138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um lög varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem til er komin vegna mjög óvæntrar ákvörðunar forseta Íslands. Ég tel rétt að halda því til haga að hún kom flestöllum hér í þessum þingsal á óvart. Það er því ánægjulegt að hér sé algjör samstaða um það hvernig umgjörðin um þjóðaratkvæðagreiðsluna kemur til með að vera. Vissulega er það ljóst að ákvörðun forsetans hefur valdið þeim sem studdu málið ákveðnum vonbrigðum, ég tel að það sé öllum orðið ljóst. Það gladdi hins vegar þá sem undirrituðu áskorun til forseta Íslands að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar væri notað. En það er hlutverk okkar, þingmanna þjóðarinnar, að koma saman þeirri umgjörð sem nauðsynleg er til að þessi atkvæðagreiðsla fari fram í samræmi við lýðræðishefðir og að engir hnökrar séu á þeirri framkvæmd. Þess vegna er gott til þess að vita að í allsherjarnefnd var samstaða og þar var vandað til verka í dag.

Herra forseti. Það skiptir miklu máli hvernig við sem störfum á Alþingi tölum til þjóðarinnar næstu mánuði, næstu vikur, meðan beðið er eftir því að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram. Það skiptir miklu máli að við tölum af yfirvegun og að við einbeitum okkur að því að halda ró okkar þannig að það komi skýrt fram að við séum áfram að vinna að öðrum verkefnum, t.d. því að efla atvinnulífið og koma því aftur almennilega á fætur.

Þetta mál er stærra en við öll hér inni. Þetta mál, sem rætt hefur verið allt þetta haustþing og eins í sumar, er það stórt að við megum ekki falla í þá gryfju að tala um það á flokkspólitískum nótum. Því miður hefur það gerst en þessi óvænta ákvörðun forseta Íslands gefur okkur ný spil í hendur. Það er engin skömm að því að stíga nokkur skref til baka, horfa yfir hið nýja svið, skoða hin nýju spil sem við höfum á hendi og spila úr þeim. Þess vegna er mikilvægt að við notum næstu vikur, meðan beðið er eftir að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram, til að kanna samningsstöðu okkar gagnvart viðsemjendum okkar, Bretum og Hollendingum, með það að markmiðið að ná betri niðurstöðu en þeir samningar sem hér hafa verið gerðir gefa okkur.

Vissulega er deilt um það hversu góðir þeir samningar eru en ég tel að við séum öll hér inni sammála um að þessi breytta staða gefur okkur ný spil í hendur. Það er engin skömm að því að horfast í augu við það og vinna úr því í sameiningu og ég vonast til þess að sem mest sátt verði um það, enda hefur því verið velt hér upp að skipa í þá vinnu þverpólitískan hóp. Ég vona svo sannarlega að við þingmenn þjóðarinnar berum gæfu til þess að setja þetta mál í þann farveg.

Ég hef trú á því að þingmenn á þessu þingi hafi skynsemi til að bera til að setja málið í þennan farveg. Það er hins vegar algerlega ljóst að það fara af stað já- og nei-hreyfingar í þessu máli og það er ekkert óeðlilegt við það. En við verðum hins vegar að hefja okkur upp yfir flokkadrætti að öðru leyti í þessu máli, að sú kosningabarátta sem mun fara fram verði byggð á málefnalegum sjónarmiðum, að farið verði yfir efnisatriði málsins, að kjósendur fái hlutlausa skýringu á því hverjir eru kostir og hverjir eru gallar þeirra laga sem voru samþykkt fyrir áramótin og að unnið verði að þessu af miklum heilindum. Það verður að taka fyrir þann málflutning að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla snúist um eitthvað annað en þetta frumvarp. Það er mjög dapurlegt að ákveðnir einstaklingar skuli hafa farið með þetta mál niður á það plan. Svo er ekki. Við verðum að tala um málið eins og það er. Við erum hér í lýðræðissamfélagi þar sem forseti Íslands telur sér heimilt að beita þessu neitunarvaldi sínu og það hefur verið gert og nú er það þjóðarinnar að velja. Þjóðin þarf að gera það upp við sig hvort hún ætlar sér að styðja þessi lög eða fella þau úr gildi. Það er stóra spurningin.

Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að við í þinginu lærum af sögunni. Við vorum hér í sumar í sameiningu að smíða fyrirvara um Icesave-málið og það fundu það allir sem hér voru að mikil heilindi voru þar að baki. Það var ákveðin hugarfarsbreyting sem fylgdi þeirri vinnu allri. Við skulum reyna að endurvekja þá hugmyndafræði eins og við getum og læra af sögunni, fara ekki með þetta mál aftur í enn einn hnútinn sem stjórnast af einhverju öðru en því hvar hagsmunum er best borgið.

Herra forseti. Ég vil þakka allsherjarnefnd fyrir góða vinnu. Ég fagna þeirri samstöðu sem þar er. Ég vonast til að þau vinnubrögð verði okkur leiðarljós á næstu vikum. Þó að við komum til með að takast á hér í þinginu áfram vona ég að það verði byggt á málefnalegum forsendum.