138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að tjá mig aftur um þetta blessaða Icesave-mál en komst hér á mælendaskrá í gærkvöldi vegna þess að það barst bréf frá þessari frægu lögmannsstofu Mishcon de Reya og var haldinn fundur í fjárlaganefnd út af því. Kom þar ýmislegt í ljós sem fjárlaganefnd þurfti að fjalla um og var ákveðið að þeim fundi loknum að formaður nefndarinnar og framsögumenn nefndarálita mundu setja sig á mælendaskrá til þess að segja frá sinni skoðun á þessu.

Þeim fundi var svo frestað og er honum fram haldið núna. Það hefur margt gerst í millitíðinni. Það sem hefur gerst er kannski fyrst og fremst birtingarmynd alls þess sem er að í þessu máli og alls þess sem er að á Alþingi Íslendinga, það er einfaldlega ekki gefinn nægilegur tími til að vinna málið. Í þessu tilviki er málið búið að vera deilumál í marga mánuði og hefur skapast vantraust á milli aðila þannig að það hefur gert alla vinnslu málsins miklu erfiðari. Það hefur verið upplýst um að verið hefur leynimakk í gangi í kringum þetta mál og það hefur gert alla vinnslu málsins miklu erfiðari. Það var upplýst fyrir ekki mörgum vikum síðan að hæstv. fjármálaráðherra leyndi Framsóknarflokkinn þeim upplýsingum að í gangi væru samningaviðræður við Breta og Hollendinga um Icesave-málið þegar Framsóknarflokkurinn studdi við minnihlutastjórnina, og leyndi þingið því. (Gripið fram í.)

Það var líka upplýst í þeim sama leka að Vinstri grænir og Samfylkingin gengu til alþingiskosninga án þess að upplýsa kjósendur um málið í aðdraganda kosninga, að það væri verið að vinna að því að láta almenning á Íslandi greiða Icesave-skuldbindingarnar. Ef maður horfir á það raunsæjum augum er þessi ríkisstjórn, sá meiri hluti sem hún býr við, kosinn á röngum forsendum.

Það er vantraust ríkjandi í þessu máli og það gerir allan málflutning manna einfaldlega miklu erfiðari sem og úrlausn málsins, og tímahrakið sem menn lenda í gerir það að verkum að málið er illa unnið. Málið fékk aldrei efnislega meðferð í fjárlaganefnd eða í efnahags- og skattanefnd, ólíkt því sem gerðist sl. sumar þegar málið var unnið, þá var það unnið mjög vel. Í þessu tilfelli býr formaður fjárlaganefndar, hv. Guðbjartur Hannesson, við það að hann þarf að þjóna þremur herrum, hann þarf að þjóna hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra og sinni eigin samvisku. (Utanrrh.: Gleymdu ekki guði.) Í sumar sá ég það og merkti það vel að hv. formaður fjárlaganefndar vann þetta mál eftir sinni bestu samvisku og sannfæringu og fékk frið til þess að gera það, málið var vel unnið. Síðan málið kom aftur inn í þingið í þessari umferð og var dregið hér inn þvert á Alþingi sem var nýbúið að setja lög um málið, hafa fjárlaganefnd og formaður hennar einfaldlega ekki fengið nægan frið til að vinna það. Það er ekki formanninum að kenna, ég hef fulla samúð með honum í þessu máli. Ég hefði kosið að hann ynni öðruvísi á mörgum stigum þess en hann er einfaldlega ekki húsbóndi á því heimili eins og hann þyrfti að vera. Meðal annars þess vegna hefur þetta klúður verið í gangi í allan dag.

Ég var boðaður á fund í gærkvöldi í fjárlaganefnd út af bréfi Mishcon de Reya þar sem segir mjög skýrt að það séu gögn á leiðinni sem varpað geti nýju ljósi á Icesave-málið, þeir séu að taka þau saman og muni senda þau síðar þann dag. Klukkan rúmlega níu í gærkvöldi komu hér 29 skjöl, stafli af skjölum. Það kom svo í ljós þegar búið var að fara í gegnum þau skjöl að það var ekki samræmi á milli efnis þeirra skjala og þess sem sagði í bréfi lögmannsstofunnar frá því í gær. Þingfundi var frestað út af öllum þessum deilum og öllu þessu karpi og haldinn var fundur í fjárlaganefnd í nótt. Á þeim fundi var m.a. rætt um, eins og kom fram í bréfi Mishcon de Reya, að formaður íslensku sendinefndarinnar í Icesave-málinu hefði hugsanlega skotið undan gögnum sem átti að sýna utanríkisráðherra. Þetta eru stórmerk tíðindi ef rétt eru. Það hefur ekki enn þá fengist lausn í það mál. Það var óskað eftir því á fundi fjárlaganefndar í nótt að formaður samninganefndarinnar kæmi á fund nefndarinnar í morgun klukkan átta. Við þeirri ósk var ekki orðið heldur var meðtekin ein málsgrein í yfirlýsingu frá formanni þeirrar samninganefndar sem er þess eðlis að hún segir ekki neitt. Þetta er enn ein slæma aðferðin við að vinna málið.

