138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp sem hefur kallað á mikla umræðu, ekki bara innan þings heldur ekki síður utan þess. Það verður auðvitað að segja þá sögu eins og hún er, þetta er frumvarp sem felur í sér ávísun á miklar deilur vegna þess að hér er hreyft við málum sem mikill ágreiningur er um.

Það er mjög margt hægt að segja um þetta frumvarp og það er rétt að fara nokkrum efnislegum orðum um meginatriði þess eins og við fulltrúar minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar gerum í því nefndaráliti sem við höfum lagt fram og liggur fyrir. Það er auðvitað grundvöllur þess sem ég ætla að segja núna þegar ég fylgi því úr hlaði.

Það frumvarp sem hér er fjallað um hefur þann yfirlýsta tilgang að draga úr sveigjanleika og þar með hagkvæmni í sjávarútvegi. Þetta kann að vekja nokkra furðu en það kom hins vegar mjög skýrt fram í ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann fylgdi málinu úr hlaði 13. nóvember sl. Þar vék hæstv. ráðherra að því sem hann taldi ágalla í fiskveiðistjórnarkerfinu og sagði svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Hluta af ósætti þjóðarinnar má beint rekja til þeirrar stöðugu kröfu útgerða að skapað verði sem mest svigrúm og sveigjanleiki í fiskveiðistjórnarkerfinu.“

Síðar í ræðunni sagði hæstv. ráðherra, með leyfi virðulegs forseta:

„En engu að síður er það mín skoðun að of langt hafi verið gengið í ýmsum þessum efnum og næg tilefni séu til að taka skref til baka.“

Það verður að segjast eins og er að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin eru sjálfum sér samkvæm í þessum efnum því að með sanni má segja að með þessu frumvarpi sé ótvírætt stigið skref aftur á bak, dregið úr hagkvæmni, horfið frá ýmsum úrræðum sem gerðu fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að bregðast við sveiflum í heildarafla, fetuð slóðin inn á fyrningarleið þótt í smáu sé og gerðar breytingar á vel heppnaðri línuívilnun sem kemur til með að raska stöðu beitningarvélabáta. Enn fremur felur frumvarpið í sér breytingar á framsali sem munu setja ýmsar einyrkjaútgerðir í uppnám.

Síðast en ekki síst, og þetta vil ég undirstrika, er þetta frumvarp rof á þeim griðum sem ríkisstjórnin lofaði að mundu ríkja um sjávarútveginn á meðan tóm gæfist til að fara ofan í helstu álitamálin í sjávarútvegsstefnunni. Þessari vinnu sem ég er hér að vísa til var fundinn vettvangur í sérstakri nefnd sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði og í eiga sæti fulltrúar þingflokka og hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Sjálfur er ég þar sem fulltrúi míns flokks.

Þetta frumvarp hefur truflað mjög starf nefndarinnar, eins og öllum er kunnugt, sem hafði hafist handa við vinnu sína. Ég get um það borið vitni að tónninn í þessari vinnu var góður og vilji manna til að takast á við þetta vandasama verkefni var ríkur. Ég hygg að það hafi komið fram á þeim fundum sem ég sat að til þess væri einlægur vilji, menn gerðu sér grein fyrir því að þetta var vandasamt verkefni. Við erum að tala um erfið álitamál og mönnum var það ljóst að niðurstaðan hlaut að verða einhvers konar málamiðlun. Væri einhver meining á bak við þá hugsun að reyna að ná pólitískri sátt, sátt innan greinarinnar og sátt greinarinnar við þá sem gagnrýnt hafa fyrirkomulagið sem nú ríkir yrði það að vera einhvers konar málamiðlun þar sem allir yrðu að gefa eftir af sínum hlut. Þannig hygg ég að menn hafi viljað nálgast þetta í upphafi, það var sá tónn sem var sleginn og hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, lagði á það mikla áherslu í nefndarstarfinu í fyrrahaust.

