138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hófstillta og málefnalega ræðu. Ég er ósammála honum um það hvernig hann túlkaði þau skilyrði sem við settum varðandi frumvarpið í haust. Þetta voru skilyrði, þetta voru ekki samningsatriði, þetta var ekki eitthvað sem við ætluðum að fara með út til Breta og Hollendinga til að semja um við þá. Þetta voru þau lágmarksskilyrði sem við gátum sætt okkur við til að gera málið bærilegt.

Í annan stað vitnaði hann aðeins í skýrslu sem ég hef gert nokkuð að umræðuefni hérna og það er skýrslan frá Mishcon de Reya sem að mínu mati er mjög mikill áfellisdómur um verk ríkisstjórnarinnar, þar sem segir að þessi samningur sé mögulega pólitískt viðunandi að vísu en hann sé hvorki skýr né sanngjarn né séum við í færum til að borga. Lögfræðistofan hvetur til þess að farið verði með uppbyggjandi hætti til Breta og Hollendinga til að freista þess að taka upp þennan samning að nýju. Ég vil spyrja hv. þingmann hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir geti ekki fellt (Forseti hringir.) sig við þá hófstilltu leið sem lögfræðistofan er þarna að hvetja til í því skyni að reyna að leysa málin með þeim hætti að íslenska þjóðin geti við unað.