138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:45]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá fyrir þessar spurningar og athugasemdir. Að sjálfsögðu held ég að í öllum tilvikum sé eðlilegt að fólk fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég held að enginn þingmaður geti haft þá skoðun að ekki sé eðlilegt að hlusta á kjósendur sína eða hagsmunaaðila. Eftir sem áður hlýtur alltaf að koma að því að maður álítur sem svo að nú sé nóg komið af upplýsingum og á einhverjum tímapunkti verðum við í raun og veru að taka þær upplýsingar og athugasemdir sem fyrir liggja og fara yfir þær. Ég veit ekki betur en að ákveðnar athugasemdir hafi komið inn á borð nefndarinnar frá aðilum að austan, þannig að ég geri ráð fyrir því að á þær hafi verið hlustað.

Mig langar til að minna á það sem ég las upp úr athugasemdunum með frumvarpinu áðan að nú liggur fyrir ákveðinn grunnur og síðan er gert ráð fyrir því að farið verði í ákveðið ferli og þar ætla ég rétt að vona að mitt fólk fyrir austan komi af fullum krafti inn og komi með athugasemdir á sínum forsendum.