Minni hlutinn telur það furðum sæta að stjórnarfrumvarp sem er lagt fram af þeim sama ráðherra og nefndina skipaði sé þannig úr garði gert að það leggi stein í götu þeirrar nefndarvinnu sem er unnin að frumkvæði hæstv. ráðherra. Ég skal ekki fullyrða að þetta tiltæki sé einsdæmi en fádæmi eru það mikil, svo sannarlega, sérstaklega í ljósi þess að ráðherrann sjálfur óskaði sérstaklega eftir því hálfum mánuði áður en hann mælti fyrir frumvarpinu að nefndin fengi starfsfrið. Þetta gerði hann á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna er hann sagði, með leyfi virðulegs forseta:

„Eins og þið þekkið þá ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Meginmarkmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar. Ég vil tiltaka hér sérstaklega að ég hef fyrir löngu“ — og þetta vil ég sérstaklega undirstrika — „ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka sinna án sérstakrar íhlutunar af minni hálfu. Ég tel mikilvægt að aðrir sem hér eiga hlut að máli haldi þessari sömu stefnu í heiðri.“

Minni hlutinn vekur athygli á að með frumvarpinu er gagnstætt tilgreindum orðum komið í veg fyrir að vinnuhópurinn fái frið til verka sinna án íhlutunar ráðherrans. Allir aðrir fóru að tilmælum hans. Griðin voru rofin af hálfu ríkisstjórnarinnar enda hafa nánast allir hagsmunaaðilar úr sjávarútvegi, þar með talin öll sjómannasamtökin, óskað eftir að frumvarpið yrði dregið til baka. Ég vil bæta við að Alþýðusamband Íslands, heildarsamtök launamanna á almennum markaði, óskaði eftir því að frumvarpið yrði dregið til baka til að skapa starfsfrið í vinnuhópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er ótrúlegt að hugsa sér að ekki skuli hafa verið brugðist við þessum tilmælum með jákvæðum hætti.

Nú hafa margir sagt sem svo: Það að hæstv. ráðherra skipi vinnuhóp kemur auðvitað ekki í veg fyrir að hann leggi fram ýmis mál sem varða sjávarútveginn. Það er rétt. Auðvitað er líka rétt að hæstv. ráðherra hefur það í valdi sínu hvernig hann metur þessi mál. En er þá ekki skynsamlegt þegar ætlunin er, og ég efast ekki um þann góða hug sem þar ríkti að baki, að reyna að ná sátt um og sameiginlegri niðurstöðu í þessum erfiðu álitaefnum að reyna að taka tillit til þeirra sem meta það svo að þetta tiltekna frumvarp skapi ósátt, það þvælist fyrir nefndarvinnunni og sé af þeirri stærðargráðu að eðlilegast væri að flytja sum af þeim verkefnum, sum af þeim álitamálum sem þarna eru borin upp, inn í starf nefndarinnar þannig að hún fái ráðrúm til að ljúka yfirferð um málið og komast að einhverri niðurstöðu? Ef ætlunin er að reyna að ná pólitískri niðurstöðu í þessum efnum sem sæmileg sátt er um væri eðlilegast að haga þannig verkum sínum. Það er hins vegar ekki gert. Ég ætla aðeins að vitna í bréf Alþýðusambands Íslands til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar frá 16. desember sl. þar sem sett eru fram eftirfarandi sjónarmið, með leyfi virðulegs forseta:

„Rétt er að hafa í huga að nú situr að störfum sérstök nefnd með fulltrúum helstu hagsmunasamtaka um heildarendurskoðun á umræddum lögum. Hætt er við að þær breytingar sem frumvarpið leggur til setji þessa vinnu í uppnám enda skiptar skoðanir um þær flestar.

Í ljósi þessa telur ASÍ farsælast að nefndin um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða fái frið til að ljúka störfum sínum án þeirrar truflunar sem hlýst af því að leggja fram það lagafrumvarp sem hér er til umsagnar.“

Nú veit ég að enginn ætlar það að hér séu að verki fulltrúar einhverra þröngra sérhagsmuna í sjávarútvegi þegar við erum að tala um álit Alþýðusamband Íslands. Alþýðusamband Íslands er eins og allir vita heildarsamtök launafólks á almennum markaði og þau gera sér auðvitað grein fyrir þeirri þýðingu sem það hefur fyrir þjóðfélag okkar og fyrir hagsmuni launafólksins að um þessi mál sé ekki teflt með þeim hætti að það skapi óþarfaóvissu og átök sem hægt er að komast hjá. Ég verð að segja eins og er að það vekur furðu mína að menn skyldu ekki reyna að bregðast við þessum sjálfsögðu tilmælum og reyna að koma málunum í þann farveg að um gæti skapast þetta meiri sátt.

