138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get upplýst hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson um að ég er alls ekki vansvefta út af þessu máli í þessari lotu. Þó að ég hafi sofið lítið í nótt þoli ég sólarhringinn og ætla ekki að kveinka mér undan því. Þetta mál snýst ekkert um það og ég er ekki í ójafnvægi út af þessu en mér er gjörsamlega misboðið hvernig menn tala og haga sér gagnvart íslensku Alþingi varðandi upplýsingagjöf til okkar eftir að við erum búin að kaupa formleg álit, óska eftir því að fá öll gögn og biðja um að allri leynd sé aflétt.

Talað er um að það sé fullyrt í þessu bréfi um að það hafi verið undirbúningsfundur með einhverri glærusýningu, það kemur fram í þessu bréfi þar sem formaður samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, tekur út ákveðin gögn. Það var upplýst hér að það var fyrst og fremst varðandi Heritable banka vegna þess að hann væri undir skilanefnd og slitastjórn. Það hefur verið upplýst, það var upplýst hér í umræðunni í gær. Við fengum síðan yfirlýsingu frá Svavari inn á fund fjárlaganefndar.

Ég ætla ekki að fara í dómsmál um þetta. Ég fæ ekkert úr því skorið, það eru engar upptökur eða myndatökur af þessum fundi þannig að (Forseti hringir.) fjárlaganefndin kemst ekkert með þetta lengra. Hún er bara með þessar fullyrðingar og við verðum bara að láta það duga. (Gripið fram í: Láta það duga? …)