138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina máli mínu til hv. 1. þm. Suðurk., Björgvins G. Sigurðssonar. Tilefnið er að nú liggur mjög á fyrir okkur Íslendinga að áform sem uppi eru um álver í Helguvík og stóriðju þar gangi fram. Þetta skiptir miklu máli fyrir okkur og má glöggt sjá það t.d. í forsendum fyrir fjárlögum á þessu ári að gert er ráð fyrir þessum framkvæmdum. Fyrir liggur mat fjármálaráðuneytisins eftir að spurningar komu frá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um hvaða áhrif það hefði ef dráttur yrði á þessari framkvæmd. Með leyfi forseta ætla ég að lesa úr þessu svari:

„Ef framangreindum framkvæmdum verður frestað um eitt ár eykur það mjög líkurnar á því að hér verði samdráttur á næsta ári [þ.e. á árinu 2010] en ekki lítils háttar hagvöxtur eins og gert er ráð fyrir.“

Með öðrum orðum, hér er um að ræða forsendur fyrir fjárlagafrumvarpinu, forsendur fyrir tekjugrunni íslenska ríkisins á þeim tímum þar sem við þurfum á öllu okkar að halda til að komast í gegnum jafndjúpa kreppu og raun ber vitni.

Þess vegna er rétt að spyrja hv. 1. þm. Suðurk. Björgvin G. Sigurðsson: Er þingmaðurinn sammála mér um að það sé rétt fyrir Landsvirkjun að huga að þeirri bókun sem gerð var í stjórn fyrirtækisins 8. nóvember 2007 þar sem tekið var fram að ekki yrði um orkusölu að ræða til nýrra álvera á suðvesturhorninu? Ég tel að þær forsendur sem þá voru lagðar til grundvallar hafi breyst. Mikilvægi þessarar framkvæmdar er óumdeilt, eins og fram kemur m.a. í því svari sem ég vitnaði til. Það er alveg nauðsynlegt að ríkisstjórnin byrji á því að virða þann sáttmála sem hún gerði við Samtök atvinnulífsins og við verkalýðshreyfinguna um að hrinda úr vegi allri fyrirstöðu gagnvart því að þessi áform nái fram að ganga og við nýtum okkur þá möguleika sem við höfum sannarlega til að vinna okkur út úr þessari erfiðu kreppu. Þá er nauðsynlegt að það liggi fyrir alveg tryggt að hægt sé að afla allrar þeirrar orku sem nauðsynleg er til að hægt sé að fara af stað með þessa framkvæmd. Þá skiptir máli hvað Landsvirkjun ætlar að gera í þessum málum.