138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga.

[11:02]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þessa spurningu. Mér er ljúft að svara henni hér, um það sem snýr að skuldbindingum sveitarfélaga sem hingað til hefur verið kallað utan efnahagsreiknings og hefur verið fært inn í skýringar í ársreikningum hvort sem það er nr. 26, 27 eða enn aftar. Reikningsskilanefnd gerði tillögu til mín fyrir áramót og hún kann að vera einn þátturinn í því sem verður hnykkt á í þeirri breytingu á sveitarstjórnarlögum sem ég gat um áðan í svari við fyrirspurn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, frá og með síðustu áramótum skulu allar þessar skuldbindingar koma inn í efnahagsreikning. Þær verða ekki teknar bara í skýringum. Við vildum helst gera þetta um síðustu áramót en þá komu andmæli frá nokkrum sveitarfélögum í þá veru að vegna þess að þetta var ekki gert í ársfjórðungsuppgjörum fyrr á árinu væri ekki rétt að gera það í lok árs 2009. En það er alveg klárt að í efnahagsreikningunum fyrir 2010 verður þetta sett fram.

Önnur spurning hv. þingmanns er um það hvort eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafi heildaryfirlit hvað þetta varðar. Já, hún hefur það, hún tekur það inn og leitar þá í skýringunum og setur upp, má eiginlega segja, sinn eigin efnahagsreikning til að skoða það. Það er hins vegar alveg rétt að vandi nokkurra sveitarfélaga er til kominn vegna þessa og þeirra skuldbindinga sem þar koma á eftir.

Aðeins meira um þetta, virðulegi forseti. Ég held að ég sé ekki að uppljósta neinu leyndarmáli, vegna þess að við formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga eigum oft fundi með okkur, þegar ég segi að á fundi í gær kom fram að m.a. í handbók sveitarfélaga fyrir þetta ár verði skuldbindingar utan efnahagsreiknings færðar inn. Það var e.t.v. í bókinni sem kemur út fyrir árið 2009 en aðalatriðið er að þetta verður sett inn núna (Forseti hringir.) og það hefði verið betra að það hefði verið búið að gera fyrr.