138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

vopnaleit á Keflavíkurflugvelli.

221. mál
[14:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekkert nýtt sem þarf að koma fram nú þegar þessari umræðu er að ljúka. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan varðandi þjóðhöfðingja, forsætisráðherra, maka þeirra og erlenda gesti, undanþágan er bæði veitt í virðingarskyni við hina erlendu gesti og einnig vegna þess að þeir ferðast iðulega með eigin lífverði sem oft bera vopn. Vopnaleit hefur því í þeim tilfellum takmarkað vægi enda er þessum aðilum alltaf fylgt út í loftfar af lögreglu. Við þetta er ekki miklu að bæta. Þetta eru vinnureglur sem eru viðhafðar samkvæmt reglugerð sem sett var með hliðsjón af lögum.

Út af því sem hv. þingmaður hefur tvisvar spurt mig að, þ.e. um plastpokana með rennilásnum, þá hef ég bara ekki hugmynd um það. Ég ferðast ekki mikið með vökva á mér af skiljanlegum ástæðum, ekki þarf ég hárvökva til þess að setja í litla plastpoka með rennilás, þannig að ég veit ekki hvað er á bak við þetta. Mér finnst alltaf voðalega ánægjulegt og skemmtilegt að sjá fólk vinna í flughöfnum um allt land við að troða ofan í þessa litlu poka, setja inn og þar með er allt gert.

Að öllu gamni slepptu, virðulegi forseti, þá er búið að herða þessar reglur svo mjög eftir ýmislegt sem gerst hefur í alþjóðlega fluginu. Það er auðvitað þannig með ýmislegt sem gerist í fluginu að yfirleitt er brugðist við því með að herða reglur og það kemur niður á notendum. Fólk þarf orðið að mæta fyrr á vellina og ganga í gegnum miklu strangari skoðun. Þetta þurfum við að búa við vegna þess að glæpamenn hafa komist inn í vélar, tekið sér far með þeim og ógnað öryggi flugfarþega en það á náttúrlega ekki að eiga sér stað.