Það var líka óskað eftir því á fundi fjárlaganefndar í nótt að þegar fundur hæfist í morgun lægi þessi stafli af gögnum fyrir þannig að nefndarmenn gætu farið í gegnum þau og kynnt sér hvað þar væri, að hægt væri að ljúka þeim fundi fyrir tíu í morgun og halda hér áfram með þingfund. Við því var heldur ekki orðið. Við mættum hér á fund í fjárlaganefnd klukkan átta og sátum þar eins og illa gerðir hlutir og hlustuðum á samskipti formanns nefndarinnar við gesti sem komu fyrir nefndina. Þeir töluðu um eitthvað sem aðrir fundarmenn höfðu ekki hugmynd um vegna þess að þeir höfðu ekki fengið gögnin. Þarna var því sóað heilum degi af þingstörfum algjörlega að ástæðulausu. Það væru allir þingmenn komnir heim til sín núna og í jólafrí ef málið hefði verið unnið betur. Það er sorglegt að þurfa að horfa upp á Alþingi Íslendinga vinna með þessum hætti.

Það hefur ýmislegt komið fram frá þessari lögfræðistofu, Mishcon de Reya, m.a. það að hún hefur alla tíð talið að hægt væri að ná betri samningum um Icesave-málið en gert var. Ég veit ekki til þess að þessir samningar hafi verið bornir undir nokkurn mann utan þingsins sem hafi ekki talið að hægt væri að ná betri samningum en þessum. Þetta eru vondir samningar, samningurinn sem gerður var í sumar og samningurinn sem liggur fyrir núna. Þeir eru það vondir að ég ætla að minna á það einu sinni enn að eitt fyrsta utanaðkomandi álitið sem fengið var í þessu máli var álit Elviru Mendez, prófessors í Evrópurétti við Háskóla Íslands. Í hennar áliti sagði einfaldlega: Þessir samningar eru þannig að það hallar það mikið á annan samningsaðilann að vegna þess eins yrðu þeir dæmir ólöglegir fyrir evrópskum dómstólum. Svoleiðis samningar eru vondir samningar fyrir þann aðila sem hallar á, það gefur augaleið.

Í kjölfar þess var lagt hér í mikla vinnu í allt sumar við að setja einhverja fyrirvara til tryggingar við þá samninga. Það tókst með mikilli og erfiðri vinnu og undir ágætri forustu formanns fjárlaganefndar þá, Guðbjarts Hannessonar. Þau lög voru samþykkt hér 28. ágúst. Það tók ekki nema þrjár vikur eða svo fyrir framkvæmdarvaldið að lýsa því yfir að þau lög þingsins féllu ekki Bretum og Hollendingum í geð og því þyrfti að breyta þeim. Þannig starfar framkvæmdarvaldið og þannig starfar Alþingi.

Yfirgangur framkvæmdarvaldsins í þessu máli hefur verið yfirgengilegur og það er sorglegt að það skuli hafa haldið þinginu nánast í gíslingu dögum og jafnvel vikum saman. Það sýnir hversu veikt þingræðið er í raun, ef það er þá eitthvert.

Það er margt óljóst í þessu máli. Meðal annars var, eins og kom fram hér áðan, haldinn fundur í fjárlaganefnd þar sem birtir voru þrír tölvupóstar. Fundinum var svo slitið í flýti og fimm mínútum síðar bárust fleiri póstar og virðast enn vera að berast því að ég sá á símanum mínum áðan klukkan tíu mínútur yfir þrjú, eftir að þingfundur hafði staðið í tíu mínútur, komu enn fleiri upplýsingar í þessu máli. Ég veit ekkert hvort það eru mikilvægar upplýsingar eða ekki því að ég hef ekki getað séð þær enn þá. Þingmenn eiga að tala um mál sem þeir kunna ekki nægilega góð skil á vegna þess að það er verið að flýta sér svo mikið með það. Það liggur ekkert á með þetta mál, Alþingi er búið að samþykkja lög þar sem segir að Íslendingar muni takast á hendur þessar skuldbindingar með vissum skilyrðum sem eru sanngjörn og eðlileg. Það er í fyllsta máta eðlilegt að þau lög verði látin standa og að þessum breytingartillögum framkvæmdarvaldsins, hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, sem hafa haft allt á öðrum endanum í fleiri vikur í haust og vetur, verði einfaldlega vísað frá.

Það er kominn tími til þess að taka hér á málum með sómasamlegum hætti. Það var gert í sumar þegar lögin voru afgreidd. Því hefur algjörlega verið klúðrað núna í vetur og það er kominn tími til að Alþingi standi í lappirnar í þessu máli þegar gengið verður til atkvæðagreiðslu á eftir og greiði atkvæði með annarri hvorri frávísunartillögunni sem hér er eða þá að málinu verði einfaldlega vísað til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst Alþingi hafa sýnt að það hefur ekki burði til þess að afgreiða þetta mál almennilega, það hefur bara ekki burði til þess þótt skömm sé frá að segja. Þess vegna á að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar.

Ég vona svo sannarlega að ég þurfi ekki að taka aftur til máls um þetta mál. Ég vona að það fái þann farsæla endi, að ríkisstjórnin fái það einfaldlega aftur í hausinn. Það sendir sterk skilaboð til Breta og Hollendinga um að þau lög sem samþykkt voru hér í sumar, sem kveða á um að Íslendingar ætli að standa við skuldbindingar sínar, verði látin standa og ég vona það bara að Alþingi standi í lappirnar og vísi þessu máli frá.