138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að gerð hefur verið breyting á þeirri dagskrá sem lá fyrir þessum fundi í dag. Þetta mál átti að koma til umræðu síðar í dag, það var síðast á dagskránni. Ég er nokkuð sannfærður um að margir þingmenn sem hefðu haft áhuga á að taka þátt í þessari umræðu og viljað leggja hér orð í belg í mikilvægu máli áttu von á því að umræðan færi fram síðar í dag. Ég mun inna forseta eftir því síðar hver ástæðan var fyrir því að dagskránni var breytt með þessum hætti og án nokkurs samráðs við formenn þingflokka, í það minnsta stjórnarandstöðunnar. En gott og vel, hingað er málið komið.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé tímabært og jákvætt að við reynum að samþætta sem best það sem við erum að gera í samgöngumálum, hvað varðar öll samskipti, samskiptakerfi o.s.frv. Við erum með lögbundnar áætlanir um hvernig skuli farið með ríkisfjármuni og hvar þeim skuli vera beitt til þess að efla byggð í landinu og efla almenna velferð. Því hlýt ég að fagna þessum þættinum og tel að það sé í sjálfu sér löngu tímabært að ná fram meiri aga og meiri samvinnu hvað þessa þætti varðar.

Síðan er þetta hitt, þ.e. hvernig best sé að standa að þessu. Ef ég hefði svolítið meiri trú á ríkisstjórninni þá mundi ég nú einmitt fagna því að ríkisstjórninni væri falin þessi vinna en það verður að segjast eins og er að eftir að hafa fylgst með störfum þessarar ríkisstjórnar í eitt ár er ég ekkert sérstaklega bjartsýnn á að mikið komi úr þessari vinnu, því miður. En við skulum láta reyna á það og sjá hvað verður. Ég er viss um að í það minnsta þetta er ekki til hins verra, að menn reyni að ná saman þessum þáttum.

Mig langar aðeins að velta hér upp ákveðnum hugtökum. Hér er talað um það að tryggja, frú forseti, og með leyfi: „Að tryggja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma.“

Þetta er gott og göfugt markmið en þegar verið er að ræða um samkeppnishæfni landa og þátt ríkisvaldsins í því þá verða menn að skilja að það er mjög mikilvægt að nálgast þetta út frá almennum sjónarmiðum. Hvað á ég við með þessu? Ég tel ekki skynsamlegt að ríkisstjórnir, hvort sem það er þessi ríkisstjórn eða einhver önnur, taki ákvörðun um t.d. of mikið eða taki of stórar ákvarðanir, of mikinn þátt í ákvörðunum um einstaka þætti atvinnuuppbyggingar, veðji um of á einstaka atvinnuþætti. Það sem ég tel að megi alveg gagnrýna hér í gegnum tíðina, t.d. varðandi stóriðjuuppbyggingu og má þar nefna umræðuna um Kárahnjúkavirkjun, ég held að það hafi verið alveg gagnmerk rök — þó menn hafi ekki kannski verið alveg sammála þeim — sem voru færð fram á þeim tíma, að það hefði kannski verið betra að bíða með framkvæmdina. Menn hafa líka velt fyrir sér hvað varðar umræðuna um eignarhaldið á Landsvirkjun hvort heppilegt sé að sami aðilinn sé eftirlitsaðili fyrir þjóðina á umhverfinu, þ.e. ríkið, og um leið eigi ríkið og reki aðalorkufyrirtækið, sem síðan virkjar o.s.frv.

Allt er þetta til umhugsunar en punkturinn er þessi: Það er auðvitað fólkið í landinu sjálft, fyrirtækin og samtök fólksins í landinu, sem síðan eiga að taka ákvarðanir um hvað það er sem við erum best í að gera. Samkeppnishæfnin felst í því að við höfum hér regluverk sem er skýrt og öruggt. Að það sé eftirlit með því að menn fari eftir reglum, að reglurnar séu einfaldar og þær séu ekki til þess fallnar að gera mönnum erfiðara fyrir þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Jafnframt skiptir alveg gríðarlega miklu máli að skattar séu ekki háir, að það sé gætt mikils hófs í skattlagningu, að ríkissjóður landsins sé rekinn í sem bestu jafnvægi, að það sé festa í stjórn peningamála og að það sé festa í allri stjórnsýslu. Það er þannig sem þjóðir ná samkeppnisforskoti. Það er grundvöllurinn.

