138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að verkefni náttúrustofa falli mjög vel að verkefnum þeim sem á að ná utan um með náttúruverndaráætlun var hvorki gert ráð fyrir því í þessari náttúruverndaráætlun þegar hún var lögð fram né í áliti meiri hluta hv. umhverfisnefndar að náttúrustofurnar ættu nokkra aðkomu að því máli. Þess vegna brá ég á það ráð að flytja þá breytingartillögu sem hér er tekin afstaða til og ég fagna því að hér virðist takast nokkurn veginn þverpólitísk samstaða um það mál. [Hlátrasköll í þingsal.] Hins vegar er það þannig — (Gripið fram í: Algjör samstaða.) algjör samstaða um þetta mál, og segi menn svo að orð mín hafi ekki einhver áhrif! Ég fagna því um leið og ég segi að því miður hefur verið illa að verki staðið að öðru leyti við gerð þessarar áætlunar. Þrátt fyrir að breytingartillagan sem hér er verið að afgreiða bæti nokkuð úr nægir það ekki vegna þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru í núverandi umhverfisnefnd (Forseti hringir.) til að ég treysti mér til að styðja málið í heild.