Að öðru leyti vil ég segja almennt um þetta frumvarp rétt eins og ég sagði við 1. umr. málsins að það er ákaflega mótsagnakennt. Þar rekur sig hvað á annars horn, eins og hendir graðpening vorn, svo ég vitni líka í séra Jón á Bægisá eins og ég gerði í þeirri ræðu minni. Í öðru orðinu er sagt að brýnt sé að draga úr framsali aflaheimlda og gengur hluti frumvarpsins út á það. Í hinu orðinu er kveðið á um mikilvægi þess að stuðla að auknum leigukvóta og ganga breytingar frumvarpsins í þá átt.

Ákvæði um línuívilnun hafa verið umdeild í fiskveiðistjórnarlögunum. Minni hlutinn telur óumdeilt að þau hafi skapað aukinn veiðirétt í mörgum byggðarlögum og orðið þar til að efla útgerð. Yfirlýstur tilgangur þessa fyrirkomulags hefur verið byggðalegur ávinningur jafnframt því að stuðla að aukinni línuútgerð og atvinnusköpun í sjávarbyggðunum. Að mati þeirra sem gera út á línu hefur línuívilnun upp á 16% verið hvetjandi til línuútgerðar en þó ekki komið í veg fyrir að menn nýttu sér beitningavélatækni hafi þeir talið það skynsamlegt. Mat þessara sömu manna er hins vegar það að hækkun prósentunnar nú muni stuðla að því að útgerðarmenn grípi til þess ráðs að taka vélarnar úr bátum sínum og þar með er í raun lagður steinn í götu framþróunar í sjávarútvegi. Það er væntanlega gert með hliðsjón af þeim ásetningi hæstv. ráðherra að draga úr sveigjanleika og hagkvæmni í útgerð.

Þetta er auðvitað mjög undarlegt vegna þess að um þetta mál hafði, ég vil ekki segja skapast sátt, en menn höfðu þó a.m.k. viðurkennt tilveru línuívilnunarinnar og gerðu sér grein fyrir því að hún gat þróast þannig að hvort tveggja gat þróast, línuútgerð þar sem var handbeitt í landi og síðan beitningavélaútgerð. Auðvitað þarf hvort tveggja að eiga sér stað.

Nú er hins vegar hættan sú að þetta verði ekki þannig í framtíðinni eins og sjá má af fréttum um að menn séu núna í óðaönn að senda iðnaðarmenn um borð í bátana til að taka vélarnar burtu til að fá þessa auknu línuívilnun upp á 20%. Ég vek síðan athygli á því, eins og við gerum í álitinu, að þetta frumvarp felur ekki í sér stækkun á línuívilnunarpottinum í þorski. Sá pottur er lögbundinn upp á 3.000 og eitthvað tonn. Þetta frumvarp mun hins vegar eingöngu hafa þau áhrif að opna fleirum leið inn að ívilnuninni, það verður meiri þrýstingur á línuívilnunarpottinn þar sem þá verður minna til skiptanna fyrir hvern og einn. Það er að vísu rétt að línuívilnunarpotturinn upp á síðkastið með litlar aflaheimildir upp á 150.000–160.000 tonn hefur ekki nýst að fullu en hann mun auðvitað nýtast um leið og það tekst að auka aflakvótann. Eigum við ekki öll að trúa því að þannig verði það innan skamms tíma að við sjáum meiri kvóta í þorski sem gerir það að verkum að þessi 3.000 tonn nýtist? Þau nýttust á þeim tíma þegar aflinn var meiri. 3.000 tonnin voru búin til við ákveðnar forsendur þegar aflinn var yfir 200.000 tonn og þá nýttist þessi pottur. Nú er hins vegar eingöngu verið að opna fleirum leið inn í þetta þannig að hættan er sú að þetta fyrirkomulag gefi eftir og springi alveg eins og við sáum að gerðist á sínum tíma við hina svokölluðu línutvöföldun þegar menn höfðu ekki þrek til að takmarka aðganginn að pottinum en potturinn var hins vegar óbreyttur.

