138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:06]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er gerð tillaga um 35 millj. kr. lækkun á vasapeningum ellilífeyrisþega. Fyrsta tillaga ríkisstjórnarinnar til niðurskurðar á þessu ári var að skerða bætur til ellilífeyrisþega og örorkuþega. Vasapeningar ellilífeyrisþega voru u.þ.b. 500 millj. kr. á þessu ári og í fjárlagatillögunni voru þeir lækkaðir niður í 350 millj. kr. og nú við 3. umr. er gerð tillaga um að höggva enn í sama knérunn, höggva að þeim sem síst skyldi. Það er gerð tillaga um að lækka þessa fjárhæð enn og aftur um 35 millj. kr. og ég skora á hv. þingmenn að segja: Nú er nóg komið, hingað og ekki lengra — og fella þessa tillögu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)