138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:24]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég læt mér það nú í léttu rúmi liggja þótt hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir skilji ekki hugarheim minn, ég sef alveg rólegur yfir því. (Gripið fram í.) Ég held því fram í þessu máli og stend við það að stjórnarandstæðingar hafa viljað nota tölvupóstssendingar frá Bretlandi, í þeim látum sem verið hafa út af þeim í dag og í gær, sem ástæðu til að hætta að ræða málið hér. (VigH : Rangt.) Þeir hafa komið ítrekað í ræðustól og beðist undan umræðunni, farið fram á það við forseta Alþingis að umræðunni væri slegið á frest (Gripið fram í.) á meðan tölvupóstssendingar (Gripið fram í.) frá Bretlandi bærust yfir hafið. Það hafa engar nýjar upplýsingar komið fram. (Gripið fram í.) Ég er ekki einn um þá skoðun. Allir gestir sem komu á fund fjárlaganefndar í morgun voru sammála um það. Það voru fyrrverandi samninganefndarmenn úr Icesave, (Gripið fram í.) það voru gestir frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda (Gripið fram í.) og fleiri. Allir þeir sem komu á fund fjárlaganefndar í morgun, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem ég held (Forseti hringir.) að hafi setið þar við hliðina á mér, og fleiri voru allir sammála þar: Ekkert nýtt (Forseti hringir.) hefur komið fram í þeim gögnum sem hv. stjórnarandstöðuþingmenn (Forseti hringir.) telja að leitt hafi til þess að algjör viðsnúningur hafi orðið í málinu. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Þetta er hneyksli.) (Gripið fram í.)