Þá birtist í þessu frumvarpi mikil forræðishyggja þar sem leitað er heimilda til handa hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að stýra vinnslu á uppsjávarfiski. Hingað til hefur ekki verið talin sérstök ástæða til að stjórn á vinnsluþáttum einstakra fisktegunda fari fram í ráðuneytinu þó að þar vinni ágætisfólk, heldur hefur verið talið eðlilegt að þær ákvarðanir séu í höndum útgerða og fiskvinnslu. Hér er verið að vísa til d-liðar 2. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um ráðstöfun uppsjávarafla. Með góðu skipulagi veiðanna og miklum tækniframförum á síðustu árum hefur manneldisvinnsla á uppsjávarfiski stóraukist án þess að um það gildi sérstakar vinnureglur sem skrifaðar eru við ráðuneytisborð. Þannig hefur verðmætaaukningin orðið mikil á þessum sviðum ef litið er til þess hráefnismagns sem er til ráðstöfunar. Það er vitaskuld eðlilegast að ákvarðanir um vinnslu á einstökum tegundum séu í höndum þeirra sem standa fyrir rekstri í sjávarútvegi en ekki hjá stjórnsýslunni. Reynslan sýnir okkur líka að fólki í sjávarútvegi, hvort sem það eru stjórnendur eða almennt starfsfólk, er ákaflega vel treystandi til þessa verks. Með því að taka upp fiskveiðistjórn við makrílveiðar, líka þær sem tíðkast við aðrar uppsjávarveiðar, er enginn vafi á því að verðmætaaukning yrði gríðarleg. Nefndar hafa verið tölur upp á allt að 6–8 milljörðum kr. í því sambandi. Sú veiðistjórn sem nú ríkir felur því í sér mikla sóun sem er mikilvægt að hverfa frá. Tilskipanaverk úr ráðuneyti og stofnunum er ekki líklegt til að stuðla að slíku. Þess vegna er skynsamlegast að nýta þann ramma fiskveiðistjórnarlaganna sem vel hefur gefist við uppsjávarveiðarnar og stuðlað að stóraukinni manneldisvinnslu, þar með verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu.

Auðvitað greinir enga á um það að við viljum að sem stærstur hluti af þessum afla sé unninn til manneldis. Tökum eftir hvað er núna að gerast í loðnuveiðunum. Það er búið að gefa út 130.000 tonna kvóta. Dettur einhverjum í hug að þeir bátar sem núna eru á loðnuveiðum reyni ekki að hámarka verðmætið? Auðvitað gera þeir það. Það hefur verið sagt frá því að þeir muni margir hverjir ekki fara til veiðanna strax vegna þess að þeir bíða eftir því að geta stundað veiðarnar þegar hrognavinnslan á sér stað. Þetta gerist af sjálfu sér án þess að hæstv. ráðherra taki ákvarðanir um þessa hluti. Fyrir utan það er þetta ákvæði mjög opið. Hæstv. ráðherra getur nokkurn veginn ákveðið þetta eftir „smag og behag“ ef þannig má að orði komast og sletta pínulítið dönsku. Hæstv. ráðherra hefur heimild til að ákveða þetta upp að 70% alveg án tillits til aðstæðna. Þetta fyrirkomulag er ekki við hæfi í nútímaatvinnurekstri og er afturhvarf til mikillar fortíðar og trúar á einhverja pólitíska forræðishyggju í atvinnurekstri sem ég hélt satt að segja að heyrði sögunni til. Við viljum hafa hér almennar leikreglur þannig að menn fari að lögum og menn vinni af ábyrgð en það á ekki að vera þannig að hæstv. ráðherra hafi um það skoðanir á degi hverjum hvernig eigi að vinna afla í einstökum tegundum, hvort sem það er uppsjávarfiskur eða eitthvað annað.

