138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að ef þessi fiskur væri ekki veiddur af þeim aðilum sem eru í strandveiðunum mundi tilsvarandi magn samt verða veitt annars staðar, það er alveg hárrétt. En það er nú svo að fiskurinn í sjónum er þjóðareign og nýtingarrétturinn er tímabundin ráðstöfun. Það er mat mitt og þeirra sem stóðu að strandveiðum á síðastliðnu sumri, og hér er flutt frumvarp um, að þessi tilhögun að taka þó ekki sé nema svona lítið magn — þetta er ekki mikið magn af heildaraflamarkinu sem þarna er um að ræða — og ráðstafa því hafi sýnt sig að mikill fjöldi fólks út um allar minni byggðir landsins nýtti sér það þó að þarna væri um mjög skamman tíma að ræða á síðasta sumri. Og það sem skýrslan dregur sérstaklega fram eru hin miklu jákvæðu samfélagslegu áhrif af þessum veiðum. Við vitum að það hefur verið ósætti um það og skoðanamunur á því hversu kerfið væri lokað, þannig að menn kæmust ekki einu sinni til veiða þótt afmarkað væri án þess að hafa til þess aflaheimild í eign. Með þessu er verið að opna á mjög afmarkaðan hátt, það er ekki opnað fyrir atvinnuveg en það er opnað fyrir veiðar fólks sem uppfyllir þau skilyrði sem krafist er til að fara á sjó og draga fisk að landi og fénýta sér það innan mjög þröngra marka. Ég er sannfærður um að þær afmörkuðu heimildir sem veittar eru svona og hægt er að nýta vítt og breitt um landið eru samfélagslega mjög til góðs.