138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

upplýsingar í ökuskírteini um vilja til líffæragjafar.

175. mál
[17:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir að fylgja þessari þingsályktun úr hlaði og hafa flutt hana enn einu sinni. Hún var flutt á 132. og 133. löggjafarþingi. Ég man eftir því að þetta var mikið baráttumál hv. þáverandi þingmanns Ágústs Ólafs Ágústssonar en hér hefur hv. þingmaður ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar lagt fram þessa þingsályktunartillögu og flutt hana hér með rökum sem sett eru fram. Það er allt saman gott og góðra gjalda vert.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni var í janúar talið nauðsynlegt að breyta reglugerð um ökuskírteini út af ákveðnum atriðum — hvort það var í 1., 2. og 3. gr., í öllum eða einstökum man ég ekki nákvæmlega. Þá hugsaði ég til þessarar áralöngu baráttu, að þetta þyrfti að setja í ökuskírteini og væri sennilega best geymt þar. Þess vegna var þessu bætt inn í þessa reglugerð sem hv. þingmaður minnist á og var loksins undirrituð 1. febrúar á þessu ári, fyrir mánuði síðan. Í 4. gr. er sett inn í reglugerð að þetta sé hægt. Í b-lið er sagt hvernig þetta muni gerast, að númer gefi til kynna að skírteinishafi hafi gefið yfirlýsingu um að hann sé líffæragjafi. Það kemur fram í dálk 12 í ökuskírteinum, fyrir þá sem eru með svoleiðis við höndina og geta skoðað hvar þetta verður gefið til kynna.

Hv. þingmaður hefur farið í gegnum þetta allt saman í greinargerðinni, sem er góðra gjalda vert, um yfirlýstan vilja til líffæragjafa, að þetta geti bjargað mannslífum og allt það. Ef til vill þekkjum við dæmi þar sem líffæri hafa verið gefin og bjargað mannslífi og gerbreytt lífi þeirra sem voru líffæraþegar. Það er bara hið besta mál og ég er sammála því sem kemur fram í þessari reglugerð að þetta sé sennilega best gert í ökuskírteini vegna þess að þar er pláss.

Ég hlustaði líka á hv. þingmann sem talaði um hvort það væri of skrifræðislegt að beiðni skyldi undirrituð í viðurvist lögreglustjóra. Það má vel vera, ég þarf eiginlega að skoða það betur, þá breytum við reglugerðinni. Kannski er nóg að viðkomandi geti sent lögreglustjóra bréf þar sem er vottuð rétt undirskrift og upplýsingarnar fari þá inn í gagnabankann sem þarna er talað um. Þegar ég og hv. þingmaður ræddum um þetta mál rétt áður en umræðan hófst benti hv. þingmaður á að hún hefði ekki tekið eftir þessu. Ég skoðaði vef ráðuneytisins og einhverra hluta vegna hefur ekki verið sett frétt eða fréttatilkynning um þetta þar. Það hefur sennilega gleymst, en hv. þingmaður nefndi það hvort við ættum að auglýsa þetta eða kynna þetta betur. Ég er alveg sammála því að það sé gert og hygg að það sé þá langbest að samgönguráðuneytið auglýsi að þetta hafi verið gert, að þetta sé heimilt og hvernig fólk skuli bera sig að við að koma upplýsingum áleiðis. Það er auðvitað langbest og verður að gerast þannig að fólk viti að þetta sé heimilt og þetta verði sett í ökuskírteinið. Það er langbest að gera það þannig, virðulegi forseti. Það er ánægjulegt þegar framkvæmdarvaldið getur komið hlutunum í framkvæmd eins og hér hefur verið gert og að það skuli vera komið inn. Það er gott að þingmaðurinn hefur verið iðin við að flytja þetta frumvarp og að þetta sé þá komið til framkvæmda. Ég ítreka það sem ég sagði: Ef það er of skrifræðislegt að menn þurfi að ganga til lögreglustjóra skulum við skoða hvort ekki sé heimilt að breyta því. En ég tek líka eftir því í greinargerðinni þar sem er talað um lög nr. 16/1991, um brottnám líffæra, að þeir sem samið hafa þessa reglugerð á vegum ráðuneytisins hafa örugglega haft þetta allt til hliðsjónar sem hér er, en við skulum bara fara betur í gegnum þetta.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir til þingmannsins og annarra fyrir að hafa flutt þessa þingsályktunartillögu. Það er þá gott að geta komið og sagt: Það er búið að gera þetta og þetta er alveg klappað og klárt.