Við Íslendingar erum blessuð þjóð hvað það varðar að við eigum alveg gríðarlegar auðlindir, bæði orkuna, náttúruna, fiskinn í hafinu umhverfis landið og kannski síðast en ekki síst, mannauðinn, menntunina og mikinn og öflugan vilja til þess að vinna. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Það er í þessu sem grundvallaratriðin eru fólgin þegar kemur að samkeppnishæfni þjóðar.

Þess vegna verð ég að segja eins og er, þó að ég fagni að öllu leyti því að þessi tillaga sé komin fram, að það náttúrlega er í landinu ríkisstjórn sem kaus að fara þá leið að hækka ekki bara skatta — þegar það hafði verið bent á leið til þess að komast hjá því að gera það, ábyrgar leiðir til þess að komast hjá því að gera það — heldur líka fór í það að kollsteypa og gjörbreyta skattkerfinu án nokkurs undirbúnings, án þess að leggja niður fyrir sér nákvæmlega hvaða afleiðingar slíkar breytingar á skattkerfinu mundu hafa í för með sér, sem gerði það auðvitað að verkum og hefur gert það að verkum að nú þegar hefur samkeppnishæfni landsins stórskerst. Í hverju felst það? Það felst í því að það er núna óvissa um hvað fram undan er í skattamálum, enda sagði hæstv. fjármálaráðherra á fundi nú nýverið þegar hann var að lýsa skattastefnu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta, þá á erlendri tungu: „You ain't seen nothing yet.“ Sem útleggst væntanlega: „Þið hafið ekki séð neitt enn þá.“ Með öðrum orðum þá er gríðarleg óvissa um skattastefnu ríkisstjórnarinnar.

Þegar við fáum svona þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórnin talar um samkeppnishæfni landsins þá fer maður auðvitað að bera saman hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera undanfarna mánuði og undanfarin missiri og svo þau annars ágætu og fallegu orð sem hér eru sett á blað. Þetta er ágætlega og sniðuglega samansettur texti en hann er bara í svo hrópandi mótsögn við það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að gera undanfarna mánuði og missiri.

Ég ætla að taka eitt lítið dæmi. Það er ekki stórt en það er alveg lýsandi. Það snýr að hæstv. sjávarútvegsráðherra sem kemur úr flokki Vinstri grænna. Hér er talað um, með leyfi frú forseta: „… að það skuli stuðlað að jafnrétti og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.“

Þetta kemur frá ríkisstjórn sem í situr hæstv. sjávarútvegsráðherra sem nú hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp þar sem hann fer fram á að fá heimild til að fara 80% fram úr þeirri ráðgjöf sem vísindamenn hafa lagt fram nú þegar um hversu mikla veiði skötuselsstofninn á Íslandi þolir. Þetta er ekki stórt mál í sjálfu sér, þetta er ekki svo mikið magn af skötusel sem um var að ræða, en þetta er spurningin um viðhorf, að það sem maður segir og það sem maður gerir fari saman.

Hérna, frú forseti, er tillaga til þingsályktunar með mörgum fallegum orðum og góðum meiningum. Á móti því plaggi eru síðan gerðir ríkisstjórnarinnar. Þetta fer ekki vel saman. Þetta veit hæstv. forsætisráðherra auðvitað og þetta vita hv. þingmenn af því við höfum verið að fylgjast með því núna og það kom m.a. fram í svari hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag þegar hæstv. ráðherrann var spurður um hvað liði eða hvernig stæði varðandi tekjuöflun ríkisins á fyrstu mánuðum þessa árs þá kom fram í svarinu að það væri greinilega að kólna í hagkerfinu, það væri að draga saman. Hvers vegna skyldi það nú vera, frú forseti? Jú, m.a. vegna þess að það var farið í það að hækka skatta og búa til óvissu í skattkerfinu, sem hefur gert það að verkum að samkeppnishæfni Íslands hefur verið að minnka dag frá degi, m.a. vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórnin hefur verið að búa til með málatilbúnaði sínum hér í þinginu.

En svo ég víki aftur að þingsályktunartillögunni sjálfri og texta hennar þá vil ég ítreka að ég er ánægður með að það eigi að fara í þá vinnu að samþætta og ná fram meiri vinnu eða samvinnu í undirbúningi og vinnu á þeim áætlunum sem við erum krafin um hér á Alþingi samkvæmt lögum um að leggja fram, samgöngumálum, fjarskiptamálum, hafnamálum og hvað eina sem það er. Það er skynsamlegt fyrir fámenna þjóð í stóru landi að láta þessar fjárfestingar okkar vinna saman, ef svo má a orði komast, þ.e. að fá sem mest út úr fjárfestingunum, nýta þær sem best til þess að tryggja að þeir fjármunir sem takmarkaðir eru nýtist þjóðinni með sem bestum hætti.