138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:18]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt varðandi þann þátt ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sem ég vil gera að umtalsefni, það er þessi aukning í línuívilnuninni og sú staðreynd að sá pottur sem þar hefur legið fyrir hefur ekki nýst sem skyldi, en hv. þingmaður þekkir það mætavel og veit auðvitað hvernig ívilnunin hefur komið til góða, bæði á Vestfjörðum og víðar. Í ljósi þess að aflahlutdeild í þorski er takmörkuð í dag og potturinn hefur ekki nýst, spyr ég hv. þingmann: Er ekki allt í lagi að fara með ívilnunina upp og bregðast síðan við ef aflahlutdeild verður aukin síðar meir? Þannig að brugðist verði við því að ívilnunin nýtist til fulls eftir þeim tilgangi sem henni var ætlað á sínum tíma. Ég get svo sem tekið undir með hv. þingmanni að á því kerfi voru bæði kostir og gallar, en ég held að kostirnir vegi þyngra en gallarnir. Það er mitt mat á þessu, sérstaklega út frá því að veiðarnar eru vistvænar og ég hef haft þær hugmyndir að ef sett eru 100% á þau veiðarfæri sem verst fara með lífríkið eða eru ágengust við lífríkið í sjónum, þá ættu þau veiðarfæri sem eru vistvænust að fá meira, eins og menn hafa varpað fram sem hugmyndum. Ég vil líka leita eftir skoðun hv. þingmanns á því.