138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki svaravert að hv. þingmaður velur að tala um óheiðarleika og ólíkindi og að ég vinni að hagsmunum annarra en íslensku þjóðarinnar. Það eru nefnilega rök í málinu sem voru flutt hér ágætlega áðan, að ég taldi, fyrir því að það væru fyrst og fremst hagsmunir íslensku þjóðarinnar að komast áfram, ljúka þessu máli með sátt og eiga þannig aðgang að lánsfé í framtíðinni og að reyna að ná að klára málið þannig að við séum ekki í eilífum útistöðum við alþjóðasamfélagið. (Gripið fram í.)

Varðandi það sem samþykkt var í haust hef ég áður sagt í umræðunni að það var eitt sem við klikkuðum illilega á, það var þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust. Við vissum það nóttina sem þetta gerðist, ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fóruð þið yfir mörkin. Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? (Gripið fram í.) Átti ég að fara að segja (Forseti hringir.) að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því. Því miður brást það.