138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

178. mál
[15:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og þykist vita að hæstv. félagsmálaráðherra verði líka til svara síðar í dag um sama efni. Í september settum við hæstv. félagsmálaráðherra á fót vinnuhóp til að fara yfir aðgerðir til að virkja atvinnulaus ungmenni og kortleggja það nám sem stæði þeim til boða og gera tillögur um úrbætur. Eins og hv. þingmaður nefndi fjallaði hópurinn fyrst og fremst um tengsl menntunar og atvinnuleysis og skilaði greinargóðri skýrslu í lok nóvember sl. sem heitir „Ungt fólk án atvinnu — virkni þess og menntun“.

Vinnuhópurinn beindi sjónum sínum sérstaklega að yngsta hópi atvinnulausra, þ.e. fólki undir þrítugu sem hefur minnsta menntun. Einkum er aldurshópurinn 16–24 ára viðkvæmur vegna þess að meiri hluti hans hefur einungis lokið grunnskólanámi og hefur litla sem enga reynslu á vinnumarkaði.

Mig langar aðeins að nefna þær stoðir sem tilraunirnar byggðu á því að þær tengjast í raun og veru um margt þeim áhyggjum sem hv. þingmaður nefndi í máli sínu. Tillögurnar byggðu á sex stoðum, í fyrsta lagi að sporna við neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis og fækka þeim sem væru óvirkir á atvinnuleysisbótum. Þar með ætti að efla með öllum hugsanlegum leiðum virkni hópsins, auk þess að gera símenntunarmiðstöðvum, framhaldsskólum og frumgreinadeildum kleift að taka á móti þessum einstaklingum. Hópurinn taldi að fyrst og fremst ætti að nýta þær námsleiðir og þau menntunarúrræði sem væru í boði og efla þau sem þegar hefðu reynst vel, en huga yrði að auknu framboði starfsnáms og sérstökum virkniskapandi námskeiðum fyrir þá sem hefðu lengi verið atvinnulausir.

Í þriðja lagi var rætt um að efla ráðgjöf við atvinnulausa, hvatningu og þrýsting á að þeir væru virkir í atvinnuleit sinni og sinntu virkniúrræðum sem væru í boði. Eitt vandamál sem tengist þessum hópi er að það þarf að hafa fyrir því að ná til einstaklinganna sem eru jafnvel búnir að vera atvinnulausir lengi, sækja sér ekki endilega nám að eigin frumkvæði og þurfa meira en bara tilboð, það þarf meiri þrýsting. Enn fremur var rætt um að standa þyrfti fyrir vitundarvakningu um afleiðingar atvinnuleysis og virkja allar leiðir til að ná til ungs fólks og aðstandenda þeirra, hvort sem væri í gegnum fjölmiðla eða eftir öðrum leiðum, og gera þyrfti greiningu á söfnun upplýsinga um atvinnuleitendur markvissari og samhæfðari.

Hvað varðar menntamálin var lagt til að fækka þeim sem væru óvirkir á atvinnuleysisbótum, fyrst og fremst nýta þessi menntunarúrræði, beina þeim inn í framhaldsskóla, námsúrræði símenntunarmiðstöðva óháð því hvort þeir ættu rétt til atvinnuleysisbóta eða ekki. Enn fremur þyrfti að vinna markvisst gegn brottfalli og gera sérstakar ráðstafanir til að framhaldsskólar gætu tekið á móti þessum hópi. Sérstaklega var kveðið á um að það sem er fyrirhugað í nýjum lögum, fyrirhugað nám til framhaldsskólaprófs, gæti verið fýsilegur kostur fyrir einhvern hluta hópsins og því væri brýnt að flýta þróun þess námsframboðs.

Enn fremur ræddi hópurinn um að í ljósi þess að fræðsluskyldu hefur nýlega verið komið á upp að 18 ára aldri þyrfti að huga sérstaklega að þeim sem væru yfir þeim aldri og lenda kannski á milli skips og bryggju því að framhaldsskólinn reynir að sjálfsögðu að taka á móti öllum upp að 18 ára. Að þessum hópi þarf að huga sérstaklega.

Í framhaldinu fóru menntamálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti í samstarf um það hvernig við gætum unnið og sett þessar tillögur í einhvern praxís. Við skrifuðum undir sameiginlega yfirlýsingu í desembermánuði sl. þar sem stefnt var að því að skapa ný námstækifæri fyrir einstaklinga á vor- og haustmissiri 2010. Segja má að þau skiptist í grófum dráttum í tvennt, að annars vegar sé reynt að ná sérstaklega til þessa hóps og ná hluta hans inn í reglubundið nám í framhaldsskóla við reglubundna innritun — það er að sjálfsögðu aðeins hluti — og hins vegar er unnið að nýjum námsleiðum fyrir þau ungmenni sem hafa leitað til Vinnumálastofnunar sem eiga að fara í gang núna í febrúar. Er sú vinna undir forustu Vinnumálastofnunar sem hefur í samstarfi við okkur leitað samstarfs við nokkra framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu, einnig á Akranesi og Suðurnesjum, um að móta slík námsúrræði. Þá erum við að tala um námsúrræði sem eru ekki algjörlega í anda hins hefðbundna framhaldsskólanáms eins og hv. þingmaður nefndi, heldur eru meira hugsuð sem sértæk úrræði, brúarsmíði getum við sagt, fyrir þessa einstaklinga til að komast aftur inn í skólakerfið eða til að halda áfram eitthvað annað, til að efla a.m.k. virkni þeirra og hæfni til að koma hugsanlega aftur út á atvinnumarkað.

Þessi vinna stendur yfir og kemur í framhaldi af þessari samstarfsyfirlýsingu sem var skrifað undir. Ég reikna með að hæstv. félagsmálaráðherra muni gera betur grein fyrir aðkomu Vinnmálastofnunar að verkinu. Við eigum von á því að þessi úrræði fari í gang núna í febrúar en að öðru leyti var í reglubundinni innritun í janúar reynt að gera sérstaklega ráð fyrir atvinnulausum ungmennum sem sæktust eftir hefðbundnu (Forseti hringir.) framhaldsskólanámi.