138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög athygliverð umræða sem hér hefur farið fram um þessa tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun þar sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur rakið þær tvær ástæður sem ollu því að málið var rifið út úr umhverfisnefnd án þess að umfjöllun þar hafi verið nægjanleg og ekki fagleg að mínu mati. Mig langar að spyrja aðeins út í það vegna þess að við flutning þess máls ræddum við aðeins um það mikla ósætti sem skapaðist á sumarþinginu þegar málið var rifið með hörku út úr umhverfisnefnd. Við það tilefni sagði hæstv. umhverfisráðherra, með leyfi forseta:

„Ég vil að lokum lofa þingmönnum því að ég er talsmaður þess að náttúruverndaráætlun fái ítarlega og góða vinnu í umhverfisnefnd og vænti mikils af þeirri vinnu.“

Hvers vegna var ekki unnið eftir vilja umhverfisráðherra í nefndinni? Hvers vegna var ekki gefið færi á því að hagsmunaaðilar fengju að koma fyrir nefndina því að ég veit til þess að margir þeirra óskuðu sérstaklega eftir því.

Mig langar af því tilefni að gera eitt dæmi að umfjöllunarefni hér sem er Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar en þar liggur fyrir nýtt aðalskipulag Fljótsdalshéraðs þar sem farið var í mikla faglega vinnu við það að meta hvaða svæði væri æskilegt að friðlýsa. Þar var m.a. unnið eftir tillögum náttúrufræðings sem býr á Egilsstöðum og heitir Helgi Hallgrímsson og það liggur því mjög fagleg vinna að baki. Jafnframt hafa ábúendur Egilsstaða, þ.e. landeigendur þar sem Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar eru, lýst yfir harðri afstöðu sinni gegn þessum áformum. Mig langar að vita hvers vegna umhverfisnefnd ræddi ekki þetta atriði, og ef það var rætt, hvenær var það rætt? Það er alveg ljóst að þingsályktunartillaga er þingsályktunartillaga og þrátt fyrir að þarna sé lýst vilja þingsins hefur það ákveðið gildi og hefur náttúrlega (Forseti hringir.) áhrif á það hvaða friðlýsingar liggja í farvatninu í framtíðinni.