Það atriði frumvarpsins sem hefur vakið hvað mesta athygli er ákvæðið um skötuselinn. Það gerir ráð fyrir að aflaheimildir í skötusel verði auknar um allt að 80% umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar. Þetta er að sjálfsögðu gert þvert á ráðleggingar vísindamanna og þeirra sem hafa reynt að vinna okkur sess á alþjóðavettvangi sem ábyrgri nýtingarþjóð.

Í ákvæðinu er einnig beinlínis fetað inn á braut fyrningar. Það er að vísu gert undir öðrum formerkjum en þarna sjá áhugamenn um fyrningarleið hins vegar fordæmi sem vísa má til. Það kom glöggt fram við 1. umr. þessa máls. Þau rök sem beitt er hljóta að teljast afar hæpin svo ekki sé meira sagt. Það liggur fyrir í fyrsta lagi að veiðin verður langt umfram þau mörk sem eru talin ráðleg og það er alveg ljóst að þótt slíka tilraunastarfsemi megi viðhafa um sinn gengur það ekki til lengdar. Fyrr eða síðar verður að sveigja aflann að ráðlögðu aflamarki. Okkur er þetta auðvitað ljóst. Ef menn eru að veiða ár eftir ár 80% fram úr ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er það annaðhvort þannig að Hafrannsóknastofnun er gjörsamlega úti að aka í ráðleggingum sínum eða þá að það mun hafa áhrif á stofnstærðina. Sumir telja reyndar að það sé gott að minnka skötuselsstofninn. Þá verðum við að horfa framan í þá staðreynd að til ráðstöfunar verða þá ekki 4.500 tonn eins og hér er lagt upp með heldur miklu lægri aflatala.

Það kemur líka fram í áliti Hafrannsóknastofnunar og vekur mikla furðu að ekki var leitað sérstaklega eftir áliti Hafrannsóknastofnunar áður en þetta frumvarp var lagt fram. Við borð hæstv. ráðherra var skrifaður texti í þessa veru án þess að leita vísindalegrar ráðgjafar. Það vekur auðvitað mikla furðu, ekki síst á þessum tímum þegar mikilvægt er fyrir okkur að vanda okkur í hvívetna.

Í annan stað er vísað til þess að útbreiðslusvæði skötusels hafi aukist. Það er alveg rétt, það vita allir. En það á líka við um aðrar tegundir. Í áliti sem við fengum í hendur frá Hafrannsóknastofnun er t.d. sagt að það sé ljóst að þær breytingar sem hafa orðið í veiðum og útbreiðslu skötusels á undanförnum árum eigi sér hliðstæðu í nokkrum öðrum nytjastofnum. Nefnd eru dæmi af ýsu, ufsa, karfa, blálöngu og gulllaxi. Í áliti okkar er líka vakin athygli á því t.d. að síldin veiðist núna einkanlega fyrir vestan land en áður fyrir austan land. Þá vaknar þessi spurning sem hefur þegar verið borin upp í umræðunni: Verða þessir fiskstofnar sem ég vísaði til, og nefndir eru líka í áliti minni hlutans, teknir sömu tökum og hafin á þeim fyrning með þeim hætti sem hér er verið að gera?

Ég vek líka athygli á því í þessu sambandi, af því að ég talaði um ábyrgar veiðar, að Samtök fiskvinnslustöðva sem eru samtök fiskútflytjenda hafa miklar áhyggjur af þessu. Þeir segja, með leyfi virðulegs forseta:

„Framlagning frumvarpsins býður heim hættu á að orðspor okkar sem ábyrg fiskveiðiþjóð bíði varanlegan hnekki með tilheyrandi skaða. Líklegt verður að telja að íslenskur skötuselur verði gerður útlægur í okkar helstu mörkuðum fyrir sjávarafurðir komi bráðabirgðaákvæði frumvarpsins til framkvæmda.“

