138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir yfirgripsmikla og ágæta ræðu. Ég tók eftir því að hv. þingmaður nefndi þá skoðun Framsóknarflokksins að það væri stefna flokksins að fara með inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni. Nú er ég í hópi þeirra sem telja að hugtakið þjóðareign sé afskaplega hæpið lögfræðilegt hugtak en látum það liggja á milli hluta.

Ég vil frekar inna hv. þingmann eftir því hvort hann gæti verið sammála mér um að hægt sé að nálgast umræðuna um eignarhaldið á auðlindinni með eftirfarandi hætti, þ.e. að íslenska ríkið fyrir hönd íslensku þjóðarinnar á og fer með fiskveiðiauðlindina. Með öðrum orðum, það er sjávarútvegsráðherra sem tekur ákvörðun að fenginni ráðgjöf frá vísindamönnum um hversu mikið má veiða á hverju ári úr hverjum stofni fyrir sig, það er íslenska ríkið sem ver hagsmuni íslensku þjóðarinnar í samskiptum við önnur ríki, ver fiskveiðilögsöguna með landhelgisgæslu og öðru slíku, en síðan sé um að ræða séreignarrétt útgerðarmanna á veiðiheimildum. Þetta sé í sjálfu sér ekkert öðruvísi fyrirkomulag heldur en að líta svo á að íslenskt land sé sameign okkar allra, landið Ísland sé eign Íslendinga, en það sé þá þannig að bændur hafi séreignarrétt á jörðum sínum, nýtingarrétt á jörðunum, og að þau hugtök rekist ekki á, þ.e. að annars vegar sé það einhvers konar eign, hvort sem ríkið eða í það minnsta ekki eins skýrt skilgreint að sé þjóðareign á landi en geti um leið verið séreign bænda á jörðum sínum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að menn ræði þetta því þetta er grundvöllurinn að auðlindanýtingu, þetta er grundvöllurinn að því að við getum nýtt auðlindir Íslands með skynsamlegum, arðbærum og sjálfbærum hætti. Sagan er um það hvernig þær þjóðir sem hefur mistekist þetta hafa glutrað auðlindum sínum niður. Ég hef áhuga á að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.