138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gef mér það að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir láti sig stöðu þeirra sem leigja til sín aflaheimildir einhverju varða. Ef maður veltir fyrir sér þeim hagsmunum og spyr sig hvort þeir sem leigja til sín aflaheimildir sjái sér hag í því að framboðið á leigukvóta verði takmarkað meira en nú er, þá sjá menn auðvitað að frá því sjónarhorni séð væri það mjög óskynsamlegt. Það er nefnilega heila málið. Í frumvarpinu er lagt til að minna magn verði á leigumarkaði. Það leiðir til þess að leiguverðið mun hækka, það verður minni kvóti til að leigja. Það mun svo verða til þess að færri einstaklingar geta komist inn í greinina af því að þröskuldurinn verður hærri. Það eru engar mótvægisaðgerðir við þetta boðaðar í frumvarpinu, það er heila málið.

Hvað varðar skötuselinn fór ég alveg sérstaklega yfir það að sú aðferð sem ríkið ætlar sér að beita, þ.e. að ákveða 120 kr. gjald á hvert kíló þegar fyrir liggur að markaðsverðið virðist vera í kringum 330 kr., þýðir það að mikið er upp úr því að hafa að leigja þann kvóta af ríkinu, sem þýðir þá að umframeftirspurn verður, það er alveg augljóst. Ríkið hefur ekki séð neina ástæðu til að finna út hvernig það ætlar að leysa það. (Gripið fram í.)

Hvað varðar hlutdeildina, eðli málsins samkvæmt eiga þeir sem leigja ekki hlutdeild, þeir eru að leigja, það liggur í orðanna hljóðan. Það sem skiptir mestu máli í þessu og hefur verið grundvöllurinn og bakbeinið í þessu kerfi er það að menn hafa getað treyst því að þegar það er skorið niður eiga þeir möguleika á því að fá það þegar aftur er aukið. Og þó að þannig færi að sett yrðu 3.000 tonn aftur til þeirra sem eiga núna þennan kvóta í skötuselnum og síðan aukningin eitthvert annað, þá alveg á nákvæmlega sama hátt er búið að aftengja þetta, af því að það verður að virka í báðar áttir, frú forseti.