Virðulegi forseti. Hafa menn áttað sig á alvöru þessa máls? Hér eru engir flysjungar að tala. Þetta er ekki fólk sem hefur ekkert vit á málunum. Hér tala útflytjendur sem eru á hverjum einasta degi í samstarfi og sambandi við kaupendur sína á erlendum mörkuðum. Þeir segja að það sé ekki bara mögulegt, það sé ekki bara hugsanlegt, heldur sé það líklegt að íslenskur skötuselur verði gerður útlægur í okkar helstu mörkuðum fyrir sjávarafurðir ef þetta frumvarp verður samþykkt eins og hér er gert ráð fyrir. Á þetta var ekkert hlustað. Það var ekkert gert með þetta. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki ómakað sig til að tala við þessa menn áður en frumvarpið var lagt fram, ella trúi ég því ekki að hæstv. ráðherra sem er þessa dagana að reyna að fá það viðurkennt að aflaregla sú sem hann beitir í þorski verði tekin út af alþjóðlegum samtökum.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir mikilli aukningu á veiðiskyldu. Þetta er sannarlega umdeilt mál og það vitum við. Margir hafa talið að mikið framsal veiðiheimilda sé ein helst meinsemd aflamarkskerfisins. Hafa samtök sjómanna og útvegsmanna farið fram á að veiðiskyldan verði aukin til að draga úr leiguviðskiptum með kvóta. Aðrir, þar á meðal margir smábátasjómenn, hafa varað við því að það verði gert án a.m.k. einhvers aðlögunartíma. Bent hefur verið á að aukin veiðiskylda og þar með talið minna framsal dragi úr nýliðun og aðgengi minni útgerða. Sú leið sem við styðjumst við hér styðst við tillögur sem komu fram á sínum tíma frá samtökum sjómanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, í bréfi til þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þó er farið nokkru gætilegar í sakirnar og gert ráð fyrir þriggja ára aðlögunartíma til að valda ekki óbærilegri röskun hjá minni útgerðum sem hafa tiltölulega litla aflahlutdeild.

Það er sérstök ástæða til að vara alvarlega við áformum sem koma fram í frumvarpinu um að draga úr geymslurétti á fiskveiðiheimildum milli fiskveiðiára. Þetta ákvæði eins og það er í lögunum í dag er gríðarlega þýðingarmikið til að stuðla að skynsamlegri sókn. Það dregur úr sóknartengdum kostnaði, gefur markaðslegan sveigjanleika og jafnar sveiflur á afla. Geymsluréttur hefur verið við lýði í kvótakerfinu frá upphafi og jafnan verið ágreiningslaus. Aukinn geymsluréttur síðustu missirin hefur hins vegar verið gagnrýndur og talið að hann dragi úr leiguframboði á kvóta. Það er þó alröng fullyrðing og það sjáum við einfaldlega með því að skoða þær tölur sem fyrir liggja frá Fiskistofu um hvað var flutt á milli fiskveiðiára. Það sýnir að þessi fullyrðing sem ég vísaði til og við áréttum í þessu nefndaráliti okkar er einfaldlega röng.

Kostulegt hlýtur það líka að teljast að í frumvarpi sem er ætlað að stemma stigu við leiguframsali á aflaheimildum og hefur komið fram og er eitt af markmiðunum sem eru tölusett og tilgreind í þessu frumvarpi sé sett inn annað ákvæði, sem ætlunin er að gera að lögum, sem er beinlínis ætlað að auka leiguframsal á kvóta. Það er eins og að vinstri hönd stjórnarmeirihlutans viti ekki hvað sú hægri gjörir. Einu ákvæði í frumvarpinu er stefnt gegn öðru. Ég undirstrika þetta með geymsluréttinn milli ára vegna þess að það skiptir gífurlega miklu máli fyrir okkur, ekki síst þegar við erum að horfa upp á eins og hefur verið að gerast, m.a. vegna breytinga á hitaskilyrðum í hafinu og breytinga á göngumynstri fiskstofna, möguleika til að jafna þessar sveiflur milli ára. Hvernig halda menn t.d. að það hefði gengið ef þessi geymsluréttur hefði ekki verið til staðar þegar ýsustofninn stækkaði fyrst mjög mikið, sérstaklega á grundvelli eins árgangs, 2003-árgangsins, og minnkaði síðan aftur? Hægt var að draga úr sveiflunum með því að menn geymdu aflaheimildir milli ára í einhverjum mæli til að geta síðan svarað kröfunni frá markaðnum um afhendingaröryggi sem er kannski einn meginþátturinn í fiskveiðistjórnarkerfi okkar, það að tryggja markaðsöryggi. Fiskveiðistjórnarkerfið snýst ekki bara um fiskveiðar, það snýst ekki síður um alla þessa keðju í heild sinni. Kannski er þetta þýðingarmesti þáttur þess máls, að tryggja afhendingaröryggið vegna þess sem kaupir af okkur, þess sem ræður verðinu að lokum, þar sem í raun og veru ræðst hver afkoman er í sjávarútvegi.

