir Alþingi að starfa með þessum hætti. Það er óþarfi fyrir Alþingi að starfa svona. Það er einfaldlega hægt að fækka málum sem á að afgreiða fyrir jól og fyrir áramót og reyna að afgreiða hin með betri hætti en gert er. Hreyfingin leggur því til að frumvarpinu um tekjuskattshækkanir verði einfaldlega frestað og það betur ígrundað þannig að fólki gefist betri tími til að undirbúa þær skattbreytingar sem þurfa þó að eiga sér stað. Það liggur ekki á að gera það fyrir áramót. Þó að það sé að mörgu leyti æskilegt er sú hætta einfaldlega fyrir hendi eins og áður hefur komið fram að mjög mörg mistök verði gerð um áramótin. Þetta eykur flækjustigið. Til frambúðar ætti það ekki að vera vandamál vegna þess tækniumhverfis sem íslensk atvinnufyrirtæki og skattstjóri búa við en til skemmri tíma er mjög auðvelt að gera mistök í þessum málum. Þau er erfitt að leiðrétta og það er erfitt að leiðrétta þann brest á trúverðugleika sem skattkerfið verður fyrir þegar þau mistök verða gerð. Það er í rauninni ekki spurning um hvort, heldur bara hvenær og hve mikil þau mistök verða.

Því leggjum við til að þessum breytingum verði frestað og að frekara tillit verði tekið til breytingartillagna Hreyfingarinnar sem koma fram síðar.