Í frumvarpinu eru líka bráðabirgðaákvæði sem varða skiptingu á úthlutun karfaheimilda í gullkarfa og djúpkarfa. Þetta er í sjálfu sér alveg sjálfsagt mál. Við vitum að það er ekki góð aðferð eins og núna er að úthluta bara í einum bing gullkarfanum og djúpkarfanum. Þetta er eins og nefnt hefur verið álíka gáfulegt og það að úthluta bara í einum kvóta ýsu og þorski. Það er hins vegar nokkur vandi við þetta mál. Sú aðferð sem er lögð til í frumvarpinu mun hafa margs konar óhagræði í för með sér. Menn reyna ekki að átta sig í þessu frumvarpi á hinni raunverulegu veiðireynslu einstakra skipa í hvorri tegund fyrir sig. Við vitum það að einkanlega minni togskipin hafa ekki neina raunverulega veiðireynslu í djúpkarfa, einfaldlega vegna þess að toggeta þeirra hefur ekki gert þeim kleift að veiða þessa tegund. Verði þetta ákvæði frumvarpsins að lögum munu þessi skip hins vegar fá úthlutun í djúpkarfa án þess að geta nýtt sér hana.

Það er út af fyrir sig hægt að segja sem svo að þeir geti þá bara farið í það að kaupa og selja hver af öðrum. Við sjáum hins vegar hvaða viðskiptakjör verða í þessum efnum þar sem sá sem hefur engan möguleika á að veiða djúpkarfann hefur kvóta í þeim efnum, þarf að koma til þess sem getur veitt báðar tegundirnar og hefur auðvitað öll ráð í hendi sér. Þetta býður upp á algjörlega óeðlilega samskiptahætti í sjávarútveginum. Þetta býður upp á sóun og hluti sem er hægt að komast hjá. Þessar upplýsingar um raunverulega veðireynslu í hvorri tegund fyrir sig eru reyndar ekki alveg nákvæmar, en það hefði verið hægt að nálgast þær með tiltölulega mikilli nákvæmni með því að skoða afladagbækur, með því að skoða ýmis gögn frá Fiskistofu, skoða gögn frá Hafrannsóknastofnun og að mínu mati hefði verið hægt með lagabreytingu að tryggja að það væri þá gert með því að taka tillit til þessarar skekkju og hún einfaldlega viðurkennd til að ná markmiðinu þó að það tækist ekki að fullu.

Því miður ákvað meiri hlutinn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að hlusta ekki á þessi sjónarmið sem komu þó ekki sérstaklega og eingöngu frá okkur í minni hlutanum. Það kom fram í almennri umræðu í nefndinni að menn hefðu miklar áhyggjur af þessu fyrirkomulagi. Það kom líka fram hjá fjölmörgum hagsmunaaðilum sem komu til okkar, sendu okkur bréf o.s.frv. að það væri mikilvægt að reyna að gera þetta öðruvísi en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þess vegna vörum við alveg sérstaklega við því að farin sé þessi leið. Ég undirstrika það hins vegar að að lokum þurfum við auðvitað að úthluta þessum tegundum með aðskildum hætti en þá verður grundvöllurinn að vera þannig að það sé eitthvert vit í þessu.

Virðulegi forseti. Það mætti út af fyrir sig hafa ansi mörg orð um þetta frumvarp og ég hef í stórum dráttum rakið helstu atriðin í þeirri efnislegu umfjöllun sem við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar settum á blað. Ég harma það mjög að gripið skyldi vera til þess úrræðis rétt fyrir jólin að afgreiða þetta mál út úr nefndinni og freista þess ekki að vinna það betur og sérstaklega að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem upp komu um að fresta a.m.k. tilteknum ákvæðum í þessu frumvarpi, draga þau út úr frumvarpinu, afgreiða frumvarpið ekki hér og nú á Alþingi og gefa þeirri nefnd allt það svigrúm sem þyrfti og það án sérstakrar íhlutunar eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði svo mikla áherslu á að hún fengi, hvort sem væri frá honum, öðrum stjórnmálamönnum eða hagsmunaaðilum.

Því miður kaus nefndin þetta ekki. Hún valdi ófriðinn þó að friður væri í boði. Það er ákaflega sérstakt þegar við skoðum það að við erum að reyna að ná friði og sátt, reyna að ná einhverju samkomulagi um mál sem varðar gríðarlega miklu. Þess vegna urðu það mikil vonbrigði þann 17. desember þegar boðað var til aukafundar í nefndinni til að taka þetta mál út rétt fyrir jólin þó að öllum væri ljóst að mál yrði ekki til umræðu fyrr en síðar, og á þessu ári sem nú er hafið. Ég held að með því að nefndin hefði frestað málinu hefði verið gefið betra tóm til að vinna að þeim málum sem ég hef gert að umræðuefni og eru til umfjöllunar og á dagskrá þeirrar nefndar sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson leiðir. Þess vegna tel ég ákaflega brýnt núna að Alþingi segi skoðun sína á þessu máli með þeim hætti að þessu máli verði vísað frá. Af þeim ástæðum höfum við í minni hluta nefndarinnar lagt fram tillögu til frávísunar með rökstuddri dagskrá. Við teljum að þetta frumvarp ógni þeim stöðugleika sem þarf að ríkja í sjávarútvegi. Við teljum að þetta frumvarp geri rekstrarskilyrði sjávarútvegsins verri, það sé verið að feta sig inn á óútfærða fyrningarbraut, það sé ávísun á óábyrgar veiðar, það stórskaði markaðsstörf okkar og að á þessu þurfi þjóðfélag okkar ekki að halda. Við þurfum auðvitað að ræða um sjávarútvegsmálin og við vitum, virðum og skiljum að um þau mál er ágreiningur. Við verðum hins vegar að reyna að vanda okkur þannig í þessari umræðu að það skapi ekki óþarfatogstreitu og skapi ekki þá óvissu sem nú er sannarlega uppi í sjávarútveginum og kemur alls staðar fram, hvar sem maður kemur í sjávarbyggðunum, ekki síst í útgerðunum sem eru hikandi við að takast á hendur fjárskuldbindingar, leggja ekki í að fjárfesta í nýsköpun vegna þess að þau vita ekki hvort þau hafi fjárhagslega getu eða forsendur til að standa undir henni. Þeim er ekki ljóst það rekstrarumhverfi sem þeim verður búið.

Þetta frumvarp er vanbúið eins og kemur fram í rökstuddri dagskrá okkar, svo ég vitni til hennar:

„Frumvarp þetta er gjörsamlega vanbúið, stefnir í ranga átt auk þess að vera illa úr garði gert og er mikill skaði þegar sjávarútvegurinn þarf mjög á stöðugleika og vissu um framtíðina að halda. Frumvarpið gerir rekstrarskilyrði sjávarútvegsins verri auk þess að vera ávísun á óábyrgar veiðar og stórskaðar það markaðsstarf sem unnið hefur verið. Samkvæmt framansögðu samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir þetta nefndarálit rita auk mín hv. þm. Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Að lokum óska ég eftir því, virðulegi forseti, að þetta frumvarp gangi til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á milli umræðna.